Skemmtilegt hvað maður er búinn að koma sér upp góðu safni af allskonar meiðslum sem geta tekið sig upp við minnstu tilefni. Nú er ég í vandræðum með að sitja af því að nárameiðslin mín eru að minna á sig. Voru að gleymast og kunnu ekki við það. Sem er einstaklega vel tímasett þar sem prófin eru að byrja og útlit fyrir að maður verði meira og minna sitjandi næstu vikur. Maður er greinilega að verða gamall.
Komst líka að því að það er ekki hægt að gera öllum til geðs, stundum verður maður bara að ákveða hver maður vill vera og standa við það sama hvað hver segir. Var nefnilega sagt að ég væri of glöð. Það vissi ég reyndar ekki að væri hægt en maður er alltaf að læra. Fór samt að spá í það af hverju ég er yfir meðallagi glöð, því ég er hvorki á lyfjum né er lífið alltaf fullkomið og rósrautt. Ætli ég sé kannski bara glöð á yfirborðinu? Eftir ítarlega naflaskoðun komst ég að því að einhvern daginn ákvað ég bara að vera glöð frekar en ekki. Ekki mjög dramatísk niðurstaða úr annars vel framkvæmdri naflaskoðun. Hélt ég væri flóknari. Nett vonbrigði.
Annars ganga ritgerðasmíðarnar hægar en ég hefði kosið, held ég þurfi að láta mér vaxa sjálfsaga. Kann einhver að rækta svoleiðis?
mánudagur, apríl 25, 2005
Gömul en glöð
Birt af Unnur kl. 01:02
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli