Mér var boðið út að borða á Sjávarkjallarann í gær. Vildi leyfa þessarri fyrstu setningu að standa svona, áður en ég ljóstraði upp að það var ekki efnilegur ungur maður sem bauð mér heldur Bjössi og Dísa sem buðu allri afgreiðslunni, 18 manns með þeim hjónum. Byrjaði reyndar ekki vel, sprakk á fáknum á Sæbrautinni og við allar á pinnahælum og alles, óðum skafla upp að ökklum og vorum almennt frekar aumkvunarverðar, sem varð okkur svo til happs því Lára keyrði fljótlega framhjá okkur og gaf okkur far. Eftir að á Sjávarkjallarann var komið er hinsvegar ekki veikur punktur á kvöldinu, þetta var bara hreint út sagt alveg frábært! Kósí staður, æðislegur matur og auðvitað frábær (en svolítið hávær) félagsskapur. Vorum komnar á tímabili ansi hátt á tónskalann held ég, enda 17 stelpur og einn Bjössi. Fyrst fengum við smakk úr eldhúsinu, sem var hrá marineruð hámeri. Hún var ofsa góð á bragðið, þrátt fyrir að ég hafi haft mínar efasemdir þegar hún kom fyrst á borðið. Í forrétt var svo næstum hrá (allavega mjööög lítið steikt) dúfnabringa, andaeitthvað (náði því ekki alveg, þjónninn átti í mestu erfiðleikum með að ná upp á okkar hluta tónstigans, bassinn hans kæfðist bara í gleðinni) og uxahalar, sem var alltsaman mjög gott. Dúfur eru eins á bragðið og gæsir komst ég að, og finnst ég menningarlegri fyrir vikið. Í aðalrétt var svo lax í bananalaufi (varð að spyrja hvort ég mætti borða bananalaufið því mér fannst það liggja eitthvað svo beint við og missti nokkur stig í menningarleika fyrir vikið, en hafði unnið inn nokkur með dúfna/gæsalíkingunni svo ég kom út á sléttu), túnfisksteik með einhverju rauðu (þjónninn var alveg hættur að reyna á þessum tímapunkti, enda hávaðinn með ólíkindum (undirrrituð ekki manna saklausust...)) og saltfiskur með kókoskartöflumús og chili. Þetta var allt mjög gómsætt en túnfiskurinn var æðislegur. Vá. Vahá. Ætla að láta einhvern grunlausan bjóða mér á deit bara til að fá meiri túnfisk! Þegar ég var með fullan munninn af dúfum og uxum hafði svo hringt síminn minn (og ég svaraði, enda kann ég mig ekki á svona fínum stöðum). Það var fjölskyldan mín að láta mig vita að þau hefðu brunað í bæinn til að skipta um dekk á bílnum mínum og vildu vita hvar þau ættu að skilja hann eftir!! Ég er dekurbarn! Svo ég var víst ennþá keyrandi og gat þess vegna ekki tekið þátt í skotaveislunni sem fylgdi á eftir matnum. Ekki skosk veisla, heldur buðu þau hjónin í skot hægri vinstri (oft reyndar varð að vinna sér þau inn, og Lára á þann hluta kvöldsins fyrir að taka stórgóða mynd af Jónínu Ben og deitinu hennar við borð stuttu frá). Eftir smá skrall á kjallaranum var haldið á Rex þar sem við áttum eitthvað vín í boði Egils, en ég kom mér undan því og fékk í staðinn sódavatn í boði Bjössa. Mér tókst svo að flýja heim fljótlega eftir miðnætti, enda varð einhver að opna búlluna í morgun!
Takk fyrir mig Bjössi og Dísa, og takk fyrir dekrið mamma og Óli!!! Ég er prinsessa.
sunnudagur, janúar 23, 2005
Unnsa fínbuxi (fancypants)
Birt af Unnur kl. 10:46
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli