Fyrir þá sem eru ekki nógu góðir til að vera í innsta hring mafíunnar minnar, og fengu þar af leiðandi ekki tölvupóst frá mér um málið, en eru samt nógu góðir til að fá að lesa þetta, þá hvet ég ykkur til að mæta með kertaljós á Lækjartorg núna á sunnudaginn kl. 19 til að sýna stuðning ykkar við heimsfriðinn og andstöðu við rembing Gogga W. Runna til að sýna pabba sínum að hann sé sko víst duglegur strákur. Það gerir hvort eð er aldrei neinn neitt á sunnudögum, alveg eins gott að eyða kvöldinu þar eins og heima í sófa, veriði bara vel klædd elskurnar því það er svæsin flensa að ganga!
Og er það bara ég eða er fólk alveg hætt að pæla í nokkrum sköpuðum hlut? Hverslags bjánar kaupa slagorðið "Það þarf stríð til að hafa frið". Bull og endemis vitleysa, þetta hljómar skynsamlega kannski, en er það bara alls ekki því: Ef það er stríð er EKKI friður, það er stríð. Eina leiðin til að hafa frið er að fara ekki í stríð, þá er friður... Einfalt. Ekki kannski alltaf framkvæmanlegt en það skal enginn fá mig til að kaupa það að Goggi litli sé að gera okkur einhvern massívan persónulegan greiða með því að fara í herferð gegn öllum sem aðhyllast þá lífseigu tískubylgju að ganga með viskustykki á hausnum. Ég á viskustykki og vil ekki þurfa að óttast um líf mitt ef ég einhvern daginn ákveð að það sé það eina sem fari vel við nýju buxurnar mínar.
föstudagur, mars 14, 2003
Birt af Unnur kl. 10:33
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli