föstudagur, apríl 30, 2004

Nú er allt að gerast í Víkinni en ekkert í bænum. Ég er föst í bænum. Ef einhver góðhjartaður vill taka mig að sér um helgina, jafnvel fóðra mig á lélegu amerísku skemmtiefni og/eða lélegum amerískum mat er það vel þegið. Einnig mega þeir sem sjá sér fært að skrifa ritgerð á háskólastigi um sorphirðu og endurvinnslu gefa sig fram sem fyrst. Takk fyrir.

mánudagur, apríl 26, 2004

Ég skellti mér til Selfoss með fjölskyldunni á laugardaginn þar sem við mamma misstum stjórn á okkur í fyrrverandi KÁ, skemmtum okkur konunglega við að skoða kaupfélagsnærur, kaupfélagssokka og allskonar kaupfélagsdúllerí. Hoppuðum um allt kaupandi bláa netasokka og kjarnorkugræna nælonsokka, ég elska kaupfélög! En Selfyssingum var greinilega ekki skemmt og hafa kallað út aðstoð við að ná vitleysingunum út því fljótlega birtust tvö kjarnakvendi, vopnuð barni og bíl, og ég vissi ekki fyrr en ég var með munninn fullan af subbi úr pylsuvagninum, syngjandi með Anastasiu og komin hálfa leið til Víkur. Það er hættulegt að vera á Selfossi.
Í Vík var ég hneppt í þrældóm og látin vaska upp margra vikna virði af leirtaui gísltaka minna. Fékk að vísu að syngja með öllum gömlu júróvissjón lögunum okkar á meðan svo ég slapp tiltölulega heil á sál og líkama og vil ég þakka þeim Sókratesi, Nínu, Kareni og Sóley kærlega fyrir stuðninginn. Eftir fullt af grillmat var mér breytt í svaka skutlu og látin fá bjór. Í dós. Ekkert glas. Þetta sveitapakk. Nýjasti Stjórnardiskurinn var settur í og svo átti að drekka þar til hann yrði skemmtilegur. Fjórum tímum seinna gáfumst við upp á því og skelltum okkur bara á ball, þar var mikið dansað við marga gamla sveitapésa sem hræddu borgar-mig alveg svoleiðis að ég var mestan hluta kvöldsins á kvennaklóinu, örugg fyrir mönnum sem vildu segja mér að þeir kysu framsókn og læsu ekkert nema sauðfjárbækur. En þegar samkoman svo leystist upp enduðu allir einhvernveginn í húsi gísltaka minna og fóru þar fram líflegar stjórnmálaumræður fram eftir morgni. Eins og allir vita slökknar á mér um þrjúleytið svo ég lá og horfði á kettlingana (mússí) og beið eftir að vasapelaliðið yfirgæfi svæðið, fyrir utan það að fullt fólk að ræða stjórnmál er mesta tímasóun í sögunni, enginn hlustar á neinn nema sjálfan sig og rifist fram í rauðan (áfengis)dauðann. Svo fékk ég að fara að lúlla.
Daginn eftir borðaði ég svo óhollt að mér verður illt í bumbunni við tilhugsunina, var marineruð í heitum potti, notuð í auglýsingaskyni, yfirgefin vegna fundarhalda og svo skilað heim. Takk fyrir mig :)

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Hvað í ósköpunum var ég eiginlega að hugsa þegar ég lofaði að vera mætt á æfingu klukkan 6:30 í fyrramálið??? Ég er búin að vakna fimm alla vikuna og nú gafst mér tækifæri á að sofa til sjö og ég fórnaði því á altari fitubrennslunnar og fegurðarinnar. Æ hvað ég á bágt. Hef enga trú á að það sé hægt að vera nógu orkumikill á þessum ókristilega tíma til að sprikla neitt af viti svo ég spurði næringarfræðikennarann áðan hvort það virkaði að næla sér í orkuna í kvöld og sofa á henni til morguns, því ekki get ég farið að gúffa í mig morgunmat rétt fyrir hopp og hí. Það er bara ávísun á gubb. (Svo vil ég hafa bumbuna í lágmarki þegar ég spóka mig fyrir framan alla þessa spegla í salnum, annars væri ég vís til að grípa til örþrifaráða eins og henda mér niður úr efsta rimli eða hlaupa á meira en 5 km hraða á klst. Sem er auðvitað stórvarasamt). En það er semsagt víst hægt að safna orkunni kvöldið áður svo ég kom heim og stóð á beit í klukkutíma, svona til öryggis. Ég er hetja.

föstudagur, apríl 16, 2004

Ég gerði þau mistök í gær að monta mig af því að ég væri nú bara næstum farin að kunna frekar vel við tölvur og átta mig á að þær hötuðu mig ekki persónulega, ég hefði bara aldrei kunnað að tala við þær. Já, það er bara rugl, þær hata mig víst og ég hata þær alveg helling og þar við situr. Húsið mitt hvarf, birtist aftur og nú vill það ekki gera það sem ég segi því að gera. Það hatar mig. Foj.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Gleðilega hátíð páskaungarnir mínir! Ég vona að þið hámið í ykkur súkkulaði í allan dag með góðri samvisku og ráðið mig svo í sumar ;) *Sakleysislegt raul* dúllídúll...

laugardagur, apríl 10, 2004

Oh, ég á nákvæmlega enga þolinmæði eftir! Ég er að setja húsið mitt í þrívídd og það gengur fínt fyrir utan nokkur pínulítil smáatriði sem vilja bara ekki virka og það er að gera mig alveg klikk!!! Svo er ég líka með vírus í berkjunum og hósta stanslaust þurrum gamalmennahósta og það er að gera alla hina í Tæknigarði klikk... :)
Ég er búin að ákveða að fara í viku til Lilju og co á Spáni, vei! Svo kemur Ásla á mánudaginn, sem bindur tímabundið enda á "Áslu heim" baráttuna mína og öllum sem studdu hana hérmeð þakkað (söfnunarbaukum má ennþá skila). Mikil hamingja!
Annars er ég búin að vera andlausasti bloggari í heimi síðustu daga og er enn, þetta er svona málamyndafærsla til að tefja tímann sem ég hef til að koma með alvörufærslu. Ég er svo dipló.