Ég fékk á laugardagskvöldið það ábyrgðarmikla hlutverk að gæta þriggja afkvæma ættingja minna og vina þeirra. Þetta leit allt mjög vel út við fyrstu sýn, ég var vopnuð flatböku, sælgæti, gosi, ís, snakki og fullt af vídjóspólum (allt lagt til af foreldrunum auðvitað, ég hefði fóðrað þau á hafragraut og lýsi svo þau verði stór og sterk og svo látið þau lesa Sveitir og jarðir í Múlaþingi) og búin að semja við þau um að þurfa ekki að gera númer tvö á minni vakt (sem þau stóðu merkilegt nokk við þessar elskur). Markmið mín fyrir kvöldið voru í sjálfu sér ekki flókin, koma grísunum gegnum kvöldið án þess að skemma þau og halda þeim vakandi eins lengi og mögulegt var því ég sá fljótlega að þau væru eina skemmtiefnið í húsinu og ef þau sofnuðu yrði ég að naga veggina til að hafa ofan af fyrir mér. Þetta átti ekki að vera neitt mál með allan þennan sykur með mér í liði. Planið var að koma þeim í svo suðandi sykursjokk að foreldrar þeirra yrðu að flysja þau úr loftinu þegar þau kæmu heim. Ekkert mál.
Klukkan níu yfirgáfu foreldrarnir svæðið. Klukkan fimm mínútur yfir níu var einn grísinn orðinn rangeygður svo ég potaði í hann og hann valt sofandi útaf. Sem er ömurleg frammistaða, fimm mínútur! En tvö af þremur voru svosem ekki slæmt, eðlileg afföll. Fyllti glösin þeirra af kóki og lét þau borða ís þar til þau stóðu á blístri og báðust vægðar. Ég vægði. Og setti af stað mynd um Bangsímon og félaga. Kortéri seinna báðu grísirnir um að fá að fara í náttfötin. Ég sagði nei. Þau fóru í náttfötin. Fimm mínútum síðar var enginn með meðvitund í húsinu nema ég. Ég er glötuð í þessu. Og foreldrarnir svakalega hamingjusamir, grísirnir vaknaðir um áttaleytið morguninn eftir, ofsa spræk eftir góðan nætursvefn en ekki nema 5 tímar síðan liðið hafði oltið rauðnefjað inn úr dyrunum. Ég held ég sé rekin...
mánudagur, september 27, 2004
Unnur sinnir næstu kynslóð
Birt af Unnur kl. 20:18
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli