Þessi dagur byrjaði svo furðulega að ég held að hann eigi sér einfaldlega ekki viðreisnar von, enginn séns að hann rífi sig upp úr súrrealismanum í mínum bókum, allt í dag verður einfaldlega örlítið á skjön. Ég á nefnilega kisu. Sem heitir Kisa. Og er komin á virðulegan aldur þessi elska. Hún er afskaplega vanaföst og ákveðin í skoðunum og það er algerlega hægt að treysta á að hún breytir ekki neinu breytinganna vegna. Hélt ég.
Svo var ég að fara að sofa í gærkveldi en kom einhvern veginn fótunum ekki þangað sem ég vildi hafa þá, sama hvað ég reyndi að troða, það var bara eitthvað fyrir. Kisa. Úps. Ekkert sátt en samt ekki neitt á förum sem er mjög óvenjulegt þar sem hún hatar lokaðar dyr meira en lyktina af asetoni og vill þess vegna aldrei sofa inni hjá mér því búrinu mínu er læst á kvöldin. Hefur samt einstaka sinnum komið fyrir að hún sofnar þar óvart en þá hef ég undantekningalaust vaknað við lætin í henni stuttu seinna þar sem hún reynir að flýja virkið. Svo ég fór tiltölulega áhyggjulaus að sofa.
Vakna í morgun og það er ennþá aðskotahlutur í rúminu mínu. Kisa. Paniiik! Þetta hefur aldrei gerst áður, að hún sofi heila nótt í lokuðu herbergi án þess að reyna að klóra sér leið gegnum gluggann (munið þið eftir "neglur-á-töflu" atriðinu í Sister Act? Einmitt...) svo ég geri það eina skynsamlega í stöðunni. Pota í hana með tánum. Hún haggast ekki. Hreyfist ekki neitt og þetta væri nú venjulega nóg til að fá hana upp að höfðagafli til að tukta mig til. Neibb, ekkert gerist. Svo ég dreg einu skynsamlegu ályktunina sem hægt er að draga í ljósi aðstæðna. Kattagatið hlýtur að vera látið. Sem mér þótti mjög sorglegt þar sem okkur Kisu kemur ákaflega vel saman og skiljum hvora aðra þar sem við vinnum báðar eftir álíka illskiljanlegum reglum sérviskunnar, sem ekki margir hafa skilning á. (Það er víst pirrandi þegar það eru ekki nógu mörg orð í textanum í sjónvarpinu til að byggja pýramída þar sem þeim fækkar alltaf um nákvæmlega 2 orð í hverri röð, og það þarf að laga. Alltaf. Eftir ákveðnum reglum.) Ég semsagt lá bara þarna og hugsaði um allt sem við Kisa höfðum brallað saman, átt kettlinga (hún), setið í fanginu á hvorri annarri á góðri stund (misnotalegt eftir því hver er undir) og klórað hvora aðra á erfiðum tímum (hún átti það skilið...). Var að því komin að fara að skæla yfir þessu öllu saman og þorði ekki fyrir mitt litla líf undan sænginni til að kíkja á hana svona illa komna. Það eina sem mér datt í hug var eina húsráðið sem virkar alltaf: Hringja í mömmu. Ég var komin með símann í hendina og tárin í augun þegar líkið fer að þvo sér. Einmitt. Hálftími af lífi mínu sem ég fæ aldrei aftur.
Það er svolítið erfitt að vera með svona lítið hjarta sko, og ég á dálítið mikið fleiri úlfalda en mýflugur...
(PS. Fyrir þá sem höfðu áhyggjur af samkomulaginu eftir atvikið þá var ég auðvitað nett arrí yfir þessu uppátæki hennar. En hún kann á Unni sína, hoppaði uppá öxlina á mér (af gólfinu), læsti klónum föstum í bakið á mér og neitaði að yfirgefa svæðið fyrr en henni væri fyrirgefið. Hvernig er hægt að segja nei við svoleiðis? Svo gleðin ríkir í herbúðum okkar að nýju, allir á lífi og ofsa spakir.)
föstudagur, september 24, 2004
Nett taugaáfall í morgunmat... Eða svoleiðis...
Birt af Unnur kl. 17:19
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli