þriðjudagur, október 28, 2003

Nú hefur frekar margt drifið á daga mína síðan ég skrifaði síðast, enda liðin ár og öld. Ég fór á kennarafagnað á föstudaginn þar sem ég kynntist að vísu engum kennara en ég lærði að diffra og heilda "e í exta" (asnalega lítt stærðfræðisinnaði blogger getur ekki skrifað veldi... :p) og komst að því að eftir þrjú ár verð ég komin með ferlega menningarlegan húmor. Svo drakk ég gin og tónik, ekki af því mér finnist það gott (algert ógó...) heldur af því mér finnst það menningarlegra í svona félagsskap en bleika áfenga gossullið sem er mikið bragðbetra... Allt fyrir lúkkið! Við þurftum að leysa jöfnur til að finna sætið okkar, eitt svar við hvert sæti, og það hræddi mig hvað mér fannst það agalega sniðugt alltsaman, held að máladeildarstúdentinn í mér sé að missa völdin.
Á laugardagskvöldið viðhélt ég nördaþemanu og gerði eðlisfræðiskýrslu fram á nótt, það gat ég gert með góðri samvisku gagnvart kúlinu mínu sem vissi að það fengi að sletta úr klaufunum á sunnudagskvöldinu í staðinn. Það er víst frekar óvenjulegur tími fyrir klaufaskvett en þar sem Ásla kom til landsins á sunnudagsmorguninn og verður ekki í bænum á kristilegri tíma urðum við að gera gott úr því sem við höfðum (sem var í meginatriðum bara hvor önnur, það var ekki sála í bænum, en það var kappnóg fyrir okkur, enda skemmtilegar með afbrigðum). Við byrjuðum á að skála fyrir litlu mér og létum svo Mola (sem er bróðir Ásu en EKKI Unnar, sem er ekki heldur með fjarstýringuna, algengur misskilningur) skutla okkur hingað og þangað þar til við urðum sátta við sjálfar okkur á Vínbarnum og festum rætur þar til lokunar. Þetta var hin besta kvöldstund sem lauk með stelpuspjalli undir hlýrri sæng með fullt af fríhafnarnammi. Vei!
Mikið er ég annars sátt við að hafa Áslu í smá stund...

Engin ummæli: