Mikið finnst mér alltaf leiðinlegt að heyra fullorðið fólk segja kjánalega hluti. Ég var í fjölskylduboði í gær, sit og gúffa í mig osta og vínber og á mér einskis ills von þegar konurnar á staðnum fara að tala um kvenkyns yfirmenn, hvað þeir séu nú vonlaus dýrategund og ekki hægt að vinna með þessu pakki. Það sé auðvitað bara ein ástæða fyrir að þær fá yfirmannastöður til að byrja með og það sé að þær fari í stutt pils og dilli stélinu framan í gömlu karlana sem ráða, tali ekki svo við þá nema þær séu alveg með andlitið ofaní þeim og helst sitjandi í fanginu á þeim.
WHAT??? Ertu ekki að grínast? Það er ekkert skrýtið að konur eigi ennþá svolítið í land að fá algert jafnrétti á vinnumarkaði þegar hinar konurnar eru allar að tapa sér úr óöryggi og afbrýðisemi og geta ekki fyrir sitt litla líf hugsað sér að viðurkenna að einhver af þeirra kynslóð hafi ákveðið að eignast ekki sjö börn heldur einbeita sér að menntun og starfsframa og eigi það kannski bara skilið að vera yfirmaður. Sem ég er alls ekki að segja að sé eitthvað göfugra en hitt, en það er eins og það ógni kynsystrum þeirra svona líka svakalega. Ég gat nú ekki á mér setið og lét út úr mér eitthvað þess efnis að það væri nú möguleiki að þær hefðu unnið fyrir stöðu sinni í samfélaginu. Mistök. Miiistök. Þær horfðu á mig í smástund, það kom vandræðaleg þögn, og svo héldu þær áfram eins og ekkert hefði í skorist og reyndu að láta eins og ég hefði aldrei gert hlé á ostaátinu. Sem ég gerði heldur ekki það sem eftir lifði kvölds.
sunnudagur, maí 02, 2004
Birt af Unnur kl. 11:15
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli