Ég hlýt að vera versti línuskautari í heiminum ef tekið er hlutfall tíma sem línuskautar eru í eigu manns miðað við getu á þeim. Ég er búin að eiga mína í átta ár. Ég get ekki verið svo langt frá grasinu að ég geti ekki hent mér á það í neyðartilfellum og ég faðma ennþá ca. þriðja hvern ljósastaur. See my point? Held að ástæðan fyrir þessu sé sú sama og fyrir því hvað ég er alltaf léleg á skíðum og ísskautum. Ég er svo svakaleg skræfa... Fer alltaf jafn hægt, með rassinn eins langt út í loftið og ég kem honum, baðandi út öllum öngum með skelfingarsvip (sjáið þetta fyrir ykkur? Jabb, einmitt, nú vitið þið af hverju ég stunda þetta áhugamál mitt ein og eftir miðnætti). Ég er ekkert voðalega þokkafullur skautari, en ég fann samt í gær eina íþrótt sem ég lít skelfilegar út þegar ég stunda; ólympískar lyftingar! Ójá, ég lærði svoleiðis í gær, á háannatíma í Laugum, mér fannst ég reyndar svolítið hipp og kúl svo lengi sem ég horfði ekki á lóðin sem ég var með á stönginni. Strákarnir hlóðu öllu sem hönd á festi á sínar stangir en á mína setti ég lóð sem gætu svona eftir á að hyggja líka hafa verið seríos hringir... En hvað um það, ég gerði mitt besta og þar sem það var skelfilega lélegt sé ég fram á að þurfa að æfa þetta alveg helling. Verð að finna leið til að komast ein inn í Laugar eftir miðnætti, gæti þá reynt að sameina þessi leynilegu áhugamál mín. Eða er kannski varasamt að stunda línuskautun á hlaupabretti?
miðvikudagur, maí 12, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli