mánudagur, mars 31, 2003

Nú hefur flensan loksins komið klónum í fjölskylduna, sá minnsti féll fyrstur hefðinni samkvæmt og lýsir sjúkdómurinn sér eins og slæmt kvef nema þessarri pest fylgir að auki óstjórnleg þörf fyrir áður óséðar teiknimyndir og alger missir hæfninnar til að borða nokkuð annað en hlaupbangsa. Þar sem ég hef takmarkaða trú að ágæti hlaupbangsa sem heilafóðurs fyrir stúdentspróf og efast um að þar komi spurningar um hvers konar pöddur Púmba kýs fram yfir aðrar er ég nú fangi í eigin herbergi, litli sýkillinn hefur ekki enn komist hér inn með bakteríurnar sínar og ég lifi í voninni um að gleymast bara hér og finnast ekki fyrr en faraldurinn er genginn yfir (ef ég get þá opnað hurðina fyrir mosagróðri...). Að vísu eru nokkrir hnökrar á þessari áætlun. A) Salernisaðstaðan er í sýkta hlutanum (að vísu er fullkomlega brúklegt gat í bílskúrsgólfið en ég hef áreiðanlegar heimildir um að sýkti aðilinn viti það líka og hafi töluvert meira gaman af en eðlilegt skyldi teljast). B) Sólhatturinn er líka í sýkta hlutanum og er hann nauðsynlegur útbúnaður í baráttunni gegn vibbanum. Maturinn er á sama svæði en ég hef takmarkaðan áhuga á honum eftir að hafa séð pestargemlinginn áðan... Og síðast en ekki síst C) Sálsjúki kötturinn er ýmist á sýkta eða ósýkta hlutanum eftir geðþótta, berandi sjúkdóma þvers og kruss og virðir að vettugi allar mínar aðvaranir um að tekið verði til aðgerða til að stöðva þessa umferð verði ekki bundið enda á vappið af fúsum og frjálsum. Held að einangrun í bílskúrnum sé eina leiðin til að hafa heimil á skæruliðanum (þetta er náttúrulega ekkert annað en sýklahernaður).

Engin ummæli: