Ég er ástfangin af kálfinum hennar Birtu! Sem er tæknilega séð ekki kálfur heldur séffer og tæknilega séð ekki hundurinn hennar Birtu ennþá heldur í prufu, en ég get ekki séð hvernig hún ætti að geta fengið það af sér að skila litla skrímslinu... Loppurnar á honum eru allsstaðar og hann hleypur eins og hestur, ég vil! Ég vil, ég vil, ég vil!!! (Nú er kötturinn minn einhversstaðar með sting í hjartanu og skilur ekki af hverju... Elskana samt. En hún er bara svo... lítil...)
Og ég kann ofsa vel að meta það að athugasemdin mín varðandi snjóinn hafi hlotið hljómgrunn en var aaalveg nauðsynlegt að breyta honum í hálku? Blóm eða glimmer hefði alveg virkað fínt sko. Confetti líka. Nei, hvað er að sjá! Kommutakkanum mínum er batnað! Vúhú! Hefði kannski átt að bíða minna en tvö ár með að fá mér vírusvörn. Nema þetta sé vegna þess að ég tók takkana af lyklaborðinu og fjarlægði hálfa köttinn sem leyndist þar undir.
föstudagur, janúar 28, 2005
In luv
sunnudagur, janúar 23, 2005
Unnsa fínbuxi (fancypants)
Mér var boðið út að borða á Sjávarkjallarann í gær. Vildi leyfa þessarri fyrstu setningu að standa svona, áður en ég ljóstraði upp að það var ekki efnilegur ungur maður sem bauð mér heldur Bjössi og Dísa sem buðu allri afgreiðslunni, 18 manns með þeim hjónum. Byrjaði reyndar ekki vel, sprakk á fáknum á Sæbrautinni og við allar á pinnahælum og alles, óðum skafla upp að ökklum og vorum almennt frekar aumkvunarverðar, sem varð okkur svo til happs því Lára keyrði fljótlega framhjá okkur og gaf okkur far. Eftir að á Sjávarkjallarann var komið er hinsvegar ekki veikur punktur á kvöldinu, þetta var bara hreint út sagt alveg frábært! Kósí staður, æðislegur matur og auðvitað frábær (en svolítið hávær) félagsskapur. Vorum komnar á tímabili ansi hátt á tónskalann held ég, enda 17 stelpur og einn Bjössi. Fyrst fengum við smakk úr eldhúsinu, sem var hrá marineruð hámeri. Hún var ofsa góð á bragðið, þrátt fyrir að ég hafi haft mínar efasemdir þegar hún kom fyrst á borðið. Í forrétt var svo næstum hrá (allavega mjööög lítið steikt) dúfnabringa, andaeitthvað (náði því ekki alveg, þjónninn átti í mestu erfiðleikum með að ná upp á okkar hluta tónstigans, bassinn hans kæfðist bara í gleðinni) og uxahalar, sem var alltsaman mjög gott. Dúfur eru eins á bragðið og gæsir komst ég að, og finnst ég menningarlegri fyrir vikið. Í aðalrétt var svo lax í bananalaufi (varð að spyrja hvort ég mætti borða bananalaufið því mér fannst það liggja eitthvað svo beint við og missti nokkur stig í menningarleika fyrir vikið, en hafði unnið inn nokkur með dúfna/gæsalíkingunni svo ég kom út á sléttu), túnfisksteik með einhverju rauðu (þjónninn var alveg hættur að reyna á þessum tímapunkti, enda hávaðinn með ólíkindum (undirrrituð ekki manna saklausust...)) og saltfiskur með kókoskartöflumús og chili. Þetta var allt mjög gómsætt en túnfiskurinn var æðislegur. Vá. Vahá. Ætla að láta einhvern grunlausan bjóða mér á deit bara til að fá meiri túnfisk! Þegar ég var með fullan munninn af dúfum og uxum hafði svo hringt síminn minn (og ég svaraði, enda kann ég mig ekki á svona fínum stöðum). Það var fjölskyldan mín að láta mig vita að þau hefðu brunað í bæinn til að skipta um dekk á bílnum mínum og vildu vita hvar þau ættu að skilja hann eftir!! Ég er dekurbarn! Svo ég var víst ennþá keyrandi og gat þess vegna ekki tekið þátt í skotaveislunni sem fylgdi á eftir matnum. Ekki skosk veisla, heldur buðu þau hjónin í skot hægri vinstri (oft reyndar varð að vinna sér þau inn, og Lára á þann hluta kvöldsins fyrir að taka stórgóða mynd af Jónínu Ben og deitinu hennar við borð stuttu frá). Eftir smá skrall á kjallaranum var haldið á Rex þar sem við áttum eitthvað vín í boði Egils, en ég kom mér undan því og fékk í staðinn sódavatn í boði Bjössa. Mér tókst svo að flýja heim fljótlega eftir miðnætti, enda varð einhver að opna búlluna í morgun!
Takk fyrir mig Bjössi og Dísa, og takk fyrir dekrið mamma og Óli!!! Ég er prinsessa.
miðvikudagur, janúar 19, 2005
Bissí bí
Ég er sama upptekna býflugan og venjulega, og bloggið er greinilega ekki mjög ofarlega á forgangslistanum... Skólinn er byrjaður og lofar bara góðu enn sem komið er, farin að æfa á fullu og lifa á allskonar dufti og pillum sem gera mig ennþá ofvirkari en venjulega, er að reyna að púsla saman hvað ég ætla að gera í sumar og næsta vetur, vinna hingað og þangað og bara dreifa gleðinni. Ég er allavega að dreifa heilmikilli gleði í tækjasalnum í gym 80, enda þarf mikið til að ég haldi andlitinu þar. Reyndi að sannfæra gæjann á eftir mér að það væru bara engir pinnar í tækinu til að byrja með, hann keypti það ekki og á endanum varð ég að segja honum hvar þeir væru. Í hendinni minni. Ég var skömmustuleg.
Sé reyndar framá að þurfa að eyða ansi miklum peningum á næstu dögum, sem mér líst ekkert á, enda hélt ég að jólin hefðu verið í fyrra. Ég er eitthvað mis. En eftir próteinglútamínblah kaup og bókakaup þá hefst sparnaðarátak áratugarins, og mun ég lifa munkalífi fram á sumar ef allt gengur samkvæmt áætlun. Sem það gerir ekki. Því það er verið að reyna að draga mig hingað og þangað um landið og milli landa og ég hef engan viljastyrk þegar kemur að ferðalögum. Stefnir allt í að ég eyði páskunum á Akureyri, sem er merkilegt fyrir þær sakir að ég hef verið þar nógu oft til að vita að þangað er ekkert að sækja. Skrifast á heilaþvott.
Já, og nóg af snjó takk. Komið gott.
föstudagur, janúar 14, 2005
Skammdegisbrjálæði
Þá er ég búin að fá útúr öllum prófunum og er alveg hissa á hvað mér gekk kjánalega vel, tvær níufimm, nía og sjöa (í fagi sem ég var hrædd um að falla í, svo það var óvænt ánægja). Til hamingju ég. Þetta gerir samt ekkert annað en að auka á kæruleysið og vitleysuna, hélt ég fengi núna spark í rassinn og færi að læra eins og sjúklingur, en fyrst ég kemst upp með þetta er nokkuð ljóst að ég hef ekki sjálfsagann til að breyta því. Kannski næst. Og fyrst ég sat allt í einu uppi með fullt af frítíma sem annars hefði farið í samviskusamlegar bókasafnssetur, ákvað ég að ráðstafa honum strax í eitthvað annað svo ég gæti nú örugglega ekki farið að gera eitthvað heimskulegt við hann, eins og að anda eða sofa. Og fór og keypti mér kort í Gym 80. Það er nefnilega ekki verandi í Laugum þessa dagana fyrir "ghosts of Christmas past", fólk er alveg að tapa sér, svo í bili ætla ég að halda mig hjá stóru strákunum, svo eru líka allir svo svakalega vinalegir þar, ofsa gott alltsaman. Fínt að geta þá valið á milli bara. Jább, ég er að missa mig. Enda ekki skrýtið, stoltið að veði! Ég tók nefnilega kjánalegu veðmáli við Kidda sem á eftir að útfæra endanlega en verður skilst mér í meginatriðum þannig að á þriggja mánaða tímabili, 1. feb. til 1. maí, verð ég að missa meira en hann bætir á sig til að vinna, og hann að bæta meira á sig en ég missi til að vinna. Sem á auðvitað bara eftir að enda á því að ég naga af mér annan handlegginn fyrir seinni vigtun af minni alkunnu þrjósku, enda enn sem komið er engar reglur sem banna það. Hvað ætli handleggur sé þungur?
sunnudagur, janúar 09, 2005
Niður með áramótaheit!
Mér er orðið meinilla við þetta fyrirbæri "áramótaheit". Ekki bara vegna þess að ég stend aldrei við mín lengur en ca. hálfa nýársnóttina því ég man þau aldrei daginn eftir, heldur líka vegna þess að þau eru ástæða þess að vinnan mín er eins og geðveikrahæli þessa dagana. Skvap er krúttlegt, allir heim að horfa á vídjó og borða snakk, einntveirog! Það er ekki farandi á æfingu lengur fyrir þessu liði. Annars hafa þessir fyrstu dagar nýja ársins verið helgaðir smáborgarahætti og vangaveltum um ómerkilega hluti, sem er hreint alveg ágætt svona eftir próflestur og vesen. Er til dæmis búin að brjóta heilann mikið um það síðustu dagana hvort ég á að fara á salsanámskeið eða í brasilískt jiu jitsu (a.k.a. tissjú). Yndislegt að það skuli ekki alvarlegri hlutir hvíla á manni! Við fórum í prufutíma í tissjúinu á miðvikudaginn og það var frekar magnað, þetta er víst hannað fyrir lítið fólk til að ráða við stórt fólk sem hljómar mjög patent fyrir mig en ég nenni þessu samt varla því ég er svo léleg... Þoli ekki hluti sem maður þarf að æfa sig í til að verða góður. Foj. Held líka að annar kennarinn haldi að ég sé alveg tóm í hausnum eftir að ég spjallaði fullt við hann á námskeiðinu og þekkti hann svo ekki þegar hann afgreiddi mig í Útilífi DAGINN EFTIR. Ég er svo mikill lúði. Ah. Svo er ég að verða pirruð á að fá ekki einkunnirnar mínar ennþá, er bara búin að fá eina. Og var sátt við hana, sem ég bjóst ekki við að verða. Svo kannski vil ég bara ekkert fá hinar :) Hm, ég get semsagt ekki talað í samhengi í kvöld svo ég reyni þetta bara aftur seinna!
sunnudagur, janúar 02, 2005
Nýársdjamm á litla, litla landinu
Við afgreiðsludömurnar skelltum okkur á Stuðmannaball á Nasa í gærkvöldi, án þess að gera okkur grein fyrir því út í hvað við værum að fara. Eftir góðan hitting hjá Evu mættum við í svaka góðum húmor á staðinn þar sem það rann upp fyrir okkur hvar við vorum lentar. Í World Class. Þarna var statt allt staffið og megnið af kúnnunum og ég var skyndilega gripin yfirþyrmandi löngun til að setja upp flugfreyjubrosið og bjóða fólki handklæði. Þegar ég var búin að ganga úr skugga um að enginn vildi fitumælingu á staðnum og allir voru með kort í gildi sá ég loksins notagildi þess að þekkja megnið af liðinu á staðnum. Þetta gerði mér nefnilega kleift að stunda mitt uppáhaldsáhugamál á djamminu, að stinga fólk af! Svo ég tók uppá því að stinga af eins og brjáluð, ég var ekki fyrr búin að stinga einn hóp af en ég fann annan og svona gekk þetta hálfa nóttina, og ég skemmti mér konunglega. Stakk af eins og aldrei fyrr, var á tímabili ekkert nema svart strik í móðu á hlaupum um húsið og held ég hafi slegið met. Endaði svo mjög viðeigandi á að stinga af frá staðnum með Jóhönnu og Björk og taka kraftgöngu gegnum hálfan bæinn yfir á Dillon. Já, ekki Sólon, ekki Pravda, ekki Hverfis, Dillon. Hallelúja, herferð mín hefur loks borið árangur, og Whiskey in the Jar og Piano Man tóku á móti mér opnum örmum þrátt fyrir að ég hafi haldið framhjá með Justin Timberlake eins og geðsjúklingur síðasta djammárið. Mér leið svo vel að ég hætti alveg að reyna að stinga af og sat bara þæg og góð í fanginu á Jóhönnu og gerði eins og mér var sagt til tilbreytingar. Svo var auðvitað lokað þar og kaldur raunveruleikinn tók við. en eftir Dillon lætur maður ekki bjóða sér Sólon eða Hverfis, svo eftir heiðarlega tilraun stakk ég aftur af og skammaðist heim til mín um sexleytið.
Mér tókst að rífa mig á fætur um hádegisleytið en bara vegna þess að í dag er síðasti sukkdagurinn áður en heilsuátakið tekur aftur völdin, svo ég fór til Jóhönnu og borðaði pizzu og makkinntoss, og okkur rétt tókst að halda meðvitund gegnum Dirty Dancing 2 áður en við steinsofnuðum aftur og sváfum til átta. Mér tókst að vera alveg glerþunn þrátt fyrir að hafa verið edrú og á bíl, sem er nú bara afrek útaf fyrir sig. Takk fyrir. Zzz.