Æ hvað fólk getur gert mig hissa stundum. Það var brotist inn í bílinn minn í nótt, steini hent í gegnum gluggann á honum Trausta litla sem aldrei gerir neinum neitt, og öllu rótað út um allt. Allt rifið úr hanskahólfinu og öllum töskum sem voru í bílnum og fleygt um öll gólf, og þar sem ég bý hálfpartinn í bílnum þessa dagana var af nógu að taka í drasldeildinni. Í bílnum var stafræn myndavél, geislaspilari, vodkaflaska, húslyklar, grafískur vasareiknir og hitt og þetta sem maður myndi ætla að viðkomandi óprúttni aðili hefði á brott með sér, en það gerði hann ekki. Engu var stolið. (Nema auðvitað stoltinu hans Trausta og svo mun kosta sitt að fjárfesta í nýrri rúðu.) Svo nú vil ég vita, af hverju í ósköpunum að leggja það á sig að brjótast inn í bíl bara til að rusla svolítið til?? En jæja, ekki kvarta ég, hefði víst getað verið mikið verra.
Pabbarnir mínir eru samt hetjur dagsins, annar reif sig á fætur klukkan þrjú í nótt og keyrði hálfa leið á heimsenda til að setja plast fyrir opna gluggann því það var svo mikil rigning, og hinn veitti mér áfallahjálp, gaf mér tebolla til að gráta í og hjálpaði mér að koma lagi á innvolsið (í bílnum, mitt var í fínu lagi). Svona er maður nú ríkur af foreldrum.
laugardagur, október 04, 2003
Birt af Unnur kl. 21:54
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli