þriðjudagur, janúar 21, 2003

Jæja, svo bregðast búálfar sem aðrir álfar... Hann er alveg búinn að týna mér, hinsvegar virðist ég vera algerlega ein um það því allir hinir STRÁKARNIR (note bene) spyrja aldrei um neitt. Svo ég spyr; gildir þessi fælni stráka við að spyrja til vegar og lesa leiðbeiningar líka um að viðurkenna fávisku sína í stærðfræði og pota eins og einum skanka líkama síns lóðrétt upp í loft í von um svör? Vona það, annars líð ég allavega tiltölulega mikið meiri gáfuskort en mig grunaði. Sem er ekki góð uppgötvun að gera rétt fyrir stúdentspróf, sérstaklega ekki svona stuttu eftir að trú manns á kennsluhæfileika búálfa er tekin og troðið niður í svaðið...

þriðjudagur, janúar 14, 2003

Ég steig mín fyrstu skref sem öldungur í dag og uppskar, ja, aðallega hausverk... Jók ekkert átakanlega við þekkingu mína en það gæti verið vegna þess að ég gleymdi að hugsa fyrir hlutum eins og námsbókum, vasareiknum og öðrum munaði sem er víst orðinn staðlaður útbúnaður stærðfræðinema í þessu neysluþjóðfélagi okkar. Var nú ekkert sérlega glöð með sjálfa mig þegar ég uppgötvaði mistökin en var ekki lengi að taka gleði mína á ný þegar í ljós kom að kennarinn minn er búálfur, sem mér finnst gríðarlega ánægjulegt því ég hef alltaf haldið því fram að ekkert sé ofar manns skilningi hafi maður búálf til að útskýra það! Nú þarf ég bara að fá Möggu mína til að grafa upp gömlu stærðfræðibókina sína, veiða mér grafískan vasareikni og þá verð ég til í slaginn...

föstudagur, janúar 10, 2003

Jahá, nú er ég, 19 ára gömul, formlega orðin öldungur, á meira að segja pappírana til að sanna það! Ég vissi að æskudýrkunin væri komin út í dálitlar öfgar en fyrr má nú aldeilis fyrr vera... Að stimpla mann öldung, miskunnarlaust og án þess að maður fái nokkuð um það sagt eða tekið sé tillit til aldurs manns eða hugarástands, Menntaskólinn við Hamrahlíð ætti bara að skammast sín! Maður ætti kannski bara að sætta við við orðinn hlut og reyna að eldast með reisn, hætta að þykjast vera hrukku- og kærulaus unglingur og fara að sækja bingókvöld. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að samfélagið hafi séð fyrir löngu það sem ég sá ekki fyrr en í dag og að ég sé kannski ein af þessum sorglegu, útbrunnu kerlingum sem neita að viðurkenna aldur sinn og klæða sig og tala eins og unglingar, þrátt fyrir að geta geymt veskið sitt í hrukkunum á andlitinu... Til hvers eiginlega að eiga vini ef þeir segja manni ekki svona lagað? (Note to self; segja öllum vinum upp og endurnýja).

miðvikudagur, janúar 08, 2003

Það virkaði! Sem er reyndar engin trygging fyrir að það virki aftur en maður verður að lifa svolítið hættulega... Ætli það nái í gegnum textann að hann sé skrifaður af manneskju í peysu frá GK? Vona það, er voða stolt, hef aldrei verslað í svona fínni búð, ætli ég sé núna orðin þotulið? Hvernig ætli maður komist að svoleiðis? Ég hlýt að koma í Andreu fljótlega... Hún kostaði samt bara 2.500, það er kannski ekki tekið með... Langar samt að vita af hverju þau þurftu endilega kennitöluna mína til að ég gæti keypt hana, kannski til að skrá mig opinberlega sem þotulið? Á eftir að missa svefn yfir þessu sko. Komst reyndar líka að því (ekki í fyrsta sinn, samt alltaf jafn hissa og svekkt...) á ferð minni um frumskóga útsalanna að enn hefur enginn hommanna í París vaknað og ákveðið að hanna buxur sem passa á litlu mig, maður myndi halda að miðað við fjöldann af þessu drasli sem er til myndi eitthvað af því komast allavega nálægt því að passa á mig en nei, svo virðist ekki vera samkvæmt fyrstu athugunum. Hefði líka haldið að það að skreppa skyndilega saman og passa þar af leiðandi ekki í gömlu buxurnar myndi óhjákvæmilega leiða af sér skemmtilega verslunarferð þar sem maður kæmist að því að maður hefði hoppað niður um nokkrar stærðir, en aftur nei, því stærðin mín núna virðist vera dularfull "milli númera stærð" sem engum hefur ennþá dottið í hug að framleiða. Sorglegt.
Hmm, aldrei hefði mér dottið í hug að loksins þegar ég kæmi mér að því að skrifa dagbók yrði hún um föt... Þetta eru gífurleg vonbrigði, hélt ég myndi a.m.k. leysa eitt stórt vandamál sem blasir við heimsbyggðinni, t.d. eyðingu regnskóganna... Það kemur samt ábyggilega um leið og ég fæ buxur!

Mig hefur langað að skrifa dagbók alveg síðan ég las dagbækurnar um hana Kötu þegar ég var lítil. Eftir að hún fór að skrifa dagbók táldró hún spænskan fola, varð módel og súpergella og öll hennar vandamál gufuðu upp. Ætli mín hafi sömu áhrif? Bara ein leið til að komast að því! Hef samt aldrei haft þolinmæði í að skrifa reglulega, oft reynt en aldrei tekist, yfirleitt vegna þess að um leið og ég byrja að skrifa kemst ég að því að ekkert hefur gerst yfir daginn þess virði að skrifa um það, verð leið og þarf að hætta að skrifa til að borða nammi...
Best að reyna að pósta þetta áður en ég skrifa meira, veit ekkert hvernig þetta virkar og verð brjáluð ef ég skrifa fullt og týni því svo! Grr....