mánudagur, mars 31, 2003

Nú hefur flensan loksins komið klónum í fjölskylduna, sá minnsti féll fyrstur hefðinni samkvæmt og lýsir sjúkdómurinn sér eins og slæmt kvef nema þessarri pest fylgir að auki óstjórnleg þörf fyrir áður óséðar teiknimyndir og alger missir hæfninnar til að borða nokkuð annað en hlaupbangsa. Þar sem ég hef takmarkaða trú að ágæti hlaupbangsa sem heilafóðurs fyrir stúdentspróf og efast um að þar komi spurningar um hvers konar pöddur Púmba kýs fram yfir aðrar er ég nú fangi í eigin herbergi, litli sýkillinn hefur ekki enn komist hér inn með bakteríurnar sínar og ég lifi í voninni um að gleymast bara hér og finnast ekki fyrr en faraldurinn er genginn yfir (ef ég get þá opnað hurðina fyrir mosagróðri...). Að vísu eru nokkrir hnökrar á þessari áætlun. A) Salernisaðstaðan er í sýkta hlutanum (að vísu er fullkomlega brúklegt gat í bílskúrsgólfið en ég hef áreiðanlegar heimildir um að sýkti aðilinn viti það líka og hafi töluvert meira gaman af en eðlilegt skyldi teljast). B) Sólhatturinn er líka í sýkta hlutanum og er hann nauðsynlegur útbúnaður í baráttunni gegn vibbanum. Maturinn er á sama svæði en ég hef takmarkaðan áhuga á honum eftir að hafa séð pestargemlinginn áðan... Og síðast en ekki síst C) Sálsjúki kötturinn er ýmist á sýkta eða ósýkta hlutanum eftir geðþótta, berandi sjúkdóma þvers og kruss og virðir að vettugi allar mínar aðvaranir um að tekið verði til aðgerða til að stöðva þessa umferð verði ekki bundið enda á vappið af fúsum og frjálsum. Held að einangrun í bílskúrnum sé eina leiðin til að hafa heimil á skæruliðanum (þetta er náttúrulega ekkert annað en sýklahernaður).

miðvikudagur, mars 26, 2003

Nú er það ekki lengur smáborgaralegi, "tvíþumlaísparnaðarskyni", íslenski belgvettlingurinn sem talar heldur hinn hámenningarlegi, fágaði le moufle! Hann fékk nafngiftina þegar hann talaði tungum svo ljóðrænt um helgina að viðstaddir fundu sig knúna til að splæsa á hann ferð til Frakklands í sumar. Ekki kvarta ég. Hentar ágætlega einmitt núna að gerast Frakki, ganga í lið með þeim sem þora að standa upp og mótmæla allri vitleysunni. Frakkar kunna líka að mótmæla öllu milli himins og jarðar, listgrein sem íslendingar hafa látið sitja á hakanum en eru í staðinn orðnir fagmenn í þjóðaríþróttum eins og lestarstjórnun á þjóðvegum landsins og óhóflegu nöldri sem fer þó aldrei yfir þau augljósu velsæmismörk að gera eitthvað í málunum. Svo herrar mínir og frúr, ég kynni, LE MOUFLE!

þriðjudagur, mars 18, 2003

Nú ríkir sorg í herbúðum vettlingsins. Fór og gerði magninnkaup á friðarkertum þar sem þau líta út fyrir að verða nauðsynlegur útbúnaður friðarsinnans á næstunni. Skokkaði svo niður að sjó og kveikti í einu þeirra sem vott minn um samhug með þeim sem munu eiga um sárt að binda í kjölfar yfirvofandi hernaðarátaka. Mæli með að aðrir geri slíkt hið sama, að láta loga á friðarkerti við húsið sitt er friðsamleg leið til að láta í ljós andstöðu sína við stríðið sem bláa höndin hefur sjálfkrafa lýst okkur samþykk. Ingibjörg Sólrún vann sér endanlega inn mitt atkvæði í gær með því að mæta með skítugum almúganum á friðarsamkomuna á Lækjartorgi.
En nú hefur undirritaður vettlingur sumsé formlega flaggað í hálfa yfir þessu öllu saman.

mánudagur, mars 17, 2003

Ég held ég hafi verið að hræða líftóruna úr einu stykki Nojara, fékk þá skipun að skrifa honum bréf og gerði í kjölfarið þá hræðilegu uppgötvun að ég er einstaklega fáfróð um Noreg. Lái mér hver sem vill. Í meginatriðum takmarkast viska mín í þeirri deild við þá staðreynd að þeir fundu í nísku sinni upp ostaskerann, svo ég ræddi það í nokkra stund og þakkaði honum kærlega fyrir það fyrir hönd Íslendinga, því ef maður fer að spá í það, hversu mikið flóknara væri líf manns á ostaskerarans?

föstudagur, mars 14, 2003

Fyrir þá sem eru ekki nógu góðir til að vera í innsta hring mafíunnar minnar, og fengu þar af leiðandi ekki tölvupóst frá mér um málið, en eru samt nógu góðir til að fá að lesa þetta, þá hvet ég ykkur til að mæta með kertaljós á Lækjartorg núna á sunnudaginn kl. 19 til að sýna stuðning ykkar við heimsfriðinn og andstöðu við rembing Gogga W. Runna til að sýna pabba sínum að hann sé sko víst duglegur strákur. Það gerir hvort eð er aldrei neinn neitt á sunnudögum, alveg eins gott að eyða kvöldinu þar eins og heima í sófa, veriði bara vel klædd elskurnar því það er svæsin flensa að ganga!
Og er það bara ég eða er fólk alveg hætt að pæla í nokkrum sköpuðum hlut? Hverslags bjánar kaupa slagorðið "Það þarf stríð til að hafa frið". Bull og endemis vitleysa, þetta hljómar skynsamlega kannski, en er það bara alls ekki því: Ef það er stríð er EKKI friður, það er stríð. Eina leiðin til að hafa frið er að fara ekki í stríð, þá er friður... Einfalt. Ekki kannski alltaf framkvæmanlegt en það skal enginn fá mig til að kaupa það að Goggi litli sé að gera okkur einhvern massívan persónulegan greiða með því að fara í herferð gegn öllum sem aðhyllast þá lífseigu tískubylgju að ganga með viskustykki á hausnum. Ég á viskustykki og vil ekki þurfa að óttast um líf mitt ef ég einhvern daginn ákveð að það sé það eina sem fari vel við nýju buxurnar mínar.

fimmtudagur, mars 13, 2003

Síðan hvenær eru "nei, því það breytir ekki heiminum" gild rök fyrir að gera hluti ekki??? "Viltu koma í bíó?" "Nei, því það breytir ekki heiminum." Ha? Af hverju missti ég? Var að dreifa bæklingum um styrktarbörn í þróunarlöndunum fyrir ABC í dag og fékk þetta í hausinn. "Ég vil ekki styrkja barn því það breytir ekki heiminum." Minn rass sko, ég er brjáluð! Fyrir utan það að auðvitað breytir það heiminum að taka þátt í þessu, það breytir honum fyrir barnið sem þú styrkir, þá má fólk auðvitað ráða því hvort það kýs að gera þetta eða ekki, án þess að vera neitt verri manneskjur fyrir vikið. En þessi ömurlega réttlæting var bara einum of... Fólki er fullkomlega frjálst að búa í eigin boru alla ævi svo lengi sem það gerir það án þess að blekkja sjálft sig og aðra, en að reyna að réttlæta gjörðir sínar svona, foj...

sunnudagur, mars 09, 2003

Kynningar af öllu tagi eru skemmtilegar. Gaman að sjá fólkið sem sér um kynningarnar rembast við að vera eins skemmtilegt og geislandi af lífsorku og persónutöfrum og það mögulega getur, en sorglegt að sjá hversu illa sumum tekst upp... Líka alltaf ánægjulegt að komast að því að þrátt fyrir að maður sé að verða alveg hundgamall eru ókeypis pennar ennþá spennandi.
Háskólakynningin var semsagt í dag, og ég verð nú bara að segja að hjúkrunarnemarnir stóðu sig langbest, allavega strákarnir tveir sem náðu í skottið á mér. Þeir vissu svörin við öllum spurningunum sem okkur datt í hug (fyndið hvað setningin "hefurðu einhverjar spurningar?" er áhrifarík í að eyða öllu því sem maður ætlaði að spyrja um úr minninu...) og voru bara ferlega næs og skemmtilegir. Ég pant láta þá sprauta mig næst! Allavega hleypi ég ekki læknum framtíðarinnar nálægt mér með nál í hönd, nema þeir séu með götóttan sokk í hinni... Læknanemarnir voru hörmung, annar var of feiminn til að tjá sig og hinn vissi ekki nokkurn skapaðan hlut, eða var allavega of upptekinn við að vera töff til að geta komið því frá sér. Ég segi nú fyrir mitt leyti að ef svo illa færi að ég til dæmis dytti í tvennt og það þyrfti að tjasla mér saman í snatri væri mér nokk sama hversu töff læknirinn minn væri, og ég vona að hann falli á prófunum blessaður... Niðurstaðan eftir þá kynningu var í meginatriðum sú að maður þyrfti að fara að huga betur að heilsunni, því það fer að verða stórvarasamt að leita sér læknisaðstoðar. Annar leiklistarneminn hræddi mig líka. Það voru læti í honum og þessi týpa sem þarf með hverri setningu að sanna að hann sé sko ekki feiminn fer í mínar fínustu, enda held ég að þetta hljóti að vera manngerðin sem að lokum missir það gersamlega og hefur skothríð í Bónus einhvern föstudaginn... Kynjafræðin fær hiklaust verðlaunin fyrir besta bæklinginn, þar sem velt var upp sumum af þeim spurningum sem er hvað mikilvægast fyrir nútimasamfélag að fara að finna svör við, spurningar eins og "Af hverju þurfa karlmenn áskrift að Sýn fyrir að vaska upp?" og "Fá hommar vinnu í Kópavogi?" Svo buðu þau líka upp á Ópal...
Árangur kynningarinnar var mjög misjafn, að henni lokinni langar mig að læra allt sem er boðið upp á í háskólum landsins og helst tvisvar, á meðan félagsskapurinn minn snarmissti í bili áhugann á öllu sem heitir skóli. Þessi staðreynd held ég að leiði til mikilvægustu niðurstöðu sem þessi kynning gat af sér: Ást mín og áhugi eru til sölu fyrir sælgæti!

mánudagur, mars 03, 2003

Af hverju, af hverju, af hverju er alltaf svona kalt í bíó? Og fyrst það þarf að vera svona kalt, ætti þá ekki að minnsta kosti að vera hægt að fá teppi eða heitt kakó þar? (Hvorugt hægt, ég hef spurt...) Þetta er hneisa, blöðin í málið! Viss um að það er klausa um þetta í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, svona er traðkað á grundvallarmannréttindum manns! Gott ef þetta er ekki bara eitt af boðorðunum...