Nú er liðin ein svefnminnsta helgi í sögunni, er hálfringluð eftir þetta alltsaman. Fyrst var árshátíð stjórnmálafræðinema á föstudaginn í Stapanum, allt rosa fínt og góður matur, en svo fór það nú að verða deginum ljósara að til að skemmta sér almennilega þarna eftir að skipulagðri dagskrá lauk varð að hrynja í það, og ég var auðvitað á bíl svo það kom ekki til greina. Þannig að ég fór fljótlega í bæinn bara, kíkti á nokkra staði og fór svo heim. Þurfti svo að vakna tveim tímum seinna til að opna Laugar með Jóhönnu, sem var hægara sagt en gert. En þar sem ég var með lykilinn var það ekki í stjörnunum að fá að sofa yfir sig svo ég skreið á fætur (bókstaflega) og dreif mig af stað, sem er eins gott því afrakstur dagsins var svakaleg hetjudáð okkar Jógu, við eigum fálkaorðuna skilið fyrir þennan dag. Það kom nefnilega fötluð kona niðrí vinnu sem gat næstum ekkert tjáð sig og var að reyna að biðja okkur um að koma sér heim. Meiru náðum við eiginlega ekki, hún gat bara leikið eins og hún væri að keyra og sagt "heim". Vissum ekkert hvað hún hét, hvað hún var á annað borð að gera þarna eða hvert hún væri að fara. Hringdum samt á leigubíl fyrir hana en bílstjórinn skildi hana ekki heldur og fór á endanum aftur. Þá var konan búin að vera strand hjá okkur í meira en klukkutíma og leist ekkert á blikuna, var komin með tárin í augun og allt í steik (ég er samúðarskælari og þurfti alveg að berjast við kökkinn í hálsinum) og þá voru góð ráð orðin alveg fokdýr. Á endanum hringdum við í 1818 og konan þar var yndisleg og hjálpaði okkur að reyna að finna eitthvað sambýli sem konan gæti mögulega hafa komið frá. Ég vil ekki gefa upp smáatriðin í sambandi við hvernig við fundum þetta á endanum út því það væri brot á einkalífi umræddrar konu en allavega náðum við sambandi við sambýlið hennar og stúlka þaðan brunaði yfir til okkar að sækja hana. Hún skildi ekkert í því hvernig í ósköpunum við hefðum farið að því að finna þetta út, enda erum við hetjur og kraftar okkar fyrir ofan skilning hins almenna borgara. Þetta var góðverk dagsins og við vorum ekkert smá ánægðar með okkur :) Um kvöldið neyddumst við því til þess að fagna góðmennsku okkar og fór sá fagnaður fram í hinum ýmsu póstnúmerum en endaði eins og allir góðir fögnuðir í 101. Þar var dansað fram undir morgun eða þangað til það var grunsamlega stutt í að ég ætti að opna Laugar AFTUR. Svaf í tvo tíma og var eitt stórt glimmer í vinnunni, sem var smart. Möggu að kenna/þakka, en hún var einmitt opinber styrktaraðili þessarar helgar og henni að þakka að ég var ofsa sæt þessa helgina. Og hógvær.
mánudagur, febrúar 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli