miðvikudagur, október 29, 2003

Heimilisfriðurinn er úti.
Heimasæturnar á heimilinu eru tvær (ég er auðvitað önnur). Þeim hefur yfirleitt komið mjög vel saman, kúrt yfir battsjelor saman, tannburstað saman á morgnana, lesið blaðið saman og hafa meira að segja skroppið í sumarbústað saman, sælla minninga. Aldrei hefur skuggi fallið á vináttu þeirra, fyrr en fyrir u.þ.b. klukkustund síðan.
Þetta hófst allt með því að önnur þeirra, Dama 1 (uppljóstra ekki hvor þeirra það er, dömur verða að eiga leyndarmál) fór að fá undarlegt kýli á hausinn. Kýlið er búið að vera þar núna í nokkra mánuði og Dama 1 neitaði staðfastlega að láta gera eitthvað í málinu, og var orðið ljóst að annaðhvort yrði að fara að gefa krílinu bara nafn og innlima það í fjölskylduna eða neyða sjúklinginn til aðgerða. Þó ósköp sem svo upphófust síðdegis í dag voru afleiðingar þess að sú heilbrigða, Dama 2 tók málin í sínar hendur og framkvæmdi seinni möguleikann.
Eftir að hafa gert lokatilraun til að tjónka við Dömu 1 og fá hana til að sjá ljósið og leita til læknis af sjálfdáðum, sat Dama 2 fyrir henni í bílskúrnum, og þegar hún lét loksins sjá sig var hún ekki lengi að grípa hana, troða henni ofan í pappakassa og líma fyrir. Dama 1 var eins og búast mátti við ekki sátt við gjörninginn en var föst ofan í kassanum og þar við sat. Kassanum var dröslað út í bíl og keyrt til læknisins, við mikil harmkvæli þeirrar sem í honum dvaldi. Þegar til læknisins var komið sá Dama 1 að slagurinn var tapaður og var samvinnuþýð framar björtustu vonum, kýlið var fjarlægt og hún fékk ormasprautu í kaupbæti fyrir góða hegðun. Að því loknu var henni troðið ofan í kassann á ný þrátt fyrir að allt væri í raun yfirstaðið, því Dama 2 hafði séð að hún var mun ferðavænni í kassanum en utan hans. Svo var haldið heim á leið og Dömu 1 gefið frelsi á ný.
Staðan núna er sú að Dama 1 neitar staðfastlega að viðurkenna að þetta hafi verið henni fyrir bestu, fannst vistin í kassanum óþörf og frekar niðurlægjandi og snýr sér undan þegar Dama 2 reynir að ræða málið við hana. Það gustar köldu milli heimasætanna og aðeins tíminn getur leitt í ljóst hvort samband þeirra mun bíða þessa nokkurntímann bætur...

þriðjudagur, október 28, 2003

Ah, þarf að bíða meira eftir tíma, best að rekja bara farir mínar enn frekar, fyrst fólk er að kvarta yfir að maður skrifi aldrei neitt er best að gera þetta bara þannig að það biðji um miskunn! :)
Nú stendur fyrir dyrum merkileg samkoma, sem er búin að vera á döfinn síðastliðin 4 ár en hefur ekki verið hrundið í framkvæmd fyrr en núna. Hinar fjórar fræknu úr Gaggó Mos ætla að hittast á fimmtudaginn! Það er óhjákvæmileg afleiðing þess að í tölvunni hennar Miss Sweden er að finna öll lögin af Gullinu sáluga og eftir að hafa hlustað á þau heilt kvöld og rifjað upp öll ósköpin urðum við að skipuleggja endurfundi.
Þessa færslu munu aðeins þrjár manneskjur í heiminum fyrir utan mig skilja :)
Þegar við hittumst allar síðast blasti lífið aðeins öðruvísi við, Now and Then og Grease voru bestu myndir í heimi, Dýrið hafði engan áhuga á Fríðu en þess meiri á Gaston, korkur var inni, glimmer var krabbameinsvaldandi, græn epli löguðu allt, afmæli kölluðu á meiriháttar leynilega skipulagningu, deilan um það hvort maður færi í eða til Hveragerðis kostaði næstum líkamleg átök, heitt kakó og Gullið (hvað hét ameríski útvarpsmaðurinn aftur..?) voru uppskrift að fullkomnu kvöldi, Kaffileikhúsið hitti spreybrúsa og dó og klapp á bakið kostaði dramatík.
Og þetta var æðislegt :)

Nú hefur frekar margt drifið á daga mína síðan ég skrifaði síðast, enda liðin ár og öld. Ég fór á kennarafagnað á föstudaginn þar sem ég kynntist að vísu engum kennara en ég lærði að diffra og heilda "e í exta" (asnalega lítt stærðfræðisinnaði blogger getur ekki skrifað veldi... :p) og komst að því að eftir þrjú ár verð ég komin með ferlega menningarlegan húmor. Svo drakk ég gin og tónik, ekki af því mér finnist það gott (algert ógó...) heldur af því mér finnst það menningarlegra í svona félagsskap en bleika áfenga gossullið sem er mikið bragðbetra... Allt fyrir lúkkið! Við þurftum að leysa jöfnur til að finna sætið okkar, eitt svar við hvert sæti, og það hræddi mig hvað mér fannst það agalega sniðugt alltsaman, held að máladeildarstúdentinn í mér sé að missa völdin.
Á laugardagskvöldið viðhélt ég nördaþemanu og gerði eðlisfræðiskýrslu fram á nótt, það gat ég gert með góðri samvisku gagnvart kúlinu mínu sem vissi að það fengi að sletta úr klaufunum á sunnudagskvöldinu í staðinn. Það er víst frekar óvenjulegur tími fyrir klaufaskvett en þar sem Ásla kom til landsins á sunnudagsmorguninn og verður ekki í bænum á kristilegri tíma urðum við að gera gott úr því sem við höfðum (sem var í meginatriðum bara hvor önnur, það var ekki sála í bænum, en það var kappnóg fyrir okkur, enda skemmtilegar með afbrigðum). Við byrjuðum á að skála fyrir litlu mér og létum svo Mola (sem er bróðir Ásu en EKKI Unnar, sem er ekki heldur með fjarstýringuna, algengur misskilningur) skutla okkur hingað og þangað þar til við urðum sátta við sjálfar okkur á Vínbarnum og festum rætur þar til lokunar. Þetta var hin besta kvöldstund sem lauk með stelpuspjalli undir hlýrri sæng með fullt af fríhafnarnammi. Vei!
Mikið er ég annars sátt við að hafa Áslu í smá stund...

mánudagur, október 20, 2003

Ég vil aldrei sjá köku framar... foj...

miðvikudagur, október 15, 2003

Ég er orðin löglegur drykkjumaður! Skál fyrir því!
Ég varð semsagt tvítug í gær, eins og næstum allir sem ég þekki reyndar mundu eftir, síminn stoppaði ekki og nú finnst mér ég svakalega vinsæl og mikil gella. Þið hin sem gleymduð því, takk fyrir samveruna og gangi ykkur vel í lífinu, það var gaman meðan það entist.
Mér tókst að gera ótrúlega margt skemmtilegt á einum degi, án þess að skrópa í einum einasta tíma, sem er nú bara frekar vel af sér vikið finnst mér. Svo fékk ég 5 afmælisgjafir á réttum degi, sem er örugglega persónulegt met því yfirleitt sjást engar gjafir í nágrenni mínu fyrr í apríl/maí, svo vinir og vandamenn eru greinilega aðeins farnir að taka sig á í stundvísinni. (Að vísu held ég að ég hafi farið í svona 20 tvítugsafmæli á síðasta ári og munað eftir kannski 3 gjöfum á réttum tíma, en þótt ég geri þurfið þið ekki að gera það :p)
Nú stendur til að fagna atburðinum vel og vandlega um helgina, en þar sem nýja parketið okkar harðneitar að halda partý mun fögnuðurinn fara fram óformlega í hinum ýmsu heimahúsum og skemmtistöðum á stór-Reykjavíkursvæðinu, og bið ég fólk að vera bara í símasambandi til að staðsetja afmælispésann :)
Takk fyrir mig! :*

fimmtudagur, október 09, 2003

Jæja, nú fer stóri dagurinn að nálgast. Fólk er farið að pressa á mann að halda upp á áfangann með teiti en ég sé nú ekki fram á að það komi mjög margir, stór hluti af fólkinu sem maður þekkir í útlöndum og annar stór hluti að basla svo stíft í skólanum að það hefur varla tíma til að næra sig, hvað þá fara út í sveit til að skemmta sér og öðrum. Ég veit ekki hvernig þetta endar...

miðvikudagur, október 08, 2003

Þetta er ótrúlegt!!! Sögulegt augnablik! Mér, Unnsu litlu, var rétt í þessu að takast að pota teljara inn á síðuna mína, hjálparlaust með öllu! Veeeeiiiiii!!!
Nú er ekkert eftir nema komast að því hvernig ég get potað myndum á síðuna og þá nær metnaður minn með þessa síðu nú einfaldlega ekki mikið lengra... Jú, og svo væri nú huggulegt að geta sett hlekki á vini mína, sýnist fólk vera að verða nett pirrað á því að vera hunsað svona... úps...

laugardagur, október 04, 2003

Já, gleymdi einu. Það er ljótt að brjótast inn í annarra manna bíla!

Æ hvað fólk getur gert mig hissa stundum. Það var brotist inn í bílinn minn í nótt, steini hent í gegnum gluggann á honum Trausta litla sem aldrei gerir neinum neitt, og öllu rótað út um allt. Allt rifið úr hanskahólfinu og öllum töskum sem voru í bílnum og fleygt um öll gólf, og þar sem ég bý hálfpartinn í bílnum þessa dagana var af nógu að taka í drasldeildinni. Í bílnum var stafræn myndavél, geislaspilari, vodkaflaska, húslyklar, grafískur vasareiknir og hitt og þetta sem maður myndi ætla að viðkomandi óprúttni aðili hefði á brott með sér, en það gerði hann ekki. Engu var stolið. (Nema auðvitað stoltinu hans Trausta og svo mun kosta sitt að fjárfesta í nýrri rúðu.) Svo nú vil ég vita, af hverju í ósköpunum að leggja það á sig að brjótast inn í bíl bara til að rusla svolítið til?? En jæja, ekki kvarta ég, hefði víst getað verið mikið verra.
Pabbarnir mínir eru samt hetjur dagsins, annar reif sig á fætur klukkan þrjú í nótt og keyrði hálfa leið á heimsenda til að setja plast fyrir opna gluggann því það var svo mikil rigning, og hinn veitti mér áfallahjálp, gaf mér tebolla til að gráta í og hjálpaði mér að koma lagi á innvolsið (í bílnum, mitt var í fínu lagi). Svona er maður nú ríkur af foreldrum.

föstudagur, október 03, 2003

Þá er fyrstu vísundaferðinni lokið, og ég verð nú bara að segja að malbik er merkilegra fyrirbæri en mig grunaði og ég segi það ótrúlegt en satt án minnstu kaldhæðni. Að vísu mættu ekki nema 14 vísundar í þessa ferð (reiknað hafði verið með 40) og vegna samviskubits gagnvart gestgjöfum okkar var þögult samkomulag í hópnum um að reyna nú að gera veitingunum sem best skil miðað við höfðatölu. Og það gerðum við svo sannarlega, og stóðum okkur með endemum vel! Svona er maður nú vel uppalinn :)
Þaðan var förinni heitið á þýskt októberfest, þar sem vísindalega söngvatnið nýttist okkur vel og jóðlið fékk alveg nýja vídd...
Athyglisvert kvöld...

fimmtudagur, október 02, 2003

Eftir smá niðursveiflu í áhuganum á náminu held ég að ég sé komin í þrjóskukast númer tvö! Allavega er ég aftur komin með smá einbeitingu og rétt rámar í af hverju ég er að leggja þetta á mig. Nema þegar ég er að gera P dæmin í eðlisfræði, þá man ég það aldrei, en svo rifjast það upp eftir smá svefn/kaffi/ofbeldi. Svo vei! :)
Já, og ég hef allt kvenkyns í lífi mínu hérmeð grunað um að vera eigi einsamalt þar sem mig dreymir eintómar barnsfæðingar þessa dagana (næturnar...). Ég kynni afskaplega vel að meta það ef viðkomandi myndi bara játa syndir sínar fljótlega svo ég geti hætt að hafa áhyggjur af að það verði ég!
Annars er ég að verða guðmóðir á sunnudaginn, en er það nokkuð tekið með?...