Hvað í ósköpunum var ég eiginlega að hugsa þegar ég lofaði að vera mætt á æfingu klukkan 6:30 í fyrramálið??? Ég er búin að vakna fimm alla vikuna og nú gafst mér tækifæri á að sofa til sjö og ég fórnaði því á altari fitubrennslunnar og fegurðarinnar. Æ hvað ég á bágt. Hef enga trú á að það sé hægt að vera nógu orkumikill á þessum ókristilega tíma til að sprikla neitt af viti svo ég spurði næringarfræðikennarann áðan hvort það virkaði að næla sér í orkuna í kvöld og sofa á henni til morguns, því ekki get ég farið að gúffa í mig morgunmat rétt fyrir hopp og hí. Það er bara ávísun á gubb. (Svo vil ég hafa bumbuna í lágmarki þegar ég spóka mig fyrir framan alla þessa spegla í salnum, annars væri ég vís til að grípa til örþrifaráða eins og henda mér niður úr efsta rimli eða hlaupa á meira en 5 km hraða á klst. Sem er auðvitað stórvarasamt). En það er semsagt víst hægt að safna orkunni kvöldið áður svo ég kom heim og stóð á beit í klukkutíma, svona til öryggis. Ég er hetja.
miðvikudagur, apríl 21, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli