miðvikudagur, október 20, 2004

Code blue, code bluuuueeee!

Jæja, nú er allt tilbúið. Búið að plasta allt rakadrægt í húsinu, pakka brothættu inn í bubbluplast, fela allt oddhvasst og allt sem inniheldur koffein eða sykur. Skipt hefur verið á vaktir eftir hentugleika og álagstímum, fundað um strategíu og hvaða ferli skuli sett í gang fari eitthvað úrskeiðis. Komið er upp tjald til áfallahjálpar í garðinum og farið hefur fram hópefli. Við erum búin að hita upp, teygja á og setja köttinn á bullandi róandi svo hún dagi ekki uppi í árásarstöðu uppá lofti. Neyðarlínan, eitrunarvarnir og vinalínan komið inn í minnið á símanum. Hjálmar tékk, hlaupaskór tékk, klóróform tékk. Við erum tilbúin. Hleypið þeim iiiiiiiiinn!!!

mánudagur, október 18, 2004

Afmælisþakkir

Takk fyrir frábæran afmælisdag! Kossar og knús!
Vá hvað allir voru duglegir að muna eftir mér (að vísu reyndi ég ekkert að leyna því beint að ég ætti afmæli... :p), síminn minn stoppaði ekki og meira að segja gamlir vinir sem ég hef vanrækt alveg rosalega létu það ekki stoppa sig og hringdu samt. Þið eruð æðisleg! Lovjú gæs, og lofa að blogga ekki meira væmið fyrr en á næsta ári...

þriðjudagur, október 12, 2004

Óskalistinn 2004

Í kjölfar síðasta pósts hafa nokkrir samviskusamir vinir spurt mig hvað ég vildi í afmælisgjöf (sem framkallaði magnað samviskubit þar sem ég hafði engum þeirra gefið afmælisgjöf síðast, muna það í næstu kaupstaðarferð; kaupa 18 afmælisgjafir...). Hefðinni samkvæmt svaraði ég með veiklulegu "ég veit það ekki". Svo núna þegar ég var að reyna að sofna (ekki hægt meðan verkfallsbarnið gengur laust í húsinu með sinn öfuga sólarhring) mundi ég allt í einu hvað það er sem mig vantar mest. Reykskynjara. Og það er það sem ég vil takk. Ég er nefnilega eldhrædd fram úr hófi og kem úr kertaglaðri fjölskyldu (voða kósí og skemmtilegt þar til einhver meiðir sig...) fyrir utan það að í húsinu eru 5 sjónvörp, flest gömul og full af ryki, svo ég fer aldrei alveg róleg að sofa... Nú erum við búin að búa í þessarri dauðagildru í 11 ár og þrátt fyrir mótmælin sem ég veit að heimilisfaðirinn á eftir að standa fyrir þá segi ég hér stopp. Og ætla að hengja upp minn eigin reykskynjara á fimmtudaginn við hátíðlega viðhöfn með tilheyrandi ræðuhöldum og tárfelli. Það skondna við þetta alltsaman er að heimilisfaðirinn er búinn að læra að setja upp flókin og fullkomin eldvarnarkerfi, sem er einmitt ástæðan fyrir því að hann vill enga vesældarlega reykjskynjara í sínu húsi. "Einhvern daginn" ætlar hann nefnilega að setja upp ofursúpertúrbó eldvarnarkerfi með öllu nema hráum í húsinu, sem verður þá reyndar að öllum líkindum orðið að öskuhrúgu.

mánudagur, október 11, 2004

Áminning dagsins

Minnt er á hátíðisdag sem mun í ár falla á næstkomandi fimmtudag. Hvatt er til gjafakaupa áður en örtöðin hefst á miðvikudag. Blóm og kransar afþakkaðir.
Sama dag kemur Ásla á skerið og er hér með gefin út almenn viðvörun.
Annars er það helst í fréttum að um helgina tókst mér að vinna af mér alla vikuna og þarf því ekki að vinna aftur fyrr en fimmtudaginn í næstu viku. Held ég hafi síðast verið í svona löngu fríi frostaveturinn mikla ´99... Veit ekki alveg hvað ég á að gera en rámar eitthvað í háskóla og bækur sem ég ætti kannski að lesa. Mun kanna málið.
Við mamma gerðumst myndarlegar á föstudaginn og bökuðum eins og fyrirmyndarhúsmæðurnar sem við erum inni við beinið. Bökuðum 6 tertur (eftir einstaka hvatningarræðu móður minnar sem hún fær plús í kladdann fyrir) sem voru yndislegar og litu meira að segja vel út ef maður hallaði örlítið undir flatt þegar maður horfði á þær. Ég held samt að ég sé mjög smáborgaralegur bakari og ekki menningarleg fyrir fimmaura því mitt markmið í þessu öllu saman var að borða eins mikið af "þessu góða", þ.e. dæm, nóa kroppi og súkkulaði, áður en það yrði sett í kökur því ég vissi að ég kæmist ekki í veisluna þar sem þær yrðu borðaðar. Ég er prakkari.
Vandamál vikunnar er hinsvegar að ég er hætt að sofa. Ligg andvaka og stari á loftið tímunum saman áður en ég sofna, því ég er haldin þeirri meinloku að geta ekki lært á kvöldin. Það þýðir að ég þarf að vakna snemma til að læra ef ég ætla ekki að vera í háskólanum til fertugs svo ég fer að verða pííínu sybbin. Ég fæ klapp á bakið fyrir að lifa í augnablikinu frekar tilbreytingarsnauðu lífi en geta samt föndrað mér vandamál :)

mánudagur, október 04, 2004

Flótti skipulagður

Deginum í dag hef ég eytt í að skipuleggja flótta minn af þessu guðsvolaða skeri. Ekki raunsæjan flótta, heldur þennan skemmtilega, búin að sitja og skoða myndir af sólarströndum og kókoshnetum, vinalegum kóalabjörnum að vinka og flækingsköttum í Róm. Svona dagar á Íslandi eru og verða alltaf fráteknir fyrir dagdrauma, það er fáránlega mikið rok og kuldalegt úti, og svo er eins og Skaparanum finnist fyndið þegar ég er einstaklega geðvond að ögra mér örlítið. Áðan fauk upp í mig laufblað. Verð að hætta að labba um gapandi eins og fiskur. Næst gæti það orðið grunlaus fugl og ég held að báðir aðilar kæmu illa útúr þeim viðskiptum. Svo finnst mér ég aldrei eins bjánaleg eins og þegar ég stend með risastóru skólatöskuna mína á bakinu (sem færir þyngdarpunktinn minn greinilega full-aftarlega) að berjast á móti rokinu sem hefur betur svo ég enda á að standa með fimm tásur teygðar útí loftið að reyna að færa þungann áfram en það gengur ekkert og maður stendur bara í miðju skrefi eins og maður hafi verið settur á pásu. Ekki töff. Almennt séð þá hefur þessi dagur verið einstaklega lítið töff og ég stefni á að gleyma honum sem fyrst. En ég get glatt mig á því að það var allavega ekki ég sem datt um pallinn minn í eróbikkinu í morgun, það var annar mistöff maður í spandexi sem fórnaði sér til að bjarga deginum mínum og vil ég þakka honum fyrir það. Ég vil líka biðja um að ég muni aldrei ALDREI detta í spandexi. Eek.