Í dag komst ég að því að ef maður fær tannkrem í augað þá finnur maður bragðið af því eftir smástund. Hið merkilegasta mál. Mæli samt ekki með því að fólk prófi, komast líka að því í dag að það er mjög óþægilegt að fá tannkrem í augað. Allavega tannkremið með tópas-bragðinu.
Ég er hálfgerður lasinpési þessa dagana, klikkaði einhvern veginn allt á sama tíma, en er öll að skríða saman held ég. Og farin að geta gengið aftur, sem er vel. Annar fóturinn á mér ákvað um daginn að hætta að virka, af engri sýnilegri ástæðu, en við áttum alvarlegt samtal í gærkvöldi ("annaðhvort ferð þú að virka aftur eða ég læt taka þig af") og ég er ekki frá því að ég sé skárri í dag.
Þessi síðasta helgi mín í Strass er búin að vera ótrúlega skemmtileg, ég lenti nefnilega á fimmtudaginn í partíi með finnsku íshokkíliði og hef ekki skilið það við mig síðan. Þeir eru náttúrulega nett-bil allir eftir öll þessi höfuðhögg, en ferlega skemmtilegir engu að síður, þetta er svolítið eins og að vera í hóp af stórum bræðrum. Mjög indælt. Sem innvígsluathöfn var ég að vísu látin þefa innanúr hokkíhanska, en þar sem ég er með þetta fína franska kvef þá gat ég þefað af miklum tilþrifum við gífurlegan fögnuð viðstaddra, án þess að finna einu sinni snefil af lykt. Mjög patent. Ég komst líka að því að þegar maður er veikur og vantar mömmu sína til að hjúkra sér, þá er finnskt íshokkílið algjörlega næstbesti kosturinn í stöðunni, pakka manni inní fullt af flísteppum, færa manni te með hunangi og klappa manni á kollinn. Hvern hefði grunað?
sunnudagur, ágúst 19, 2007
Norræn samhjálp
Birt af Unnur kl. 15:00
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli