Í kjölfar síðasta pósts hafa nokkrir samviskusamir vinir spurt mig hvað ég vildi í afmælisgjöf (sem framkallaði magnað samviskubit þar sem ég hafði engum þeirra gefið afmælisgjöf síðast, muna það í næstu kaupstaðarferð; kaupa 18 afmælisgjafir...). Hefðinni samkvæmt svaraði ég með veiklulegu "ég veit það ekki". Svo núna þegar ég var að reyna að sofna (ekki hægt meðan verkfallsbarnið gengur laust í húsinu með sinn öfuga sólarhring) mundi ég allt í einu hvað það er sem mig vantar mest. Reykskynjara. Og það er það sem ég vil takk. Ég er nefnilega eldhrædd fram úr hófi og kem úr kertaglaðri fjölskyldu (voða kósí og skemmtilegt þar til einhver meiðir sig...) fyrir utan það að í húsinu eru 5 sjónvörp, flest gömul og full af ryki, svo ég fer aldrei alveg róleg að sofa... Nú erum við búin að búa í þessarri dauðagildru í 11 ár og þrátt fyrir mótmælin sem ég veit að heimilisfaðirinn á eftir að standa fyrir þá segi ég hér stopp. Og ætla að hengja upp minn eigin reykskynjara á fimmtudaginn við hátíðlega viðhöfn með tilheyrandi ræðuhöldum og tárfelli. Það skondna við þetta alltsaman er að heimilisfaðirinn er búinn að læra að setja upp flókin og fullkomin eldvarnarkerfi, sem er einmitt ástæðan fyrir því að hann vill enga vesældarlega reykjskynjara í sínu húsi. "Einhvern daginn" ætlar hann nefnilega að setja upp ofursúpertúrbó eldvarnarkerfi með öllu nema hráum í húsinu, sem verður þá reyndar að öllum líkindum orðið að öskuhrúgu.
þriðjudagur, október 12, 2004
Óskalistinn 2004
Birt af Unnur kl. 23:24
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli