föstudagur, febrúar 25, 2005

Houston, we have a problem...

Bilunin er í stélinu. Skellti mér áðan í danstíma svona til að athuga hvar ég stæði í þeirri deildinni, var komin með alvarleg fráhvarfseinkenni. Og það var ofsa stuð, hristi mig eins og blautur hundur, tók tvöfalda pírúetta með undraverðum árangri (segi ekki að þeir hafi verið fullkomnir en ég spottaði þá allavega og lenti á fótunum!) en þegar ég ætlaði að dúndra mér í gólfið í einhverjum gettóhipphoppfíling þá tókst mér að rífa upp gamla tognun hjá rófubeininu. Hún er síðan ég gerði tilraun til að komast niður stigann af loftinu mínu án þess að nota útlimina. (Fyrir áhugasama var niðurstaða tilraunarinnar sú að það sparar tíma í ferðalaginu sjálfu en sá tími tapast aftur við það að geta ekki gengið dagana á eftir, svo út frá hagfræðilegu sjónarmiði er þetta ekki praktískt.) Er búin að sitja í klukkutíma í Laugum með íspoka á afturendanum, sem er ekki töff frá neinu sjónarhorni. Býður sig einhver fram sem sjúkranuddara? Það er samt engin borgun í boði, World Class pennarnir og mandarínan gengu út fyrir einni færslu síðan.

Engin ummæli: