mánudagur, maí 24, 2004

Ég var í sakleysi mínu í vinnunni í gær að spjalla um nýliðna árshátíð við samstarfsmann minn þegar hann, seinna studdur af einu stykki þjálfara, skyndilega ákvað að eyðileggja litlu veröldina sem ég er búin að vinna hörðum höndum við að byggja upp. (Sjálfsblekking er æði, það er mitt mottó). Hann var semsagt að yfirheyra mig eitthvað um karlamál mín þetta umrædda kvöld og ég sagði að það hefði nú ekki verið mikil gróska í þeim málum þar sem ég sé nýbúin að komast að því að ég nenni ekki strákum sem drekki mikið og því sé ekki skynsamlegt fyrir mig að vera mikið með radarinn á lofti í bænum um nætur. Hann horfði á mig, ranghvolfdi augunum og sagðist sko eiga vinkonu sem væri nákvæmlega ,,sama týpa" og ég, með eins rödd og allt. Þjálfarinn var ekki lengi að samsinna þessu, hann á víst líka vinkonu sem er ,,alveg eins" og ég! Ég sem hélt að ég væri einstök í yndisleik mínum... Frekar mikil vonbrigði að komast að því að ég er ein af fjölmörgum teprum og snobburum sem, undarlegt nokk, virðumst allar tala með sömu rödd. Ó mæ...

Engin ummæli: