fimmtudagur, september 09, 2004

Back in the spa...

Viti menn, mín að skrifa úr baðstofubúrinu.
Ég er að taka óvelkomna aukavakt og reyna að lesa "Comparative Government and Politics" (sem er ferlega skemmtileg þrátt fyrir lítt söluvænan titil) en það er alltaf eitthvað lið að koma og trufla mig. Reyni að horfa á það með "sérðu ekki að ég er upptekin?" augnaráðinu mínu sem misskilst greinilega alltaf sem "viltu handklæði vinur?" augnaráðið, þarf að æfa þetta betur.
Ég er búin að ákveða að skella mér í nýnemaferðina þrátt fyrir hótun um að það verði leikir (mér hefur aldrei fundist "hver stal kökunni úr krúsinni í gær" skemmtilegur), í versta falli segi ég (sem satt er) að hægri fóturinn á mér sé styttri en sá vinstri en bæti því við (sem er ekki jafn satt) að þar af leiðandi geti ég bara hlaupið í hringi og felli svo eitt einmana tár. Það ætti að passa að ég endi ekki útí sveit að hlaupa um allt eins og vitleysingur, flengjandi ókunnuga í hlaupískarðið. Sem er allt voða gaman þar til einhver meiðir sig.
Áðurnefnt fýlupúkaplan mitt er ekki að virka, heillandi persónuleiki minn skín greinilega enn í gegnum skeifuna og fólk er farið að vingast við mig. Hm, kannski ekki skrýtið að mamma hafi áhyggjur af að ég gangi aldrei út. ("Unnur mín, *olnbogaskot og sparibros* veifaðu strákunum á traktornum!").

Engin ummæli: