fimmtudagur, desember 30, 2004

Jólaskýrslan

Þá er maður semsagt snúinn aftur til siðmenningarinnar með allskonar marbletti til sönnunar þess að það hafi verið bæði kindur og óveður fyrir austan. Við Snati lentum í smá átökum við girðingarstaur sem lauk með ósigri okkar og má sjá það á vinstri sköflungnum á mér, sem er tvöfaldur. Og blár. Ég er sessí... En jólin voru samt ofsalega góð í sveitinni, vonda veðrið var bara kósí þegar maður vissi að maður væri öruggur inni og ekkert á leiðinni út á næstunni. Ég var auðvitað eins og blómi í eggi hjá ömmu og afa, skilst að amma hafi legið á dýnunni minni áður en ég kom til að hita hana, það er gott að vera jólarósin hennar ömmu sinnar sko! Samt er nú alltaf gott að koma heim aftur, eina er að kötturinn er að taka sitt venjulega geðvonskukast yfir að við höfum skilið hana eftir og hún stendur bara á miðju gólfi og gargar frá morgni til kvölds en það hlýtur að fara að ganga yfir. Hún er voða spúkí þegar hún lætur svona, ég var að reyna að sofa í morgun eftir spinning ævintýrið (hrikalega var það hrezzzzzandi) en alltaf þegar ég rumskaði og opnaði augun sá ég beint inn í glyrnurnar á kettinum sem sat á gólfinu og starði á mig. Spes.
Núna er ég á kunuglegum slóðum í baðstofubúrinu að bíða eftir steggjahóp og bráðna úr hita og svita. Foj.

Harka!

Klukkan er kortér í 6 og ég er búin að sofa í tvo tíma en er samt mætt í Laugar á æfingu, í spinning eftir 45 mín sem þýðir að ég er hetja. H-E-T-J-A. Bara svo það sé á hreinu.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Sayonara jólaálfar

Nú er lokið svakalegustu World Class þemahelgi sögunnar. Útskriftarveisla hjá Björk afgreiðsludömu og nú snyrtifræðingi (held ég allavega...) á föstudaginn, svaka fínar veitingar og horft á dúddana í Herra Ísland spóka sig á skýlunni eftir strangar æfingar í Laugum. Það rættist nú úr þeim miðað við ástandið á þeim þegar þeir byrjuðu, við vorum alveg hissa. Allir í brúnkusprautun takk! Ekki vildi ég nú samt að einhver gagnrýndi mig eins og við gagnrýndum þá, held ég hafi unnið mér inn nokkra tíma í kompunni þetta kvöld...
Á laugardaginn voru svo litlu jólin í Laugum. Byrjuðum í partíi hjá Birtu, svo var svo hrikalega gaman þar að við mættum alltof seint á litlu jólin. Það kom nú ekki að sök, mættum beint í karókíið sem strákarnir svartklæddu vígðu fyrir okkur, Jónsi tók Proud Mary svo manni næstum vöknaði um augun bara. Eða svoleiðis. Hm. Svo kom upp sú hugmynd að afgreiðslan tæki Æ Lov Rokk ennd Ról, Britney style. Áður en ég vissi af var byrjað að ýta mér af stað að sviðinu þrátt fyrir að ég væri búin að sverja og sárt við leggja að ég kæmi hvergi nálægt þessarri maskínu. Ég var ekki lengi að gróðursetja háu hælana í parketinu og sagðist ekki fara fet en þær lyfta stelpurnar sem greinilega er að bera árangur og ég var látin spæna upp parketið með illu að sviðinu. Sorrý Bjössi... Það fór nú samt betur en á horfðist, ég var of upptekin til að syngja mikið, við að passa að bömpa Hrönn ekki af sviðinu með Beyoncé múvinu öðru megin meðan ég reyndi að forðast að fá míkrafóninn sem Bylgja var alltaf að sveifla í áttina að andlitinu á mér í trýnið hinumegin. Svo var skutlast í bæinn þar sem ég fann Guðrúnu og höbbí á Sólon og dansaði með hald. Mjög töff. Hitti reyndar fáránlega mikið af fólki þetta kvöld. Endaði samt á að þiggja far heim með mömmu Jóhönnu (sem er kona dagsins af því tilefni) um sexleytið og missa meðvitund áður en ég snerti koddann. Brilljant kvöld!
Á sunnudaginn eldaði næfurþunn Bylgja ofaní liðið og fær prik í kladdann fyrir að fórna sér í eldamennsku í sínu ástandi! Klappklappklapp. Mexíkóskt þema og maturinn var frábær, lágum afvelta á eftir og töpuðum okkur í afar vafasömum umræðum... Þriðja World Class kvöldið í röð og ekkert síðra en hin tvö. Við erum ágætar.
Í dag (mán) fór ég svo í Smáralindina þar sem ég sannaði það sem ég hef alltaf sagt að ég versla eins og karlmaður á Þorláksmessu, kláraði allar jólagjafirnar á klst og var bara frekar ánægð með mig. Á morgun flýg ég til brósa og fjölskyldu í sveitina, hinn verður svo haldið til Bakkó þar sem jólin verða haldin hátíðleg hefðinni samkvæmt. Sem er hið besta mál. Mun snúa aftur til siðmenningarinnar þann 28. des, full af orku og til í slaginn.
Þangað til óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla, njótið nú rólegheitanna þessa örfáu daga og allir að muna að þakka fallega fyrir sig. Það er fullorðins. Til hamingju með jólin!

fimmtudagur, desember 16, 2004

Próflok og almennur aumingjaskapur

Um þetta leyti á morgun verð ég búin í prófunum þessa önnina og líklega á langþráðri æfingu og baðstofulúri. Ahhh. En þótt prófin klárist þýðir það enga lognmollu, frekar en vanalega hjá mér! Sem betur fer :) Verð að vinna um helgina, og ekkert nema gott um það að segja, alveg kominn tími á að maður heilsi upp á liðið og borði svolítið af tortillum og svona... Á föstudagskvöldið er afmæli, partý og svo auðvitað Herra Ísland, en ég held því verði nú fórnað þetta árið á altari próflokadjamms. Það er hinsvegar bara upphitun og teygjur fyrir laugardagskvöldið, sem er búið að plotta og plana og á að verða alveg skothelt. Þetta er samt að verða fullgróft held ég, verður örugglega eins og áramótin þar sem maður er búinn að gera sér svo miklar vonir að það endar allt í steik! En þá eru semsagt litlu jólin í World Class, karókí (æ nó) og mikið fjör. Skilst það eigi að pota okkur í eitthvað júniform af þessu tilefni en sel það ekki dýrara en ég keypti það, enda búin að vera í einangrun síðustu vikur og veit voða lítið um umheiminn eins og er. Á laugardaginn er ég reyndar búin að mæla mér mót við svo marga að það á eftir að vera heilmikið álag að standa við það alltsaman og eins gott að skilja háu hælana eftir heima ef þetta á ekki að enda með íþróttameiðslum.
Ég er á Reykjalundi eins og er, í básnum hennar mömmu að reyna að læra undir próf morgundagsins, sem er í kúrsinum Stjórnmálafræði: íslenska stjórnkerfið. Fínn kúrs með fullt af efni og ef ég miða við gömul próf þá verður þetta langerfiðasta prófið í ár. Verst að ég er ekkert búin að lesa fyrir það... Hm...

miðvikudagur, desember 15, 2004

Jólagóðverkið í ár

Mig langar bara að benda ykkur á þægilegt tækifæri til að gera eitt stykki jólagóðverk í ár ljósin mín. Þannig er að Davíð ("Balli" hérna í tenglunum mínum) hefur afþakkað jólagjafirnar sínar í ár og bent fólki í staðinn á að gefa í jólagjafasjóð ABC hjálparstarfs, þar sem við eigum bæði styrktarbörn (eins og reyndar óvenju margir í yndislega vinahópnum mínum). Þetta finnst mér algert snilldarframtak hjá stráknum og fær hann klapp á kollinn fyrir það, reikningsnúmerið þeirra og allar nauðsynlegar upplýsingar getið þið nálgast á síðunni hans og auðvitað á síðu ABC. Í ár eiga allavega börnin í Úganda að fá dýnu í jólagjöf, og stefnt er á að reyna að gefa sem flestum systkinum styrktarbarnanna líka, sem ekki hafa verið svo heppin að fá stuðningsaðila. Hver dýna kostar 1200 krónur, en hinsvegar er engin lágmarksupphæð á fjárgöfunum. Reynum nú að muna eftir þeim sem minna mega sín á milli þess sem við kaupum heimabíó og GSM síma handa ástvinum okkar, þetta tekur bara örfáar mínútur í heimabankanum en maður verður allur "warm and fuzzy" að innan á eftir :)

mánudagur, desember 13, 2004

Heimspekihrollurinn all over again

Þeir sem muna eftir geðsveiflunum sem fylgdu lærdómi fyrir heimspekiprófið hjá Clarens á sínum tíma eru réttilega skelkaðir núna. Alþjóðastjórnmálaprófið sem ég fer í eftir hádegið virkar svipað, fáum bara fullt af efni en vitum ekki neitt hvernig er hægt að spyrja úr því, ekkert gefið upp um svoleiðis smáatriði. Sem er auðvitað kannski ekki skrýtið, maður á náttúrulega bara að kunna efnið og geta unnið úr þeim verkefnum sem er hent í mann úr því en hitt væri bara svooo mikið þægilegra! Ég vil bæta stöðu þægindasjónarmiðsins innan háskólakerfisins, það er ekkert hollt að sofa ekkert, lesa endalaust og lifa á kóki (Coca Cola sko, kókaínið er spari), svo hérmeð hef ég baráttu mína fyrir þægilegra og álagsminna háskólanámi. Birta prófin fyrirfram á netinu, fækka bókunum, setja í þær fleiri myndir og jafnvel tengja námsefnið kunnuglegum persónum til að minnka pressuna (hver gæti stressað sig yfir "Depill skoðar regluveldalíkan Allison"?) Hver er með???

föstudagur, desember 10, 2004

It´s all coming screaming back to me...

Fyrsta prófi lokið. Þrjú eftir. Þetta mjakast.
Var farin að halda að ég væri búin að vinna bug á prófstressinu mínu alræmda fyrir þetta próf því ég var bara glöð og kúl á því alla vikuna, kvartaði meira að segja yfir því í gær að ég væri ekki nógu stressuð. En nú veit ég hinsvegar ástæðuna. Ég var að safna. Fyrir síðustu þrjá tímana fyrir prófið. Var heima að dúlla mér við að hita kaffi þegar það náði mér allt í einu, skalf eins og lauf í vindi, kaldur sviti, föl eins og lík, illt í mallann, foj. Panikaði og fór að reyna að lesa allar bækurnar mína, glósurnar og gömlu prófin á sama tíma, sem gekk merkilegt nokk ekki vel og gerði lítið til að minnka skjálftann. Á endanum sætti ég mig við örlög mín og gafst bara upp, búin að henda blöðum um allt eins og geðsjúklingur en engu nær um eitt eða neitt. Skellti mér bara í prófið eftir að hafa lofað mömmu að gera ekki betur en mitt besta.
Veit auðvitað ekki hvernig mér gekk, veit það aldrei, en ég veit að ég fór fyrst út úr prófinu sem orsakaði alveg nýja bylgju af stressi. Hverju gleymdi ég eiginlega að svara?...
Og væ ó væ á ég aldrei nóga sálarró til að fara yfir prófin mín?

fimmtudagur, desember 09, 2004

Hvar eru kommentin?

Ég er að verða örlítið þreytt á því að kommentin hérna á síðunni núllast alltaf reglulega og allt sem hefur verið sagt hverfur. Skemmtilegasti hlutinn! Veit einhver hvað vandamálið er? Balli? Hubby? Anyone? Rats...

þriðjudagur, desember 07, 2004

Horfin...

Ég er ekki dauð, ég lofa, ég er bara í prófum og haldin einstakri sjálfhverfu þessa dagana. En þið eruð samt góð að hringja og athuga hvort ég sé ennþá í tölu lifenda. Ánægð með ykkur.
Ég skrapp til Skandinavíu í rannsóknarleiðangur og komst að því að jú, það er hægt að eyða öllu sem maður á á 5 dögum. Þá vitið þið það. Maður er alltaf að fórna sér fyrir vísindin. Nóbell? Komst að því að Svíar eru ágætir en Danir eru æði, allavega gamli Daninn í Bilka sem sagði okkur að við ljómuðum og hefðum svo fallega útgeislun. Elskann. Og hann var ekki einu sinni pervert því fyrr en varði var hann kominn aftur að benda konunni sinni á hvað við værum ljómandi ungar stúlkur.
Annars er bara ekkert að gerast, ég er varla búin að fara útúr húsi í ca viku nema til að fá mér vikulega ísinn minn og slúðra, sem var náttúrulega bara nauðsynlegt. Engin vinna og allt í pati þar auðvitað því það vantar mig. En ekki hvað... Hóst.
Jú, og það sést í gegnum aðra augabrúnina á mér. Kannski ekki fréttir en mér finnst það magnað og í svona gúrkutíð er allt leyfilegt.
Svo er það bara að þrauka fram til 17. des en þá má opinberlega fara að syngja jólalög, bryðja piparkökur og krulla pakkabönd. Eitthvað skilst mér að ég eigi að djamma þá helgi alla með smá hléi til að dreifa jólaskapinu meðal hreystimenna og heiðurskvenna í klassanum og ætli ég reyni ekki að standa mig þar, þótt þið verðið börnin góð í alvöru bara að fara að læra að lifa með því að ég er lélegur drykkjumaður, eigum við að læra af hestamannaballinu kannski? Foj.
Gangi þeim vel í prófum sem féllu eins og ég fyrir "mennt er máttur" línunni á sínum tíma og megi hinir púkarnir njóta mandarínanna og troðningsins í Smáralindinni með gleði í hjarta.