Generall í kvöld og frumsýning á morgun. Allt gekk viðbjóðslega í gær svo það er komið smá stress í liðið. Aðalstressið mitt í þessu öllu saman fyrir utan hið klassíska "ég á eftir að detta um allar hljómsveitarsnúrurnar" er að ég komi ekki bölvuðum gerviaugnhárunum á mig. Það er búin að vera límug barátta síðustu kvöld því þetta hefur alltaf verið gert fyrir mig, og nú situr litla prinsessan bara í súpunni. Í augnablikinu er svo mikið lím fast á öðru augnlokinu á mér að það klínist oft fast við efri hlutann á augnlokinu og ég fer að líkjast Quasimodo, og svo er hellingur af bláum augnskugga fastur í líminu svo það er nettur glóðaraugafílingur í gangi í bland. Og leikhúsmeiksdrullan, sem ég man núna af hverju ég þoli ekki, er föst í hliðarhárunum á andlitinu á mér og útkoman er myndarlegt par af börtum. Æ fíl só prittí. Þetta er staðan gott fólk, eftir tvo andlitsþvotta, bara svo það sé á hreinu. En þetta er samt ofsa skemmtilegt, og mér finnst pínu sorglegt að æfingatímabilið sé að klárast, og salurinn að fara að fyllast (here´s hoping) af einhverju fólki sem ég þekki ekki. Ég vil bara æfa þar til þetta er gott, sýna eina sýningu fyrir mömmu mína og byrja svo á næsta. Allavega, nóg leikhúsvæl. Meðfylgjandi mynd heitir "Örvænt í sminkinu: Hvað í andsk. er ég að gera hérna?!".
Ég er að fara til Brussel 18. mars með stjórnmálafræðinni. Það sem hræðir mig við það er að við erum að fara að heimsækja fullt af merkilegu fólki í merkilegum stofnunum ESB og NATO, og á hverjum stað er skylda að hver nemandi spyrji að minnsta kosti tveggja gáfulegra spurninga. Síðan ég byrjaði í stjórnmálafræði fyrir næstum tveimur árum hef ég aldrei spurt gáfulegrar spurningar. Aldrei. Ég hef spurt spurninga eins og "gætirðu endurtekið þetta?" og "verður ekkert kaffihlé?". Kommentakerfið er opið fyrir þau ykkar sem luma á gáfulegum spurningum til að spyrja Brussana, ekki bregðast mér núna krakkar!!!
Yfir og út.
fimmtudagur, febrúar 16, 2006
Síðustu metrarnir
Birt af Unnur kl. 12:03
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli