laugardagur, apríl 30, 2005

Gúrkutíð í blogginu

Eitt próf búið, þrjú eftir. Er að lesa núna Hvar á maðurinn heima? eftir Hólmstein, í annað skipti því ég náði því engan veginn í fyrra skiptið hvar maðurinn býr eiginlega. Annars er þetta ekkert svo hrikalegt námsefni að lesa, alls ekki, svo ég ætla ekki að vorkenna mér neitt hræðilega þessa helgina. Bara smá. Er að passa örverpið í kvöld svo ég er ennþá að lesa, en á morgun verður bara tekinn maraþonlestur til fjögur-fimm, og svo sett á sig partýandlitið og búbburnar og skellt sér í bullandi kæruleysi á ááárshátíð! Jei! Selfoss hír æ komm. Og ef ég fell í prófinu á mánudaginn sendi ég Bjössa persónulega í endurtektarprófið í haust. Jeminn hvað ég vona að hann lesi ekki þetta blogg... Hlakka til, hlakka til, hlakka til. Hef samt áhyggjur af því að ég verði alvarlega ofvirk, sleppt út úr prófsetunni og á dansgólf, svo til að stemma stigu við öllu hoppinu og skoppinu sem ég þekki sjálfa mig nógu vel til að vita að mun reyna að brjótast út, þá ætla ég að vera í stígvélum af mömmu minni, sem eru 2 númerum of stór. Maður verður að kunna að halda í töffið, það er fljótt að fara þegar manneskja af minni skálastærð fer að hoppa um allt. Glóðaraugu á báðum bara fara mér ekki.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Leyndardómur upplýstur!

Loksins búin að komast að því af hverju kommentin mín hverfa alltaf. Þau geymast víst bara í þrjá mánuði nema ég sé í áskrift sem ég borga fyrir. Ég er fátækur námsmaður og borga ekki fyrir eitt eða neitt nema bensín og hluti sem gera mig sætari. Og feitari... Hm. Já, ég sé þetta líka. Spurning um að endurskipuleggja málið. Allavega...
Jógu finnst ég leiðinleg að vera alltaf að tala um skóla á blogginu mínu. Ég er alveg sammála. Hef samt í bili ekkert annað að tala um svo þið verðið að afsaka það að fram yfir próf verður þetta annaðhvort leiðinlegt skólablogg eða pistlar um ekki neitt. Þessi er um ekki neitt. Vesgú.
Árshátíð á laugardaginn. Vei. Mikið ætla ég að vera sæt. Og fyndin. Vinn nefnilega með fyndnum stelpum og stefnan er að sameina krafta okkar í nokkrar mínútur á laugardagskvöldið og sjá hvort heimurinn þolir svona mikil skemmtilegheit á einum stað. Ef hann reynist ekki þola það þá var gaman að þekkja ykkur öll, en samt aðallega þau ykkar sem kommentuðu. Og ef einhver veit af hverju ég er búin að vera pirruð núna samfleytt í marga daga, þá má viðkomandi segja mér það. Eins ef einhver kann lækningu við því. Er að verða frekar pirruð á að vera alltaf pirruð yfir engu. Pirr. Gæti verið að ég sé farin að sakna vina minna af því ég er alltaf upptekin í skólanum? Séns. Eða það er einhver að lauma pirringi í matinn hjá mér og þá má sá hinn sami vinsamlegast hætta því strax. Ekki töff.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Morgunógleði

Á 5 mínútna leiðinni heiman frá mér og í Spöngina eru núna 8 hringtorg. Eitt var að bætast við í morgun. Það þýðir (takið eftir ógnvænlegri stærðfræðikunnáttu minni) að í morgun, fyrir hálfátta, vorum við Trausti búin að sigla kringum 16 hringtorg. Ég er nett sjóveik...
En neikvæðni lokið. Jákvæðni hafin. Það gleður mig að alveg sama hversu vel ég spenni niður hárið á mér áður en ég kenni á morgnana að ég lít samt alltaf út eins og kökuskrímslið þegar tíminn er búinn. Væri ekkert tiltökumál nema vegna þess að allir hinir í tímanum líta hreint ágætlega út í lok hans, sveittir og fínir en annars bara ferskir. Hvernig stendur á þessu? Örugglega sama ástæða og fyrir því að ég vakna alltaf með svona hár þótt ég sofni með 8 hárnet og svo margar spennur að ég held varla haus fyrir þunganum. Svona geta leyndardómar lífsins verið spennandi. Ég er búin að gefa skít í svefnhárið og hætt að gera tilraunir með hina ýmsu hárfjötra, nú legg ég metnað minn í að sofna eins úfin og ég get svo sjokkið verði minna þegar ég skríð fram á bað á morgnana.
Hvað ætli hafi annars orðið af jafnvægisskyninu mínu þegar ég var lasin um daginn? Á ekki að taka til, þá týni ég bara hlutum. Þarf samt að fara að finna það, dugar ekkert að halda sér í body bar í tímum, alveg sama hvað ég rígheld í minn enda, hinn endinn er (mjög óheppilega) ekki fastur við neitt.

mánudagur, apríl 25, 2005

Sjálfsvorkunn

Ég vorkenni mér svo mikið að vera að skrifa ritgerð að ég held ég sé að setja persónulegt met. Mér hefur ekki leiðst skóli svona mikið síðan ég var í heimspeki hjá Clarens. Nenni þessu ekki. Sem er náttúrulega ekki fullorðins afsökun fyrir að gera ekki hlutina. Ég er búin að komast að því að ég er haldin fælni við að taka ákvarðanir, get ekki ákveðið nokkurn skapaðan hlut og það hamlar mér alveg helling. Gat ekki ákveðið hvert ég vildi fara í skóla næsta vetur svo ég sótti bara ekki um skiptinámið, nú get ég ekki ákveðið hvað ég á að gera næsta vetur svo ég skráði mig á annað ár í stjórnmálafræði og fæ núna kvíðakast daglega þegar ég heyri póstinn læðast inn um lúguna ef ske kynni að þar væri greiðsluseðillinn sem ég þarf annaðhvort að borga eða ekki til að vera löglega skráð í skólann næsta ár. Er til 12 spora prógramm við þessu?

Og í fyrsta sæti er...

Hugrekkiverðlaunin hlýtur móðir mín. Megi hún lengi lifa. Húrra, húrra, húrra!

Gömul en glöð

Skemmtilegt hvað maður er búinn að koma sér upp góðu safni af allskonar meiðslum sem geta tekið sig upp við minnstu tilefni. Nú er ég í vandræðum með að sitja af því að nárameiðslin mín eru að minna á sig. Voru að gleymast og kunnu ekki við það. Sem er einstaklega vel tímasett þar sem prófin eru að byrja og útlit fyrir að maður verði meira og minna sitjandi næstu vikur. Maður er greinilega að verða gamall.
Komst líka að því að það er ekki hægt að gera öllum til geðs, stundum verður maður bara að ákveða hver maður vill vera og standa við það sama hvað hver segir. Var nefnilega sagt að ég væri of glöð. Það vissi ég reyndar ekki að væri hægt en maður er alltaf að læra. Fór samt að spá í það af hverju ég er yfir meðallagi glöð, því ég er hvorki á lyfjum né er lífið alltaf fullkomið og rósrautt. Ætli ég sé kannski bara glöð á yfirborðinu? Eftir ítarlega naflaskoðun komst ég að því að einhvern daginn ákvað ég bara að vera glöð frekar en ekki. Ekki mjög dramatísk niðurstaða úr annars vel framkvæmdri naflaskoðun. Hélt ég væri flóknari. Nett vonbrigði.
Annars ganga ritgerðasmíðarnar hægar en ég hefði kosið, held ég þurfi að láta mér vaxa sjálfsaga. Kann einhver að rækta svoleiðis?

laugardagur, apríl 23, 2005

Mygluð einn tveir og nú!

Hefst nú sá tími árs þegar ég fæ alltaf slæmt tilfelli af ljótunni sem endist framyfir próf, og nær hámarki degi fyrir síðasta próf. Dagurinn í dag er gott dæmi. Mín mætt á Reykjalund að skrifa ritgerð, fötin skemmtileg blanda af rauðu, appelsínugulu og eplagrænu og hárið farið að ögra þyngdaraflinu og þolinmæðinni minni. Ég er að vísu búin að lofa sjálfri mér og Möggu að halda í skvísið eins og ég mögulega get, verð allavega að geyma það á vísum stað þar sem árshátíð World Class er á laugardaginn og ég ætla að fórna smá stjórnmálaheimspekilestri til að mæta í matinn og sækja happdrættisvinninginn minn. Og fermingarmyndina mína! Þar fór kúlið sem ég var búin að vinna hörðum höndum við að byggja upp í fyrirtækinu. Keppni um hallærislegustu fermingarmyndina. Hver fær svona hugmyndir..? Rats.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sumar!

...og takk fyrir veturinn!
Langar að leggjast í dvala þegar ég hugsa um hvað það er mikið vesen framundan, tvær ritgerðir og svo prófin. Foj. En svo þegar það er búið tekur ljúfa lífið við, sumar í Laugum! Jei! Gerist ekki mikið betra. Allavega ekki ef það verður sama góða stemmningin og var síðasta sumar. Annars er skipulagið mitt í rúst eftir nokkrar kaffihúsaferðir þar sem spjallað var um ferðalög og aftur ferðalög, ég hef enga einbeitingu í próf núna heldur langar bara að hoppa til Keflavíkur og selja köttinn fyrir flugmiða til Langtíburstan. Get ekki einu sinni grínast með þetta. Sel ekki köttinn. Nei, nei, nei! Kannski stúdentshúfuna og alla Reif í blah geisladiskana. Langar til úúútlanda!
Væliskæl.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Í skottinu mínu...

Farið úr skottinu mínu!!! Strax! Ég kann ekki að meta það þegar fólk keyrir minna en 7 cm frá bílnum mínum. Það er of nálægt. Lofa.
Tókst eiginlega ekkert að sofa í nótt fyrir ritgerða- og prófstressi svo tíminn í morgun var frekar erfiður að kenna. Bjargaði samt öllu að Jóhanna, systir hennar og mamma, Björk og Saga mættu allar í tímann og það var æðislegt að hafa þær, lak af þeim hressleikinn. Eða kannski voru þær bara hressar í samanburði við mig.
Og hver er munurinn á head of state og head of government? Ef ég á að skrifa um head of state í t.d. Bretlandi væri ég þá að skrifa um mistah Tóní eða drottninguna? Frekar mikið vesen að byrja á ritgerð sem ég veit ekki um hvað á að vera. Hvað er ég að gera í háskóla??? Þetta er eitthvað mis... Hefði aldrei átt að útskrifast af kisudeild.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Skýrsla kvöldsins

Þá var ég að skríða inn úr dyrunum eftir vel heppnað bæjarrölt. Illt í tásunum!!! Enda var ég í skvísuskónum hennar mömmu minnar, það þarf meiri karlmennsku en ég bý yfir til að endast í þeim heilt kvöld skammlaust. Ég aldrei þessu vænt nennti að gera mig skvísulega og sæta fyrir kvöldið og uppskar þess vegna örlítið fleiri augngotur en vanalega, sem var hin besta skemmtun. Í framhaldi af augngotunum komst ég samt að því, sem er gott mál, að það skín greinilega af mér að ég er ekki týpan til að draga flækingshunda með mér heim á fyrsta kvöldi. Érso dönnuð. Reiknaði það út eftir að hafa fengið tvo ókunnuga kossa á höndina og tvo á kinnina. Aldrei sami dúddinn og bara einn hafði ég séð áður en reyndar aldrei talað við. Þeir voru samt ekkert að reyna við mig, bara gengu að mér, smelltu á mig herralegum kossunum og yfirgáfu svo svæðið. Hvað þýðir það eiginlega? Skiliddiggi.
En fréttir dagsins eru samt þær að Jóga massi (a.k.a. Snúður massi) varð Íslandsmeistari í kraftlyftingum í dag! Tiiiiiiiiil luuuuuuuuuuukkuuuuuuuu! Jei! Ég var að sjálfsögðu á svæðinu til að hvetja konuna og það var svaka stuð. Oh, ef ég væri nú svona mikill töffari. Bekkpressa koddann minn með herkjum...

föstudagur, apríl 15, 2005

Hemmi frjói Gunn

Ég er svo svöl og inn að ég er heima þetta föstudagskvöldið að horfa á Það var lagið með Hemma Gunn. Alls ekki slæmur þáttur, lekur af honum lífsgleðin og ólympíuandinn, skítt með það hver vinnur, bara að vera með! Það sem hinsvegar truflar mig frá því að lifa mig almennilega inn í hamingjuna er að á skjánum á bakvið kallinn eru svona flöktandi nótur, þessar með halanum, svona óskýrar og ekki í fókus. Örugglega mjög Feng Shui vænt en lítur fyrir mér ekki út eins og neitt nema... ja sáðfrumur. Og Hemmi Gunn, þessi endanlega holdgerving íslensku þjóðarsálarinnar með alkahólismann og kransæðavandamálin en samt alltaf í boltanum og allt er æðislegt og reddast, finnst mér ekki alveg ganga upp svona umkringdur svamlandi sáðfrumum. Jakk bjakk. Kjánahrollur.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hjááálp...!

Hvað á maður að gera þá daga sem manni finnst maður sjálfur bara ekki skemmtilegur? Koma svona dagar, eins og í dag, þar sem mér finnst brandararnir mínir ekki fyndnir, ég ekki tala um áhugaverða hluti eða vera ánægjulegur félagsskapur fyrir neinn. Hvað þá sjálfa mig en ég sit uppi með mig! Vona að ég verði aftur orðin venjulega, yndislega skemmtilega ég þegar ég vakna á morgun, eða ég neyðist til að grípa til örþrifaráða eins og að þegja og hlusta á hina. Guð forði mér frá svoleiðis ósköpum.

mánudagur, apríl 11, 2005

Smart á Smart

Kraftaverk dagsins: Trausti fékk skoðun!!! Og ekki bara fyrir árið 2005 heldur hoppaði hann yfir ár og er skoðaður fram til 2006, sem þýðir skoðunin mun lifa bílinn. Er ekki skoðun einmitt til að koma í veg fyrir að það gerist? Jæja, ekki kvarta ég! Vúhú!
Sat í tíma hjá meistara Hólmsteini í morgun og hann leiddi mig í allan sorglega sannleikann um framtíð mína. Hann benti okkur stúlkunum á það að auðvitað væri betur borgað að vera nektardansmær en t.d. kennari því þá er maður í betri einokunarstöðu á markaðnum. Það getur nefnilega hver sem er orðið kennari en svo fáar stúlkur eru nógu limafagrar til að verða nektardansmærar. Þannig að þær okkar sem eru svo óheppnar að vera ekki nógu sætar til að geta orðið stripparar sitjum uppi með það að þurfa að vera læknar, verkfræðingar og ráðherrar. Oh, alltaf er maður jafnóheppinn.
Enda er ég ekkert búin að strippa í dag. Ég er hinsvegar búin að skottast um allt á Smart bíl og svakalega fylgir því mikil gleði. Get lagt hvar sem er, bakkað útum allt eins og brjáluð því það þarf að miða vel til að ná að hitta eitthvað á honum og svo er þetta bara eitthvað svo passlegt. Vasaútgáfa af bíl fyrir vasaútgáfu af manneskju. Svo er hann svo skemmtilega fjólublár að innan allur, eitís fílingurinn bílgerður og það eykur enn á gleðina. Here in my car, I feel safest of all, I can lock all my doors, and it´s the only way to live, in cars, dúrúbb, dúrúbb dúrúbb.

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Kraftaverkaís

Nú er ég búin að lifa á ís í þrjá daga og er ekki frá því að mér sé að batna. Takk fyrir það Kjörís. Er að vísu komin með varanlega gular varir en það hlýtur að detta í tísku fyrr eða seinna. Get ekki verið heima hjá mér í náttfötunum eina einustu mínútu í viðbót svo ég ætla að harka af mér og taka vaktina mína í kvöld, láta fullt af fólki vorkenna mér og klappa mér á kollinn. "Ég ætla að kaupa af þér mánaðarkort", "Sjálfsagt, klappaðu hér (bendákoll)... og hver er svo kennitalan?...". Hljómar vel.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Lasinpési

Nú er illt í efni. Vaknaði í morgun með sárasta háls í minni persónulegu sögu held ég, magnaðan höfuðverk og skjálfandi af kulda. Ég varð að blása af tímann minn, sem var alveg glatað því það var víst loksins ágæt mæting í morgun eftir að slæmt tilfelli af páskaleti hafði hrjáð Spangargesti. Og nú sit ég á Hlöðunni með grýlukerti á nefinu, ísmolatær og gæææsahúð, svo ekki sé minnst á höfuðverkinn sem ákvað að halda trúnaði við mig í dag, og er að reyna að klára ritgerðina mína fyrir Hannes sem ég á að skila Á MORGUN. Dramadrottning dagsins: Ég! Þeir sem vorkenna mér æðislega mikið mega segja mér hvort tekjujöfnun á vegum opinberra aðila sé réttlætanleg og taka í svörum sínum mið af ólíkum skoðunum Nozicks og Rawls. Þeir sem vorkenna mér bara smá er bent á að færa mér heitt kakó og teppi.

föstudagur, apríl 01, 2005

Hvað gerðist?

Ég settist niður í morgun í þeim skýra tilgangi að skrifa ritgerð fyrir vin minn Hannes Hólmstein. Ekki fyrir hann per se náttúrulega, hann er held ég búin að læra sína lexíu varðandi ritstuld kallinn, en fyrir kúrsinn sem hann er að kenna og ég er svo heppin að sitja. Eitthvað varðandi jafnaðarstefnu. Einmitt, gekk svona vel nefnilega því ég skrifaði helling í dag en ekki bofs varðandi neitt gagnlegt. Skemmti mér samt konunglega en veit ekki alveg hvar ég fór út af sporinu... Pínu ringluð hérna megin.
Svo er ég svolítið fegin að vera bíllaus og föst heima í dag því það er fyrsti apríl og ég er ginnkeyptari en meðaljóninn. Og ljóshærð og örvhent. Hér er ég í minnstri hættu því mamma getur ekki logið frekar en ég, Bjarki er of lítill til að kokka upp almennilegar lygar og Óli er hálfur ofaní húddinu á Trausta (sem er bíllinn minn sko, ekki misskilja) og það skilst ekki almennilega hvað hann muldrar þar ofaní hvort eð er. Búin að setja upp virki úr íþróttatöskum og bókum, útbúin seríospakka og safa í pokum (þessum litlu silfurlituðu, ofsa vondir en brósi ræður í djúsdeildinni), með salatskál á hausnum og vopnuð handþeytara. Kem ekki fram fyrr en á miðnætti.