mánudagur, maí 31, 2004

Sá í dag fjórðu nöktu manneskjuna í vinnunni minni á einni viku. Hvernig gerist þetta eiginlega? (Þarna er ég auðvitað ekki að telja með konurnar í kvennaklefanum...). Hrikalegt að fólk skuli ekki geta haldið sig í spjörunum nálægt mér, spurning um að hafa smá sjálfstjórn :p
Annars er ég frekar ánægð með að fólk skuli vera svona ófeimið, skil aldrei hvað er svona mikið tabú við að vera ber. Hvað sem það er tekst manni hvort eð er ekki að klæða það af sér eins vel og maður heldur. Áfram strípalingar!!! (Gamli Þjóðverjinn á bibbanum var samt næstum of mikið fyrir mig, meira að segja ég er ekki svo líbó.)
Ég fór að sjá the Day after Tomorrow í gær, skondin tilraun til að gera veðurfræðinga töff. Mistókst. Mér finnst nóg rok hér, þarf ekki að fara í bíó til að sjá hvernig það virkar, fannst ég samt verða að fara fyrst einhver aumingjans maður hafði fyrir því að teikna upp Hallgrímskirkju hálfgrafna í slabbi.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Ég er að fara í svaka skvísupartý á laugardaginn hjá Hrefnu minni, hún ætlar að halda ungfrú Ísland partý með bleiku þema. Við ætlum allar að æfa okkur að brosa gegnum tárin og glósa fyrir þátttöku okkar á næsta ári. Mjög nauðsynlegt.
Annars hef ég nú ekki miklu að deila með þjóðinni, ég er bara á fullu að þjálfa Lilju og það gengur alveg glimrandi, er svo að skrifa skýrslu um það og læra fyrir prófið sem ég tek 12. júní. Svo þarf ég bara að sækja um aðstöðu til að þjálfa í Klassanum og krossa putta. Ef ég fæ hana er ég vel sett, get þá allavega æft mig og fest það í hausnum sem ég var að læra. Maður verður finnst mér nefnilega að æfa sig strax, annars er þetta farið um leið... Svo allir sem hafa putta á lausu til að krossa þá með mér mega það gjarnan.

mánudagur, maí 24, 2004

Ég var í sakleysi mínu í vinnunni í gær að spjalla um nýliðna árshátíð við samstarfsmann minn þegar hann, seinna studdur af einu stykki þjálfara, skyndilega ákvað að eyðileggja litlu veröldina sem ég er búin að vinna hörðum höndum við að byggja upp. (Sjálfsblekking er æði, það er mitt mottó). Hann var semsagt að yfirheyra mig eitthvað um karlamál mín þetta umrædda kvöld og ég sagði að það hefði nú ekki verið mikil gróska í þeim málum þar sem ég sé nýbúin að komast að því að ég nenni ekki strákum sem drekki mikið og því sé ekki skynsamlegt fyrir mig að vera mikið með radarinn á lofti í bænum um nætur. Hann horfði á mig, ranghvolfdi augunum og sagðist sko eiga vinkonu sem væri nákvæmlega ,,sama týpa" og ég, með eins rödd og allt. Þjálfarinn var ekki lengi að samsinna þessu, hann á víst líka vinkonu sem er ,,alveg eins" og ég! Ég sem hélt að ég væri einstök í yndisleik mínum... Frekar mikil vonbrigði að komast að því að ég er ein af fjölmörgum teprum og snobburum sem, undarlegt nokk, virðumst allar tala með sömu rödd. Ó mæ...

laugardagur, maí 22, 2004

Ég held ég sé búin að ákveða að taka mér ársfrí frá verkfræðinni. Þetta orðalag lýsti mér reyndar ágætlega, ég held ég sé búin að ákveða... Get ekki fyrir mitt litla líf tekið ákvarðanir og þar sem mamma er búin að bíta í sig einhverja vitleysu um að ég eigi að lifa sjálfstæðu lífi og taka eigin ákvarðanir (fuss) held ég að úllen dúllen doff fari að verða viðurkennd leið til að taka stórar ákvarðanir í tilveru minni. Mjög efnilegt. Þetta er alltof mikið álag...
Langar semsagt núna að vinna fram að áramótum ca og stinga svo jafnvel af úr landi, fara í dansskóla helst, eða læra eitthvað mál, bara gera eitthvað! Sendi fullt af ímeilum í fullt af skólum áðan að biðja um upplýsingar. Ég nenni nefnilega ekki að lesa þúsund vefsíður og stagla mig í gegnum lýsingar um námskeið á hinum og þessum tungumálum svo ég bjó bara til eitt bréf sem ég sendi á öll vefföng sem ég fann tengd dansi og dansskólum. Ætla bara að láta forlögin ráða þessu og vona að sá skóli sem mér er ætlað að fara í svari mér bara og segi mér að mæta. Það er, geri það sem mamma neitar að gera og taki ákvörðunina fyrir mig. Bjartsýnin ríkir í Unnarborg as per usual.

föstudagur, maí 14, 2004

Nú er bara árshátíð í Klassanum annað kvöld, svaka stuð, afgreiðslan full af megrunarbjór (hvern hefði grunað það...) og allir í góðum gír. Góð mæting, líklega um 150 manns, verður grill og júróvissjón gerð góð skil. Ég ætla auðvitað að vera fyrirhyggjusöm og koma mér í gott form fyrir árshátíð, ætla að vakna 6 í fyrramálið til að taka æfingu fyrir skyndihjálparnámskeiðið, þá verð ég örugglega orðin mjó og sæt fyrir kvöldið sko. Sem er mjög gott. Lilja er svo búin að samþykkja að reyna að mála á mig andlit í tilefni dagsins. Sem er líka gott.
Annars er ég niðri í baðstofu núna, það er ekkert búið að vera að gera svo ég og Bylgja erum búnar að vera að tapa okkur, hvor í sínu horni, bein símalína milli afgreiðslu og baðstofu, agalega patent, við erum semsagt ekki búnar að vera mjög afkastamiklir starfskraftar... Nema kannski áðan, þá tókst mér að fá það í gegn að láta prenta alla árshátíðarmiðana okkar aftur því það var málfræðivilla á þeim. Ég er smámunasamasta dýr í heimi, það er nokkuð ljóst.
Eftir árshátíðina verður haldið á Nasa, vona að sem flestir verði í bænum því nú á að gera þetta almennilega og dansa af sér allan megrunabjórinn!!!

miðvikudagur, maí 12, 2004

Ég hlýt að vera versti línuskautari í heiminum ef tekið er hlutfall tíma sem línuskautar eru í eigu manns miðað við getu á þeim. Ég er búin að eiga mína í átta ár. Ég get ekki verið svo langt frá grasinu að ég geti ekki hent mér á það í neyðartilfellum og ég faðma ennþá ca. þriðja hvern ljósastaur. See my point? Held að ástæðan fyrir þessu sé sú sama og fyrir því hvað ég er alltaf léleg á skíðum og ísskautum. Ég er svo svakaleg skræfa... Fer alltaf jafn hægt, með rassinn eins langt út í loftið og ég kem honum, baðandi út öllum öngum með skelfingarsvip (sjáið þetta fyrir ykkur? Jabb, einmitt, nú vitið þið af hverju ég stunda þetta áhugamál mitt ein og eftir miðnætti). Ég er ekkert voðalega þokkafullur skautari, en ég fann samt í gær eina íþrótt sem ég lít skelfilegar út þegar ég stunda; ólympískar lyftingar! Ójá, ég lærði svoleiðis í gær, á háannatíma í Laugum, mér fannst ég reyndar svolítið hipp og kúl svo lengi sem ég horfði ekki á lóðin sem ég var með á stönginni. Strákarnir hlóðu öllu sem hönd á festi á sínar stangir en á mína setti ég lóð sem gætu svona eftir á að hyggja líka hafa verið seríos hringir... En hvað um það, ég gerði mitt besta og þar sem það var skelfilega lélegt sé ég fram á að þurfa að æfa þetta alveg helling. Verð að finna leið til að komast ein inn í Laugar eftir miðnætti, gæti þá reynt að sameina þessi leynilegu áhugamál mín. Eða er kannski varasamt að stunda línuskautun á hlaupabretti?

laugardagur, maí 08, 2004

Jæja, þá er það að verða nokkuð ljóst að ég er ekki að fara að gera neitt stórkostlega hluti í þessu prófi á morgun... Þetta hlýtur að vera samhengislausasta og verst skipulagða námsefni sem ég hef nokkurn tímann komist í kynni við, arkitektar eru ekki uppáhalds stéttin mín í dag. (Vá hvað mér finnst ég orðin stór þegar ég er búin að mynda mér skoðun á arkitektum sem starfsstétt, magnað yfir hverju maður getur nöldrað þegar maður er skriðinn yfir tvítugt.) Þetta þýðir nú samt að á morgun verð ég búin í háskólanum þessa önnina, vei! Og ætla líklega bara að skella mér útá lífið í tilefni þess, langt síðan ég hef dansað lítinn dans og hneykslast á drykkjumenningu landans og því að strákar sem eiga ekkert í mig drekki í sig kjark og leggi til atlögu, tímasóun beggja aðila þar sem ég er auðvitað yfir þetta pakk hafin. Vá hvað það er gaman að vera viðbjóðslega hrokafullur asni, ný stefna: Pollýönnu attitudið er hérmeð grafið og Kári Stef grafinn upp úr sálafylgsnum mínum. Tada, ég kynni: Unnur Stef! (Vantar samt handfrjálsa búnaðinn, hlýt að geta föndrað hann úr gamla vasadiskóinu mínu og smá vír úr bílskúrnum, ekkert sem segir að hann þurfi að virka...)

sunnudagur, maí 02, 2004

Mikið finnst mér alltaf leiðinlegt að heyra fullorðið fólk segja kjánalega hluti. Ég var í fjölskylduboði í gær, sit og gúffa í mig osta og vínber og á mér einskis ills von þegar konurnar á staðnum fara að tala um kvenkyns yfirmenn, hvað þeir séu nú vonlaus dýrategund og ekki hægt að vinna með þessu pakki. Það sé auðvitað bara ein ástæða fyrir að þær fá yfirmannastöður til að byrja með og það sé að þær fari í stutt pils og dilli stélinu framan í gömlu karlana sem ráða, tali ekki svo við þá nema þær séu alveg með andlitið ofaní þeim og helst sitjandi í fanginu á þeim.
WHAT??? Ertu ekki að grínast? Það er ekkert skrýtið að konur eigi ennþá svolítið í land að fá algert jafnrétti á vinnumarkaði þegar hinar konurnar eru allar að tapa sér úr óöryggi og afbrýðisemi og geta ekki fyrir sitt litla líf hugsað sér að viðurkenna að einhver af þeirra kynslóð hafi ákveðið að eignast ekki sjö börn heldur einbeita sér að menntun og starfsframa og eigi það kannski bara skilið að vera yfirmaður. Sem ég er alls ekki að segja að sé eitthvað göfugra en hitt, en það er eins og það ógni kynsystrum þeirra svona líka svakalega. Ég gat nú ekki á mér setið og lét út úr mér eitthvað þess efnis að það væri nú möguleiki að þær hefðu unnið fyrir stöðu sinni í samfélaginu. Mistök. Miiistök. Þær horfðu á mig í smástund, það kom vandræðaleg þögn, og svo héldu þær áfram eins og ekkert hefði í skorist og reyndu að láta eins og ég hefði aldrei gert hlé á ostaátinu. Sem ég gerði heldur ekki það sem eftir lifði kvölds.