mánudagur, október 11, 2004

Áminning dagsins

Minnt er á hátíðisdag sem mun í ár falla á næstkomandi fimmtudag. Hvatt er til gjafakaupa áður en örtöðin hefst á miðvikudag. Blóm og kransar afþakkaðir.
Sama dag kemur Ásla á skerið og er hér með gefin út almenn viðvörun.
Annars er það helst í fréttum að um helgina tókst mér að vinna af mér alla vikuna og þarf því ekki að vinna aftur fyrr en fimmtudaginn í næstu viku. Held ég hafi síðast verið í svona löngu fríi frostaveturinn mikla ´99... Veit ekki alveg hvað ég á að gera en rámar eitthvað í háskóla og bækur sem ég ætti kannski að lesa. Mun kanna málið.
Við mamma gerðumst myndarlegar á föstudaginn og bökuðum eins og fyrirmyndarhúsmæðurnar sem við erum inni við beinið. Bökuðum 6 tertur (eftir einstaka hvatningarræðu móður minnar sem hún fær plús í kladdann fyrir) sem voru yndislegar og litu meira að segja vel út ef maður hallaði örlítið undir flatt þegar maður horfði á þær. Ég held samt að ég sé mjög smáborgaralegur bakari og ekki menningarleg fyrir fimmaura því mitt markmið í þessu öllu saman var að borða eins mikið af "þessu góða", þ.e. dæm, nóa kroppi og súkkulaði, áður en það yrði sett í kökur því ég vissi að ég kæmist ekki í veisluna þar sem þær yrðu borðaðar. Ég er prakkari.
Vandamál vikunnar er hinsvegar að ég er hætt að sofa. Ligg andvaka og stari á loftið tímunum saman áður en ég sofna, því ég er haldin þeirri meinloku að geta ekki lært á kvöldin. Það þýðir að ég þarf að vakna snemma til að læra ef ég ætla ekki að vera í háskólanum til fertugs svo ég fer að verða pííínu sybbin. Ég fæ klapp á bakið fyrir að lifa í augnablikinu frekar tilbreytingarsnauðu lífi en geta samt föndrað mér vandamál :)

Engin ummæli: