Þar sem ég hef skyndilega öðlast feikilegar persónulegar vinsældir sá ég mér þann kost vænstan að finna mér afleysingamanneskju, ég get annars ekki sinnt bæði lífi mínu og aðdáendum eins og ég hefði kosið. Verkefnum verður systurlega skipt niður, hún mun sjá um lífið og ég um aðdáendurna.
Áðan fannst mér ég nefnilega eiga það skilið að fá mér góðan morgunmat fyrst ég er búin að vakna alla morgna í þessarri viku klukkan hálfsex og skella mér í ræktina. (Ég er hetja.) Svo ég lét undan freistingunni og fór í bakaríið. Þar afgreiddi ég mig. Eða réttara sagt Unnur Margrét. Sem er ég, samkvæmt síðustu naflaskoðun. Ég er ringluð. Ég hef aldrei hitt aðra Unni Margréti nema langömmu mína heitna svo mér fannst þetta frábært. Það fannst henni líka og við rákum ættir okkar eins langt og við gátum til að reyna að staðfesta það sjálfsagða að við værum greinilega náskyldar. Vorum komnar langt á leið með að skipuleggja ættarmót og ræktun fjölskyldubanda með ýmsum hætti þegar ég varð að þjóta í skólann. Áður hafði ég að sjálfsögðu skipað hana afleysingakonu mína. Núna var ég hinsvegar að fletta okkur upp í Íslendingabók og ég er meira skyld bæði Davíð Oddssyni og Birgittu Haukdal en umræddri nöfnu minni. Sem verður að játast að eru nokkur vonbrigði... (Og vá, ég er alveg óhugnalega mikið skyld Birgittu Haukdal, hvern hefði grunað...)
Vonbrigði þessi bætast á önnur óþægindi dagsins sem eru íþróttameiðsl úr spinningtímum vikunnar. (Hvernig strákar geta stundað spinning er ofar mínum skilningi!)
fimmtudagur, september 30, 2004
Önnur ég
Birt af Unnur kl. 11:27
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli