miðvikudagur, mars 30, 2005

Tilvistarkreppa

Ég er á undarlegum stað í lífinu núna. Fullorðin í orði en ekki á borði. Eins yndislegt og það nú er að búa hjá mömmu sinni og fá klapp á bakið þegar maður þarf, þvottinn sinn hreinan á borðið sitt og geta rænt ísskápinn þegar fer að líða að mánaðamótum þá fylgir þessu eitt vandamál. Ég á fullorðins mikið af drasli en barns mikið af plássi fyrir það. Alveg sama hvað ég reyni að skipuleggja, híbýli mín rúma bara alls ekki búslóðina mína, svo það endar alltaf þannig að það er allt útum allt, erfitt að ganga frá nokkrum sköpuðum hlut ef það er enginn staður fyrir það til að byrja með. Er alveg að missa stjórn á mér, því þegar það er drasl hjá manni líður manni bara alls ekki vel en hvað á maður að gera, henda bara öllum bókunum og fötunum? En ég vil það ekki!!! Hver rúmcentimetri er þaulnýttur, kassar á hjólum undir rúmi, kassar undir skrifborði, hillur á veggjum og undir stiga, skápur, tunna, og samt á ég fullt af drasli sem á engan samastað í veröldinni. Er ekki hægt að zippa drasl eins og tölvufæla?
Þar með lauk nöldri eitt. Hefst nú nöldur tvö.
Þar sem komið er í ljós að ég verð heima í sumar og næsta vetur líklega líka þarf ég að fara að huga að bílakaupum hið snarasta. Mér var sagt áðan hreint út að hann Trausti minn væri "ekki á vetur setjandi". Mér finnst kósí og rómó að hann drepi á sér þegar ég bremsa en það finnst skoðanamanninum víst ekki. Bíll er einn af þeim hlutum sem ég get ekki hugsað mér að vera án en finnst sorglegt að þurfa að eyða peningum í. Þar verður málið snúið.
Ég bið semsagt ekki um mikið. Hús og bíl. Anyone?

mánudagur, mars 28, 2005

Plan A

Blogg. Einmitt. Hæ.
Fyrst það er komið í ljós að ég verð ekki fjölmenningarleg og framandi í sumar heldur Frónbúi og starfsmaður í hofi hins heilaga svita þá er hér með gefin út stefnuyfirlýsing fyrir komandi mánuði. Komandi mánuðir eru skilgreindir sem tíminn eftir próf og fyrir 22ja ára afmælið mitt. "Útivistarhetja með tásublöðrur, litríka höfuðklúta og smart belti með litlum vatnsflöskum í" er þema komandi árstíðar og þið kæru vinir eruð hérmeð öll dæmd samsek. Er strax farin að finna ofvirknina læsast um líkamann. Trééééééééééé!
Írski vitleysingurinn er líka búinn að boða líklega komu sína í ágúst og í þetta skipti ætlar hann að taka nokkra litla vini sína með. Ég ætla að eyða tímanum þangað til í að kveðja hárið mitt sem hefur reynst mér vel í gegnum árin en mun ekki lifa af allar heimsóknirnar í Bláa lónið.
Oh. Andlaus dagur. Sund!

mánudagur, mars 21, 2005

Pressa!...

Þetta er að verða alltof mikið álag. Ég horfði á Strákana í síðustu viku og þá voru þeir að vappa um í görðunum hjá fólki og gægjast inn, athuga hvort það væri stillt á Strákana. Svo nú þarf maður að fara að hafa sig til áður en maður sest fyrir framan skjáinn, taka til í kytrunni, passa að bora ekki í nefið eða klóra sér á óviðeigandi stöðum ef ske kynni að það væri verið að taka mann upp! Argasti dónaskapur. Fyrir utan að skipulega óreiðan í herberginu mínu er (vegna umrædds álags auðvitað, svona almennt þessa dagana) að verða fulllítið skipulögð og þess meiri óreiða svo ég er dauðhrædd um að vakna einhvern morguninn við það að Heiðar snyrtir og Margrét verðandi tengdó (eeelska Sigfús) pota í mig og það rymji í Hjálmari Hjálmarssyni úr loftinu eins og rödd Guðs eitthvað smellið um hagi mína og herbergjaskipan. Svo til öryggis þarf maður nú að fara tilhafður í háttinn líka. Pressa...

laugardagur, mars 12, 2005

Pilobolus

Þar sem yndið hún móðir mín á afmæli 13. mars ákvað hún að skella sér með gæludýrið (manninn) á Pilobolus, enda menningarviti hinn mesti. Ég bjóst við að vera heima að gæta bús og barna eins og venjan er þá sjaldan sem hún yfirgefur móðurskipið eftir að veðurfréttum stöðvar tvö lýkur á kvöldin. En þar sem þetta er nú danssýning og ég mesta áhugamanneskja um svoleiðis lagað í póstnúmerinu þá keypti hún í góðmennsku sinni líka miða handa mér. Ég er dekurbarn! Örverpið var sent í útlegð í næsta hús (sama póstnúmer) og flikkað uppá mig eins og þurfti til að fara með mig á almannafæri. Í látunum varð ég meira að segja að losa mig við vetrarfeldinn og er með skurð á fætinum þess til sönnunar, vona bara að það komi ekkert alvöru páskahret því ég næ aldrei að safna aftur í tæka tíð... Brr... En feldurinn fór fyrir góðan málstað, sýningin var alveg mögnuð, ég er ennþá í skýjunum yfir þessu öllu saman! Vei! Dansararnir eru í svakalegasta formi sem ég hef séð held ég og hreyfingar þeirra á sviðinu nánast ómannlegar. Á tímabili voru þau þyngdarlaus. Lofa. Mér er hulin ráðgáta hvernig þetta var framkvæmt yfirleitt, skil ekki hvernig nokkur manneskja getur æft nógu mikið til að verða svona góð, það eru bara ekki nógu margar klukkustundir í sólarhringnum. Vona að ég skilji þetta aldrei, þetta er kvöld sem á eftir að lifa með mér lengi. Ég er alltof hrifnæm :) Takk fyrir mig mamma mín, og til hamingju með daginn! :*

miðvikudagur, mars 09, 2005

Post-kvíðakast

Þá er lokið kvíðakastinu sem fylgdi því að kenna fyrsta pallatímann minn. Syrgi það ekkert sérstaklega, lái mér hver sem vill. Hefst nú kvíðakastið sem fylgir því að kenna annan pallatímann minn! Ah, ég er svo mikill stresspési að það er ekki sniðugt, maður skyldi ætla að ég væri með blómlegt magasár og blóðþrýsting á við Bandaríkjamann en nei, ég er greinilega bara gerð til að vera svona stressuð, er með svo lágan blóðþrýsting að konurnar í blóðbankanum sendu mig einu sinni heim með skottið á milli lappanna til að borða lakkrís. Unnur í sínu náttúrulegasta ástandi. Annars gekk tíminn bara alveg sæmilega, margt sem þarf að vinna meira í en ég datt allavega ekki um pallinn minn og allir fóru sveittir út, svo ég er sátt í bili. Ég reyndi að vera pínu hippogkúl og sniðug en það endaði bara á því að ég þurfti að athuga hvort mækinn minn væri orðinn batteríislaus því það stökk engum bros. Mækinn var í lagi. Sannast þar með enn og aftur að ég er ekki hippogkúl. Ég er svona eins og úlfurinn í teiknimyndinni um bláa óþolandi hrokafuglinn sem hleypur ofsa hratt, alveg sama hversu oft ég dett fram af klettinum og verð undir steðjanum, ég mun aldrei læra af reynslunni. Mun í einhverju stundarbrjálæði pottþétt reyna að vera hippogkúl í öllum tímunum mínum, bölvað endorfín sem lætur mann gleyma öllu slæmu jafnóðum...

sunnudagur, mars 06, 2005

Eitt agnarlítið hús...

Hata hnyttnar, einlægar, rómantískar gamanmyndir. Fór með stelpunum á Hitch áðan og nú er ég öll mjúk og malandi að innan, kann ekki við það... Langar skyndilega bara í krúttlegan kærasta til að kúra mig og knúsa og klappa mér á kollinn þegar ég er æðislega mikill lúði. Þetta er algjört stórslys! Ef þú flettir upp "einhleyp" í orðabók finnurðu þar mynd af mér! Ég á ekki að vera að hugsa svona. Annars held ég að ég verði að fara að draga eitthvað karlkyns með mér heim, bara til að gleðja mömmu mína, sem er alvarlega búin að lækka standardinn fyrir tengdasyni eftir að vonarglætan fór að fara minnkandi hjá henni. Ástandið er orðið svo slæmt að um daginn langaði hana að koma mér saman við dúdda sem vinnur með henni og rökin fyrir því: Hann gengur um skrifstofuna á sokkunum og henni finnst það sætt. Mér finnst hún farin að vanmeta kvenkosti mína alvarlega!!!

laugardagur, mars 05, 2005

Fituskert og forhert

Jeminn hvað ég er fær í að koma inn sammara hjá fólki, vældi og skældi hérna í gær og kommentakerfið tapaði sér. Jæja, þið hafið þá allavega samvisku börnin góð ;) Annars ríkir gleðin hér í dag, fór í mælingu til Fríðu Rúnar í gær og útkoman: Unnsa massi! Úggabúgga! Hef ekkert lést en er með töluvert lægri fituprósentu og stærri upphandleggi sem þýðir einfaldlega þetta, massatröll dauðans, tada! Enda ekkert skrýtið, maður er að æfa með svo biluðu liði að það væri kraftaverk ef ekkert væri að gerast. Annars hafa æfingar þessa vikuna ekki farið eftir áætlun, ég er opinberlega búin að flytja lögheimilið mitt uppá pall og hef ekki snert lóð í viku.
Frekar fátækleg helgi samt, var svo útkeyrð í gær að ég fór beint heim að lúlla eftir að ég lokaði Laugum, og í kvöld er ég að fara að passa prinsessurnar hennar Ellu og gisti þar, svo sukk og svínarí verður í algjöru lágmarki. En hefur maður ekki bara gott af að hvíla sig, held ég sé búin að sofa að meðaltali 4 tíma á nóttu síðustu vikur. Áhrif þessarrar langþreytu sjást best á því að ég hef uppá síðkastið sést ráfa um langtímum saman fyrir utan Laugar, tóm í augunum að leita að bílnum mínum...

föstudagur, mars 04, 2005

Drekinn

Ég vil þakka vinum og vandamönnum fyrir að sýna lífi mínu einstakan áhuga og pósta ekki eitt einasta "gangi þér vel dúllurass og mússímússí" við síðustu færslu. Þar opinberaði ég það að ég ætlaði að hætta lífi, limum og orðspori með pallahoppi (pallurinn er a.m.k. 30 cm hár og allar líkur á að ég detti framaf oftar en einu sinni, hafið það í huga!) en ykkur er greinilega bara sama þótt ég verði lamin með body bar af frústreruðum húsmæðrum. Þakka pent. Þið eruð rekin. Þegar hafa nýir vinir og vandamenn verið ráðnir í ykkar stað. Ég vil þakka öllu fólkinu sem var statt á Hlemmi um kvöldmatarleytið í gær fyrir sýndan áhuga. Farin að skæla í koddann. Sniff.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Spandex og svitabönd

Ég er semsagt að fara að kenna pallatíma í Spönginni í næstu viku. Sem hljómar ansi hreint skemmtilega, held ég geti staðið mig alveg ágætlega í því um leið og ég er búin að ná því hvernig á að telja taktinn, leiðbeina liðinu og gera sporin, allt á sama tíma og án þess að detta um pallinn. Þetta er í vinnslu, enda eins gott, ekki margir dagar til stefnu. Er samt ekkert langt frá því sem ég hef verið að gera svo ég hef svosem ekkert stórkostlegar áhyggjur af þessu, veit alveg að ég massa þetta :p
Annars er ég búin að búa á Hlöðunni síðustu daga að skrifa ritgerð fyrir Hannes félaga minn Hólmstein og það gengur ekki neitt þessa stundina, er alveg strand. Ekki það að ritgerðarefnið sé einu sinni neitt það krefjandi, ég bara einhvernveginn get ekki skipulagt það í hausnum á mér til að koma því á blað. Kannski vegna þess að ég er næstum ekkert búin að sofa síðustu nætur, vakna bara alltaf á tíu mínútna fresti. Þarf að fara að æfa mig að vera hrísla í vindinum áður en ég fer að sofa, það virkar víst...