sunnudagur, september 30, 2007

Án titils

Ég er búin að gera ýmislegt sniðugt síðustu vikur og taka myndir því til sönnunar, en ég finn ekki snúruna til að koma myndunum yfir í tölvuna. Bömmer. Kemur að því samt, og þá set ég inn fullt af samhengislausum myndum sem hafa safnast upp.
Þessa dagana má finna mig í hinum ýmsu kvikmyndahúsum borgarinnar þar sem ég er að njóta kvikmyndahátíðarinnar. Leitið mig uppi.

þriðjudagur, september 25, 2007

Unnur Simpson

Ég sem Simpson:

þriðjudagur, september 18, 2007

Andlaus helgarskýrsla

Mér fannst kynvillingurinn í Spaugstofu vikunnar ó svo sjúklega fyndinn. Klárlega erfiður sjúkdómur við að eiga.
Helgin var góð. Ég, Magga og Rakel drógum Sófus 2 upp á Esju á föstudaginn og lögðum hann svo í bleyti í Laugardalnum. Á laugardaginn flutti Sófus út og ég skellti mér í bústað með Rakel og tveimur fjórfættum vinkonum, við elduðum góðan mat (við Rakel það er, hundarnir voru gagnslausir í þeirri deild), mozzarella og tómatforrétt og svo humar í aðalrétt, og skottuðumst á náttfötunum. Ofsa gott. Á sunnudaginn tókum við létt labb, lærðum svolítið, skelltum okkur í sund á Laugavatni og dáðumst að því hvað landið okkar er kjánalega fallegt í góðu veðri. Svo var haldið Lettlands-vídjókvöld og ég afrekaði það loksins að sjá Reservoir Dogs. (Engin vonbrigði þar, þó eyrað hafi svolítið tekið mig á taugum.)
Allt í allt mjög góð helgi, og ég er ekki frá því að ég hafi skilið kvefið mitt eftir á Esjunni. Svo ef þið eigið leið þar framhjá og rekist á umkomulaust kvef sem vantar far, ekki láta blekkjast. Það er agalegt.

fimmtudagur, september 13, 2007

Tímabundið kommúnuástand

Þá er fyrri sófasörfarinn kominn og farinn, og dvöl þess seinni hálfnuð. Það er mjög patent að hafa svona lið á sófanum, þeir elda og þrífa, og hlæja á sömu stöðum og ég yfir sjónvarpinu. Hentar mér vel þar sem ég er einbúi en má hvorki fá mér kött né hund eins og er. Verst með mataræðið þeirra, í gær var ég látin elda hrossabjúgu með kartöflumús og jafningi því Sófus 2 sá þau í Bónus og varð alveg heillaður af hugmyndinni. Hann situr og nagar eitt kalt í sófanum yfir Dr. Phil í þessum töluðu. Þessi elska. Áðan var hann að dunda sér við að klippa út "Muu"-ið af mjólkurfernunni minni, því honum fannst það sniðugt og ætlar að taka það með sér. Fólk er skemmtilegt.

fimmtudagur, september 06, 2007

Skúlensí bitte

Í gær spilaði ég frisbí. Í dag var ég í snúsnú og spilaði snákaspil. Þetta fæ ég borgað fyrir. Og ekki einu sinni illa. Jei!
Fyrsti tíminn í HÍ í fyrramálið, og mikið hlakka ég til að fara á fyrirlestur á íslensku. Helgin stefnir svo í að verða hin ágætasta, vinahittingar, afmæli, brönsj og allskonar skemmtilegheit, og svo ætla ég í bláa lónið á sunnudaginn með fyrsta sófasörfarann minn. Allir velkomnir með, þess fleiri því betra, það er nauðsynlegt að túristast örlítið öðru hvoru. Og maka sig allan í drullu. Verið í bandi.

þriðjudagur, september 04, 2007

Komin heim!

Þá er ég flutt að Garðastræti 4 og gæti ekki verið hamingjusamari. (Ætla samt að reyna.) Ísland er ennþá betra en mig minnti.
Internettengingin mín er líka flutt að Garðastræti 4 en hefur greinilega villst innanhúss, og ég er að bíða eftir ofur-uppteknu símamönnunum sem ætla að mæta með leitarhunda í húsið, finna tenginguna og vísa henni vinsamlega upp á þriðju hæð til vinstri.
Ég er byrjuð að vinna í Landakotsskóla með háskólanum og líkar vel, enda gerir staðsetningin það að verkum að ég þarf næstum aldrei að yfirgefa 101 nema til að fara í ræktina. Hið besta mál þar sem ég er svo ryðgaður bílstjóri eftir Frakklandsdvölina að þess minni tíma sem ég ver bak við stýrið þess betra fyrir þjóðfélagið allt. (Ekkert að þakka.)
Annars hvet ég vini og vandamenn til að kíkja í heimsókn, það er nefnilega svo fallegt heima hjá mér að ég get ekki lýst því á blogginu, verðið bara að sjá það með eigin augum. Þeir sem heimta kaffi verða samt að vara mig við áður en þeir mæta, því ég er ennþá að reyna að ákveða hvernig kaffikönnu ég vil. Valkvíði.
Ég er með gamla góða gemsanúmerið en nýi heimasíminn (sem er villtur með internettengingunni einhversstaðar á göngum hússins eins og er en verður vonandi þefaður uppi á næstu dögum) verður 565-1132. Skrifa það niður.