fimmtudagur, september 30, 2004

Önnur ég

Þar sem ég hef skyndilega öðlast feikilegar persónulegar vinsældir sá ég mér þann kost vænstan að finna mér afleysingamanneskju, ég get annars ekki sinnt bæði lífi mínu og aðdáendum eins og ég hefði kosið. Verkefnum verður systurlega skipt niður, hún mun sjá um lífið og ég um aðdáendurna.
Áðan fannst mér ég nefnilega eiga það skilið að fá mér góðan morgunmat fyrst ég er búin að vakna alla morgna í þessarri viku klukkan hálfsex og skella mér í ræktina. (Ég er hetja.) Svo ég lét undan freistingunni og fór í bakaríið. Þar afgreiddi ég mig. Eða réttara sagt Unnur Margrét. Sem er ég, samkvæmt síðustu naflaskoðun. Ég er ringluð. Ég hef aldrei hitt aðra Unni Margréti nema langömmu mína heitna svo mér fannst þetta frábært. Það fannst henni líka og við rákum ættir okkar eins langt og við gátum til að reyna að staðfesta það sjálfsagða að við værum greinilega náskyldar. Vorum komnar langt á leið með að skipuleggja ættarmót og ræktun fjölskyldubanda með ýmsum hætti þegar ég varð að þjóta í skólann. Áður hafði ég að sjálfsögðu skipað hana afleysingakonu mína. Núna var ég hinsvegar að fletta okkur upp í Íslendingabók og ég er meira skyld bæði Davíð Oddssyni og Birgittu Haukdal en umræddri nöfnu minni. Sem verður að játast að eru nokkur vonbrigði... (Og vá, ég er alveg óhugnalega mikið skyld Birgittu Haukdal, hvern hefði grunað...)
Vonbrigði þessi bætast á önnur óþægindi dagsins sem eru íþróttameiðsl úr spinningtímum vikunnar. (Hvernig strákar geta stundað spinning er ofar mínum skilningi!)

mánudagur, september 27, 2004

Unnur sinnir næstu kynslóð

Ég fékk á laugardagskvöldið það ábyrgðarmikla hlutverk að gæta þriggja afkvæma ættingja minna og vina þeirra. Þetta leit allt mjög vel út við fyrstu sýn, ég var vopnuð flatböku, sælgæti, gosi, ís, snakki og fullt af vídjóspólum (allt lagt til af foreldrunum auðvitað, ég hefði fóðrað þau á hafragraut og lýsi svo þau verði stór og sterk og svo látið þau lesa Sveitir og jarðir í Múlaþingi) og búin að semja við þau um að þurfa ekki að gera númer tvö á minni vakt (sem þau stóðu merkilegt nokk við þessar elskur). Markmið mín fyrir kvöldið voru í sjálfu sér ekki flókin, koma grísunum gegnum kvöldið án þess að skemma þau og halda þeim vakandi eins lengi og mögulegt var því ég sá fljótlega að þau væru eina skemmtiefnið í húsinu og ef þau sofnuðu yrði ég að naga veggina til að hafa ofan af fyrir mér. Þetta átti ekki að vera neitt mál með allan þennan sykur með mér í liði. Planið var að koma þeim í svo suðandi sykursjokk að foreldrar þeirra yrðu að flysja þau úr loftinu þegar þau kæmu heim. Ekkert mál.
Klukkan níu yfirgáfu foreldrarnir svæðið. Klukkan fimm mínútur yfir níu var einn grísinn orðinn rangeygður svo ég potaði í hann og hann valt sofandi útaf. Sem er ömurleg frammistaða, fimm mínútur! En tvö af þremur voru svosem ekki slæmt, eðlileg afföll. Fyllti glösin þeirra af kóki og lét þau borða ís þar til þau stóðu á blístri og báðust vægðar. Ég vægði. Og setti af stað mynd um Bangsímon og félaga. Kortéri seinna báðu grísirnir um að fá að fara í náttfötin. Ég sagði nei. Þau fóru í náttfötin. Fimm mínútum síðar var enginn með meðvitund í húsinu nema ég. Ég er glötuð í þessu. Og foreldrarnir svakalega hamingjusamir, grísirnir vaknaðir um áttaleytið morguninn eftir, ofsa spræk eftir góðan nætursvefn en ekki nema 5 tímar síðan liðið hafði oltið rauðnefjað inn úr dyrunum. Ég held ég sé rekin...

Pissað í myrkrinu

Vinnan mín hefur svipt mig einum ótrúlega mikilvægum hæfileika. Eins og ég kann nú vel við mig þar þá hafa Laugar svipt mig hæfileikanum til að kveikja ljós á baðherbergjum, ég er vön að labba inn og stuttu seinna kvikna ljósin bara af sjálfu sér, ekkert vesen. Þetta finnst mér hið eðlilegasta mál og mjög viðeigandi á stað sem er svona morandi í sýklum eins og almenningsklósett, einum hlut minna að koma við og svona. Nema þannig virka baðherbergin ekki í Hlöðunni, en það dagar aldrei upp fyrir mér fyrr en ég er sest á klóið og byrjuð að pissa, svo mjög reglulega pissa ég í myrkri þessa dagana. Frekar spælandi en ég hitti samt alltaf!

föstudagur, september 24, 2004

Nett taugaáfall í morgunmat... Eða svoleiðis...

Þessi dagur byrjaði svo furðulega að ég held að hann eigi sér einfaldlega ekki viðreisnar von, enginn séns að hann rífi sig upp úr súrrealismanum í mínum bókum, allt í dag verður einfaldlega örlítið á skjön. Ég á nefnilega kisu. Sem heitir Kisa. Og er komin á virðulegan aldur þessi elska. Hún er afskaplega vanaföst og ákveðin í skoðunum og það er algerlega hægt að treysta á að hún breytir ekki neinu breytinganna vegna. Hélt ég.
Svo var ég að fara að sofa í gærkveldi en kom einhvern veginn fótunum ekki þangað sem ég vildi hafa þá, sama hvað ég reyndi að troða, það var bara eitthvað fyrir. Kisa. Úps. Ekkert sátt en samt ekki neitt á förum sem er mjög óvenjulegt þar sem hún hatar lokaðar dyr meira en lyktina af asetoni og vill þess vegna aldrei sofa inni hjá mér því búrinu mínu er læst á kvöldin. Hefur samt einstaka sinnum komið fyrir að hún sofnar þar óvart en þá hef ég undantekningalaust vaknað við lætin í henni stuttu seinna þar sem hún reynir að flýja virkið. Svo ég fór tiltölulega áhyggjulaus að sofa.
Vakna í morgun og það er ennþá aðskotahlutur í rúminu mínu. Kisa. Paniiik! Þetta hefur aldrei gerst áður, að hún sofi heila nótt í lokuðu herbergi án þess að reyna að klóra sér leið gegnum gluggann (munið þið eftir "neglur-á-töflu" atriðinu í Sister Act? Einmitt...) svo ég geri það eina skynsamlega í stöðunni. Pota í hana með tánum. Hún haggast ekki. Hreyfist ekki neitt og þetta væri nú venjulega nóg til að fá hana upp að höfðagafli til að tukta mig til. Neibb, ekkert gerist. Svo ég dreg einu skynsamlegu ályktunina sem hægt er að draga í ljósi aðstæðna. Kattagatið hlýtur að vera látið. Sem mér þótti mjög sorglegt þar sem okkur Kisu kemur ákaflega vel saman og skiljum hvora aðra þar sem við vinnum báðar eftir álíka illskiljanlegum reglum sérviskunnar, sem ekki margir hafa skilning á. (Það er víst pirrandi þegar það eru ekki nógu mörg orð í textanum í sjónvarpinu til að byggja pýramída þar sem þeim fækkar alltaf um nákvæmlega 2 orð í hverri röð, og það þarf að laga. Alltaf. Eftir ákveðnum reglum.) Ég semsagt lá bara þarna og hugsaði um allt sem við Kisa höfðum brallað saman, átt kettlinga (hún), setið í fanginu á hvorri annarri á góðri stund (misnotalegt eftir því hver er undir) og klórað hvora aðra á erfiðum tímum (hún átti það skilið...). Var að því komin að fara að skæla yfir þessu öllu saman og þorði ekki fyrir mitt litla líf undan sænginni til að kíkja á hana svona illa komna. Það eina sem mér datt í hug var eina húsráðið sem virkar alltaf: Hringja í mömmu. Ég var komin með símann í hendina og tárin í augun þegar líkið fer að þvo sér. Einmitt. Hálftími af lífi mínu sem ég fæ aldrei aftur.
Það er svolítið erfitt að vera með svona lítið hjarta sko, og ég á dálítið mikið fleiri úlfalda en mýflugur...
(PS. Fyrir þá sem höfðu áhyggjur af samkomulaginu eftir atvikið þá var ég auðvitað nett arrí yfir þessu uppátæki hennar. En hún kann á Unni sína, hoppaði uppá öxlina á mér (af gólfinu), læsti klónum föstum í bakið á mér og neitaði að yfirgefa svæðið fyrr en henni væri fyrirgefið. Hvernig er hægt að segja nei við svoleiðis? Svo gleðin ríkir í herbúðum okkar að nýju, allir á lífi og ofsa spakir.)

miðvikudagur, september 22, 2004

Hver er glöð?

Hver hleypir mér alltaf útúr búrinu mínu og sleppir mér lausri á almannafæri???

Lýst eftir horfinni færslu... Anyone?

Ég skrifaði hnyttna og bráðskemmtilega færslu hingað í gær sem virðist hafa týnst á leiðinni, hún finnst allavega hvergi í kerfinu eða á síðunni. Synd og skömm.
Engin leið að ég nenni að eyða púðri í að endurtaka það sem í honum stóð en í staðinn ætla ég að lýsa því yfir vegna fjölda áskorana að ég er lélegasti vinur í heimi. Að vísu er ég frábær þegar ég er mætt á staðinn, yfirmáta skemmtileg og kumpánaleg, eina málið og helsta umkvörtunarefnið þessa dagana er að ég hringi aldrei í neinn. (Nema til að reyna að fá fólk til að næra sig með mér, enda finnst mér það engan veginn þess virði í einrúmi.) Ég hef oft lofað bót og betrun á þessum galla mínum en í þetta skiptið ætla ég ekki að gera það. Svona er þetta bara, ég get ekki lagað þetta. Búin að reyna. Oft. Svo hérna er díllinn: Þið hringið og ég mæti samviskusamlega þangað sem ég er boðuð. Betur býð ég því miður ekki.

mánudagur, september 20, 2004

Smá jákvæðni í morgunsárið

Þessi dagur sýnist mér ætla að virka bara ágætlega, þeir gera það yfirleitt þegar ég þarf ekki að vakna við skerandi ýlfrið í vekjaraklukkunni minni. Mamma vakti mig í morgun, sem er ólíkt vinalegra, og mér tókst að hitta alla fjölskylduna mína áður en ég fór í skólann sem gerist nánast aldrei. Svo er prýðilegt gluggaveður, sem er mitt uppáhalds því þá er yndislegt að vera inni og horfa út en enginn biturleiki yfir að vera hinsvegar ekki úti sjálfur. Jei!

laugardagur, september 18, 2004

Afrekskona með sýkla

Þá sé ég fram á það að komast aftur út úr húsinu mínu eftir að hafa verið haldið þar í gíslingu af sýklum síðustu daga. Þeir voru subbulegir gestir. Ég hinsvegar ákvað að nýta tímann og breyta herberginu mínu (aka musteri hinnar skipulögðu óreiðu) í minimalistíska skrifstofu. Sem tókst, merkilegt nokk, og nú get ég lært heima hjá mér. Magnað. Ég er æði.
Í dag afrekaði ég svo annað, ég nefnilega tók mig til og eldaði uppúr græna kosts bókinni minni sem ég hef ætlað að gera í svona ár en aldrei komið mér til að byrja. Ég eldaði grænmetissúpu sem var, hvernig sem á hana var litið, alveg æt, sem er algerlega meira en ég bjóst við af mat sem kom ekki snyrtilega í duftformi úr pakka. Það var fullt af dúlleríi í henni og Gunni, ég held þetta sé súpa sem við getum auðveldlega eldað í Gunnabæ. Jább.
Annars er ekkert að frétta, gaman í skólanum, alltof lítill tími til að gera allt sem mig langar að gera og aftur farin að syrgja tímann sem ég eyði í svefn. Some things never change :) Og mig langar að dansa samkvæmisdansa aftur en það vill enginn dansa við mig, sem er ótrúlegt í ljósi allra afrekanna sem ég var að telja upp hér að ofan. Skil þetta ekki. Hrmph.

fimmtudagur, september 09, 2004

Back in the spa...

Viti menn, mín að skrifa úr baðstofubúrinu.
Ég er að taka óvelkomna aukavakt og reyna að lesa "Comparative Government and Politics" (sem er ferlega skemmtileg þrátt fyrir lítt söluvænan titil) en það er alltaf eitthvað lið að koma og trufla mig. Reyni að horfa á það með "sérðu ekki að ég er upptekin?" augnaráðinu mínu sem misskilst greinilega alltaf sem "viltu handklæði vinur?" augnaráðið, þarf að æfa þetta betur.
Ég er búin að ákveða að skella mér í nýnemaferðina þrátt fyrir hótun um að það verði leikir (mér hefur aldrei fundist "hver stal kökunni úr krúsinni í gær" skemmtilegur), í versta falli segi ég (sem satt er) að hægri fóturinn á mér sé styttri en sá vinstri en bæti því við (sem er ekki jafn satt) að þar af leiðandi geti ég bara hlaupið í hringi og felli svo eitt einmana tár. Það ætti að passa að ég endi ekki útí sveit að hlaupa um allt eins og vitleysingur, flengjandi ókunnuga í hlaupískarðið. Sem er allt voða gaman þar til einhver meiðir sig.
Áðurnefnt fýlupúkaplan mitt er ekki að virka, heillandi persónuleiki minn skín greinilega enn í gegnum skeifuna og fólk er farið að vingast við mig. Hm, kannski ekki skrýtið að mamma hafi áhyggjur af að ég gangi aldrei út. ("Unnur mín, *olnbogaskot og sparibros* veifaðu strákunum á traktornum!").

laugardagur, september 04, 2004

Streeeeesssssssss!!!

Úff, ég hélt ég væri að skipta í aðeins auðveldara fag en þetta er bara frekar svakalegt líka. Endalaus lestur, sem mér finnst reyndar alveg fínt, nema fullkomnunaráráttupúkinn í mér vill glósa allt sem hann kemur nálægt svo ég fer voða hægt yfir og klára kannski eina bók fyrir jól. Sem er slæm frammistaða og ekki líkleg til árangurs. Ég þarf að læra námstækni, það er nokkuð ljóst.
Ég er núna að lesa sögu 20. aldarinnar á Íslandi og mér finnst hún krúttleg, má það? Ég er svo stolt af okkur fyrir að vera svona lítil og saklaus þjóð. Enginn vissi hvernig neitt virkaði úti í hinum stóra heimi en langaði samt að prófa svo það var reynt, við misgóðan árangur, en allt reddaðist þetta alltaf og var gert í bestu trú. Sæta þjóð. Svo koma Danir svakalega vel útúr þessu öllu saman, greinilega ágætt fólk Danir, voru að mér sýnist aðallega að passa að við færum okkur ekki að voða í flumbruganginum. Getur verið að ég sé að lesa þetta með Pollýönnugleraugunum mínum?