sunnudagur, febrúar 26, 2006

Elsku Hrefnan mín

Ég er komin með skæp! Tók ekki nema tæp tvö ár í vinnslu... Þú ert eins og er eina manneskjan á skæpinu mínu :) Jei! Þetta þýðir að við getum gelgjast þess meira yfir því að ég sé að koma til Köben í apríl!
Skæpnafnið mitt er UnnurMargret því ég er svo frumleg, og þeir sem þekkja mig og mér finnst skemmtilegir mega endilega setja mig á scype-ið sitt. Hinir helst ekki.
Ég þurfti að taka upp prufuskilaboð til að athuga hvort míkrafónninn minn nýji virkaði ekki, og ég held hann sé bilaður því ég hljómaði eins og Ripp, Rapp eða Rupp í Sögum úr Andabæ. Ekki kommenta og segja að ég hljómi svona í alvöru. Hringið frekar í mig á skæp til að segja mér það!

laugardagur, febrúar 25, 2006

Famous last words:

Ég er að fara á hestamannaball. Með Bylgju og hvítvín og nýja hárið mitt. Var búin að lofa mér á sirka milljón staði í kvöld sökum alzheimer light og ákvað að lokum að láta landafræðina ráða, og hestamannaballið er í mínu póstnúmeri. Höfum það samt í huga að ég hef ekki komið nálægt hrossi síðan ég mældi aldur minn einungis með einni tölu og var í hæga hópnum á reiðnámskeiði Reykjalundar. Aftast í hæga hópnum nota bene. Vona að tónlistin verði svo hávær að hún komi í veg fyrir samræður, annars er ég í djúpum. Maður ætti annars kannski að skella sér á hestbak við tækifæri, lifa svolítið hættulega... Ég á nú að heita Mosfellingur, en er samt hvorki í lúðrasveit né hestamennsku. Að ég skuli ekki skammast mín. Kannski að ég slyppi með það að fá mér bara hund?

Geimverur í Sinfóníunni


Í gær fór ég að sjá War of the Worlds flutt af Sinfóníuhljómsveitinni og kó. Það var alveg heilmikið skemmtilegt, venjulega finnast mér geimverur og fjöldamorð alls ekki rómó en Sinfó tókst hið ómögulega, og ég kíkti ekki einu sinni á klukkuna, hvað þá óskaði þess að geimverurnar ætu þá alla bara strax svo ég kæmist heim að gráta það að hafa gleymt að taka upp Nip/Tuck. Svona er ég menningarleg sjáið þið til.
Á miðvikudaginn dó hleðslutækið fyrir tölvuna mína, sem var bæði gott og slæmt. Slæmt af því ég var tölvulaus og þar með bæði skólalaus og Lost-laus, en gott af því þá hafði ég ástæðu til að fara í Tölvulistann, þar sem ég fæ alltaf heimsins bestu þjónustu hjá heimsins indælustu afgreiðsludrengjum. Einn þeirra ætla ég að fá til þess að leika í einhvers konar stutt/lang/heimilda/ör/draslmynd einhvern daginn, verst að mér láðist að spyrja hvað hann héti. Elska andhetjur, lifi Napóleon Dínamít. Þökk sé heimsins bestu þjónustu er ég semsagt fullhlaðin á ný og farin að skyldublogga. Borðaði líka fullt af ís í fínum Landcruiser áðan svo núna get ég ekki sofnað. Sem er grátlegt þar sem ég þarf að mæta í vinnu snemma í fyrramálið, og sýna svo stórleik annað kvöld. Sem minnir mig á það, ég má bjóða á sýninguna annað kvöld, laugardagskvöld kl. 20:00, ef einhver hefur áhuga þá bara bjallið í mig, eina skilyrðið er að hlæja hátt alltaf þegar við reynum að vera fyndin, hvort sem það tekst eða ekki. Og ég er á fínu skilti utaná Bæjarleikhúsinu, lít að vísu út fyrir að hafa skroppið í þvotti þar sem ég stend milli tveggja stæðilegra karlmanna en algerlega fansí engu að síður, skal setja mynd af því hingað við tækifæri en hvet alla til að taka smá rúnt í Mosó og skoða skiltið. Jón Örn getur sagt ykkur að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Við erum nefnilega öll brókarlaus. Það selur víst.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Míns eigins kona

Amma bauð í leikhús á laugardagskvöldið, í Iðnó að sjá Hilmi Snæ vera sína eigin konu. Og djíslúís hvað það var yndislegt! Nú skil ég loksins af hverju Hilmir Snær er svona dýrkaður og dáður, hann er svakalegur leikari, var næstum farin að gráta af aðdáun. Ég er sykurpúði. Mæli með því að fólk kíki þangað í kvöldmat og leikhús, ómetanlegt stykki. Lofa.
Á mun menningarsnauðari nótum þá fór ég í bíó í gær að sjá Casanova, og hún er líka yndisleg, á allt annan hátt. Heath Ledger mætti sko alveg eiga mig ef ég væri ekki þegar búin að gefa Josh Holloway úr Lost hjarta mitt. Sorrí Heath Ledger.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Síðustu metrarnir

Generall í kvöld og frumsýning á morgun. Allt gekk viðbjóðslega í gær svo það er komið smá stress í liðið. Aðalstressið mitt í þessu öllu saman fyrir utan hið klassíska "ég á eftir að detta um allar hljómsveitarsnúrurnar" er að ég komi ekki bölvuðum gerviaugnhárunum á mig. Það er búin að vera límug barátta síðustu kvöld því þetta hefur alltaf verið gert fyrir mig, og nú situr litla prinsessan bara í súpunni. Í augnablikinu er svo mikið lím fast á öðru augnlokinu á mér að það klínist oft fast við efri hlutann á augnlokinu og ég fer að líkjast Quasimodo, og svo er hellingur af bláum augnskugga fastur í líminu svo það er nettur glóðaraugafílingur í gangi í bland. Og leikhúsmeiksdrullan, sem ég man núna af hverju ég þoli ekki, er föst í hliðarhárunum á andlitinu á mér og útkoman er myndarlegt par af börtum. Æ fíl só prittí. Þetta er staðan gott fólk, eftir tvo andlitsþvotta, bara svo það sé á hreinu. En þetta er samt ofsa skemmtilegt, og mér finnst pínu sorglegt að æfingatímabilið sé að klárast, og salurinn að fara að fyllast (here´s hoping) af einhverju fólki sem ég þekki ekki. Ég vil bara æfa þar til þetta er gott, sýna eina sýningu fyrir mömmu mína og byrja svo á næsta. Allavega, nóg leikhúsvæl. Meðfylgjandi mynd heitir "Örvænt í sminkinu: Hvað í andsk. er ég að gera hérna?!".
Ég er að fara til Brussel 18. mars með stjórnmálafræðinni. Það sem hræðir mig við það er að við erum að fara að heimsækja fullt af merkilegu fólki í merkilegum stofnunum ESB og NATO, og á hverjum stað er skylda að hver nemandi spyrji að minnsta kosti tveggja gáfulegra spurninga. Síðan ég byrjaði í stjórnmálafræði fyrir næstum tveimur árum hef ég aldrei spurt gáfulegrar spurningar. Aldrei. Ég hef spurt spurninga eins og "gætirðu endurtekið þetta?" og "verður ekkert kaffihlé?". Kommentakerfið er opið fyrir þau ykkar sem luma á gáfulegum spurningum til að spyrja Brussana, ekki bregðast mér núna krakkar!!!
Yfir og út.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Linsan hennar Örnu


Þetta er ég í gegnum linsuna hennar Örnu. Ég vil setja þetta hér því þegar hún verður orðin fræg verður þetta ofsa svalt. Og nýi Kristallinn er ofsa, ofsa góður. Mexíkóskt lime, namminamm. Próf eftir 7 klst. Ó mæ...

föstudagur, febrúar 10, 2006

Front, front, front my baby...

Göreit. Próf á morgun, mín mætt á Hlöðuna, til í slaginn og hvað gerist? Fæ "This is how I ride my pony" svo svakalega á heilann að það er ekki pláss fyrir neitt annað þar. Garg.
Annars eru engar ekki-fréttanna orðnar að fréttum ennþá. Svo gangi mér bara vel í prófinu á morgun.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Vitlaus hilla anyone..?


Ég fæ alveg sting í hjartað þegar ég heyri fólk sem er að læra stjórnmálafræði í háskóla alhæfa og segja hluti sem leka af fordómarnir og hrokinn, eins og "...þessir vitleysingar þarna niðri..." sem ein notaði í tíma áðan til að lýsa múslimum. Ekki hryðjuverka- eða ofbeldismönnum, heldur bara hinum almenna múslima. *Hrollur*. Það sem hræðir mig er að þetta kemur frá fólki sem er búið að læra ýmislegt um mismunandi menningu og það af hverju kerfið er eins og það er, og á að vita að það er ekkert svart/hvítt í þessu, frekar en öðru. Og fyrst þetta fólk hugsar svona, hvernig hugsa þá hinir sem ekki hafa kynnt sér málið? Fólk þarf alvarlega að fara að hlusta aftur á Dýrin í Hálsaskógi og tileinka sér boðskapinn um dýrin í skóginum og allt það. Þótt það sé auðvitað rakin lygi þegar kemur að alvöru dýrunum í alvöru skóginum, sem borða hvert annað hægri vinstri, en boðskapurinn er skýr engu að síður. Ekki éta mig! Né múslimana!