Deginum í dag hef ég eytt í að skipuleggja flótta minn af þessu guðsvolaða skeri. Ekki raunsæjan flótta, heldur þennan skemmtilega, búin að sitja og skoða myndir af sólarströndum og kókoshnetum, vinalegum kóalabjörnum að vinka og flækingsköttum í Róm. Svona dagar á Íslandi eru og verða alltaf fráteknir fyrir dagdrauma, það er fáránlega mikið rok og kuldalegt úti, og svo er eins og Skaparanum finnist fyndið þegar ég er einstaklega geðvond að ögra mér örlítið. Áðan fauk upp í mig laufblað. Verð að hætta að labba um gapandi eins og fiskur. Næst gæti það orðið grunlaus fugl og ég held að báðir aðilar kæmu illa útúr þeim viðskiptum. Svo finnst mér ég aldrei eins bjánaleg eins og þegar ég stend með risastóru skólatöskuna mína á bakinu (sem færir þyngdarpunktinn minn greinilega full-aftarlega) að berjast á móti rokinu sem hefur betur svo ég enda á að standa með fimm tásur teygðar útí loftið að reyna að færa þungann áfram en það gengur ekkert og maður stendur bara í miðju skrefi eins og maður hafi verið settur á pásu. Ekki töff. Almennt séð þá hefur þessi dagur verið einstaklega lítið töff og ég stefni á að gleyma honum sem fyrst. En ég get glatt mig á því að það var allavega ekki ég sem datt um pallinn minn í eróbikkinu í morgun, það var annar mistöff maður í spandexi sem fórnaði sér til að bjarga deginum mínum og vil ég þakka honum fyrir það. Ég vil líka biðja um að ég muni aldrei ALDREI detta í spandexi. Eek.
mánudagur, október 04, 2004
Flótti skipulagður
Birt af Unnur kl. 17:03
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli