miðvikudagur, október 29, 2003

Heimilisfriðurinn er úti.
Heimasæturnar á heimilinu eru tvær (ég er auðvitað önnur). Þeim hefur yfirleitt komið mjög vel saman, kúrt yfir battsjelor saman, tannburstað saman á morgnana, lesið blaðið saman og hafa meira að segja skroppið í sumarbústað saman, sælla minninga. Aldrei hefur skuggi fallið á vináttu þeirra, fyrr en fyrir u.þ.b. klukkustund síðan.
Þetta hófst allt með því að önnur þeirra, Dama 1 (uppljóstra ekki hvor þeirra það er, dömur verða að eiga leyndarmál) fór að fá undarlegt kýli á hausinn. Kýlið er búið að vera þar núna í nokkra mánuði og Dama 1 neitaði staðfastlega að láta gera eitthvað í málinu, og var orðið ljóst að annaðhvort yrði að fara að gefa krílinu bara nafn og innlima það í fjölskylduna eða neyða sjúklinginn til aðgerða. Þó ósköp sem svo upphófust síðdegis í dag voru afleiðingar þess að sú heilbrigða, Dama 2 tók málin í sínar hendur og framkvæmdi seinni möguleikann.
Eftir að hafa gert lokatilraun til að tjónka við Dömu 1 og fá hana til að sjá ljósið og leita til læknis af sjálfdáðum, sat Dama 2 fyrir henni í bílskúrnum, og þegar hún lét loksins sjá sig var hún ekki lengi að grípa hana, troða henni ofan í pappakassa og líma fyrir. Dama 1 var eins og búast mátti við ekki sátt við gjörninginn en var föst ofan í kassanum og þar við sat. Kassanum var dröslað út í bíl og keyrt til læknisins, við mikil harmkvæli þeirrar sem í honum dvaldi. Þegar til læknisins var komið sá Dama 1 að slagurinn var tapaður og var samvinnuþýð framar björtustu vonum, kýlið var fjarlægt og hún fékk ormasprautu í kaupbæti fyrir góða hegðun. Að því loknu var henni troðið ofan í kassann á ný þrátt fyrir að allt væri í raun yfirstaðið, því Dama 2 hafði séð að hún var mun ferðavænni í kassanum en utan hans. Svo var haldið heim á leið og Dömu 1 gefið frelsi á ný.
Staðan núna er sú að Dama 1 neitar staðfastlega að viðurkenna að þetta hafi verið henni fyrir bestu, fannst vistin í kassanum óþörf og frekar niðurlægjandi og snýr sér undan þegar Dama 2 reynir að ræða málið við hana. Það gustar köldu milli heimasætanna og aðeins tíminn getur leitt í ljóst hvort samband þeirra mun bíða þessa nokkurntímann bætur...

Engin ummæli: