sunnudagur, janúar 02, 2005

Nýársdjamm á litla, litla landinu

Við afgreiðsludömurnar skelltum okkur á Stuðmannaball á Nasa í gærkvöldi, án þess að gera okkur grein fyrir því út í hvað við værum að fara. Eftir góðan hitting hjá Evu mættum við í svaka góðum húmor á staðinn þar sem það rann upp fyrir okkur hvar við vorum lentar. Í World Class. Þarna var statt allt staffið og megnið af kúnnunum og ég var skyndilega gripin yfirþyrmandi löngun til að setja upp flugfreyjubrosið og bjóða fólki handklæði. Þegar ég var búin að ganga úr skugga um að enginn vildi fitumælingu á staðnum og allir voru með kort í gildi sá ég loksins notagildi þess að þekkja megnið af liðinu á staðnum. Þetta gerði mér nefnilega kleift að stunda mitt uppáhaldsáhugamál á djamminu, að stinga fólk af! Svo ég tók uppá því að stinga af eins og brjáluð, ég var ekki fyrr búin að stinga einn hóp af en ég fann annan og svona gekk þetta hálfa nóttina, og ég skemmti mér konunglega. Stakk af eins og aldrei fyrr, var á tímabili ekkert nema svart strik í móðu á hlaupum um húsið og held ég hafi slegið met. Endaði svo mjög viðeigandi á að stinga af frá staðnum með Jóhönnu og Björk og taka kraftgöngu gegnum hálfan bæinn yfir á Dillon. Já, ekki Sólon, ekki Pravda, ekki Hverfis, Dillon. Hallelúja, herferð mín hefur loks borið árangur, og Whiskey in the Jar og Piano Man tóku á móti mér opnum örmum þrátt fyrir að ég hafi haldið framhjá með Justin Timberlake eins og geðsjúklingur síðasta djammárið. Mér leið svo vel að ég hætti alveg að reyna að stinga af og sat bara þæg og góð í fanginu á Jóhönnu og gerði eins og mér var sagt til tilbreytingar. Svo var auðvitað lokað þar og kaldur raunveruleikinn tók við. en eftir Dillon lætur maður ekki bjóða sér Sólon eða Hverfis, svo eftir heiðarlega tilraun stakk ég aftur af og skammaðist heim til mín um sexleytið.
Mér tókst að rífa mig á fætur um hádegisleytið en bara vegna þess að í dag er síðasti sukkdagurinn áður en heilsuátakið tekur aftur völdin, svo ég fór til Jóhönnu og borðaði pizzu og makkinntoss, og okkur rétt tókst að halda meðvitund gegnum Dirty Dancing 2 áður en við steinsofnuðum aftur og sváfum til átta. Mér tókst að vera alveg glerþunn þrátt fyrir að hafa verið edrú og á bíl, sem er nú bara afrek útaf fyrir sig. Takk fyrir. Zzz.

Engin ummæli: