Þá er ég flutt að Garðastræti 4 og gæti ekki verið hamingjusamari. (Ætla samt að reyna.) Ísland er ennþá betra en mig minnti.
Internettengingin mín er líka flutt að Garðastræti 4 en hefur greinilega villst innanhúss, og ég er að bíða eftir ofur-uppteknu símamönnunum sem ætla að mæta með leitarhunda í húsið, finna tenginguna og vísa henni vinsamlega upp á þriðju hæð til vinstri.
Ég er byrjuð að vinna í Landakotsskóla með háskólanum og líkar vel, enda gerir staðsetningin það að verkum að ég þarf næstum aldrei að yfirgefa 101 nema til að fara í ræktina. Hið besta mál þar sem ég er svo ryðgaður bílstjóri eftir Frakklandsdvölina að þess minni tíma sem ég ver bak við stýrið þess betra fyrir þjóðfélagið allt. (Ekkert að þakka.)
Annars hvet ég vini og vandamenn til að kíkja í heimsókn, það er nefnilega svo fallegt heima hjá mér að ég get ekki lýst því á blogginu, verðið bara að sjá það með eigin augum. Þeir sem heimta kaffi verða samt að vara mig við áður en þeir mæta, því ég er ennþá að reyna að ákveða hvernig kaffikönnu ég vil. Valkvíði.
Ég er með gamla góða gemsanúmerið en nýi heimasíminn (sem er villtur með internettengingunni einhversstaðar á göngum hússins eins og er en verður vonandi þefaður uppi á næstu dögum) verður 565-1132. Skrifa það niður.
þriðjudagur, september 04, 2007
Komin heim!
Birt af Unnur kl. 19:15
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli