föstudagur, janúar 14, 2005

Skammdegisbrjálæði

Þá er ég búin að fá útúr öllum prófunum og er alveg hissa á hvað mér gekk kjánalega vel, tvær níufimm, nía og sjöa (í fagi sem ég var hrædd um að falla í, svo það var óvænt ánægja). Til hamingju ég. Þetta gerir samt ekkert annað en að auka á kæruleysið og vitleysuna, hélt ég fengi núna spark í rassinn og færi að læra eins og sjúklingur, en fyrst ég kemst upp með þetta er nokkuð ljóst að ég hef ekki sjálfsagann til að breyta því. Kannski næst. Og fyrst ég sat allt í einu uppi með fullt af frítíma sem annars hefði farið í samviskusamlegar bókasafnssetur, ákvað ég að ráðstafa honum strax í eitthvað annað svo ég gæti nú örugglega ekki farið að gera eitthvað heimskulegt við hann, eins og að anda eða sofa. Og fór og keypti mér kort í Gym 80. Það er nefnilega ekki verandi í Laugum þessa dagana fyrir "ghosts of Christmas past", fólk er alveg að tapa sér, svo í bili ætla ég að halda mig hjá stóru strákunum, svo eru líka allir svo svakalega vinalegir þar, ofsa gott alltsaman. Fínt að geta þá valið á milli bara. Jább, ég er að missa mig. Enda ekki skrýtið, stoltið að veði! Ég tók nefnilega kjánalegu veðmáli við Kidda sem á eftir að útfæra endanlega en verður skilst mér í meginatriðum þannig að á þriggja mánaða tímabili, 1. feb. til 1. maí, verð ég að missa meira en hann bætir á sig til að vinna, og hann að bæta meira á sig en ég missi til að vinna. Sem á auðvitað bara eftir að enda á því að ég naga af mér annan handlegginn fyrir seinni vigtun af minni alkunnu þrjósku, enda enn sem komið er engar reglur sem banna það. Hvað ætli handleggur sé þungur?

Engin ummæli: