föstudagur, nóvember 07, 2008

M.I.A.

Ég vil biðja þá sem enn kíkja við á blogginu mínu (hæ mamma!) afsökunar á bloggleysi upp á síðkastið. Það kemur ekki til af því að það hafi ekkert gerst í sumarfríinu sem var frásagnar virði, Bandaríkjaferðin var algjört ævintýri. Það er eiginlega frekar það, að það gerðist svo margt að mér fallast hendur þegar ég sest niður og ætla að skrifa ferðasögu. Eins og er að gerast núna. Hm.
Ég set inn myndir við tækifæri (les. seint og um síðir).

Eins og er er staðan svona:
-Ég var atvinnulaus í tvær vikur eftir að ég kom heim frá útlöndum, svo byrjaði ég að vinna í franska sendiráðinu.
-Ég hélt ég talaði frönsku þegar ég byrjaði í nýju vinnunni en annað kom á daginn. Bonnsjú.
-Kreppan hefur hingað til farið silkihönskum um mig.
-Ég á ný moonboots. Mmm.
-Ég á ananas sem er við það að skemmast. Það hefur aldrei gerst áður.
-Ég varð tuttogfemm um daginn og eldaði súpu handa ættartrénu. Fékk of mikið af fínum gjöfum og þjáist síðan af kreppusamviskubiti.
-Ooog þá er einbeitingin búin. Seinna!

föstudagur, júlí 25, 2008

coming up...

Ég er svo upptekin við að njóta íslenska sumarsins í miðbænum að ég hef ekki tíma til að blogga. Mig grunar að næsta færsla verði ekki fyrr en í september, en þá lofa ég að koma með Bandaríkjamyndir og ferðasögu. Hver veit nema ég nái mynd af fjúkandi runna jafnvel! (Það er búið að lofa mér að ég sjái svoleiðis í Sedona...). Ef ekki þá af fjúkandi róna í Las Vegas bara. Bíðið allavega spennt. Verður djúsí.
Ú, líka, hver var það sem kommentaði hér að neðan með ábendingu um atvinnuauglýsingu? Er forvitin hver er svona hjálpsamur og krúttlegur.

mánudagur, júní 23, 2008

Undir grænu birkitré


Þá getur stúlkan formlega fjarlægt l-ið úr "stjórnmálafræðlingur" því laugardaginn 14. júní var hún formlega útskrifuð úr Háskóla Íslands. Sem er vel. Verra mál er að finna sér eitthvað áhugavert að starfa næsta vetur á þessum harðindatímum. Umsókn mín liggur inni hjá Goldfinger, ég bíð með krossaða putta eftir svari. Will work for monies. Hvar ætli maður fái svona geirvörtudúska? Þeir eru kannski skaffaðir bara.
Annars hef ég í júní borðað kandíflos, legið í heitum potti í Varmahlíð, lesið bók á Austurvelli, flatmagað á teppi fyrir utan Kringluna, étið mér til óbóta og í kjölfarið hafið hollustuviku. Hið besta mál.

fimmtudagur, maí 15, 2008

Um hvítasunnuhelgina...
...fann ég Álftanes. Þar er til siðs að puðra fólk. Ítrekað.
...fór ég á hestbak í fyrsta sinn síðan ég taldi aldur minn með einum tölustaf. Þriggja tíma reiðtúr takk, á hesti sem ég held að hafi fundist ég leiðinleg (enda talaði ég við hann næstum stanslaust alla þrjá tímana til að reyna að telja hann á að hætta að rykkja endalaust í tauminn, því það gerði mig skelkaða). Það er ofsa gaman á hestbaki. Bara muna að fara í íþróttatopp. Og sleppa spinning vikuna áður. Mjög mikilvægt fyrir stélið.
...fór ég í kajaksiglingu á Stokkseyri í roki og hélt ég myndi missa handleggina við að róa í land á móti vindi. Lét samt ekki taka mig í tog eins og flestar stelpurnar, er hetja. Ég var svo gjörsamlega búin í handleggjunum þegar ég kom að bakkanum að ég komst ekki úr kajaknum mínum eins og manneskja heldur varð að ánamaðkast út úr honum án aðstoðar handleggjanna. Það vildi ekki betur til en svo að ég lak hálfpartinn beint út í vatnið. Mjög þokkafullt.
...sólbrann ég á nefinu í göngu í Brekkuskógi þar sem ég skoppaði um í sumarhamingjuvímu og reyndi að stíga ekki á randaflugurnar.
...sólbrann ég á restinni af líkamanum í pottinum eftir gönguna. Er röndótt eins og Bjarnabófi.

miðvikudagur, apríl 30, 2008

Ég á bágt af því að...
...mér er illt í maganum af hungri og það eina sem ég á til og dettur í hug að geri ekki illt verra er rauð miso-súpa. Rauð miso-súpa er á bragðið eins og gubb.
...ég er sybbin en get ekki farið að sofa neitt á næstunni því ég var að uppgötva að ég á eftir að senda 11 tölvupósta í nótt á fólk sem ég verð vinsamlegast að biðja um að svara mér ekki seinna en í gær. Mér finnst ekki gaman að vera dóni.
...ég er búin að vera að hringja í fólk í allan dag til að fá upplýsingar sem mig vantar til að ritgerðin mín verði eitthvað nálægt því að vera tilbúin. Í allan dag svaraði enginn í símann sinn nema einn, sem svaraði til að segjast ætla að gera fullt af hlutum sem hann gerði svo ekki. Garg.
...dauðarefsingaritgerðin mín er að fara með geðheilsuna mína, bæði af því ég hef engan tíma til að skrifa hana og af því að umfjöllunarefnið veldur mér endalausri klígju. Í gær var ég í fyrsta sinn á ferlinum næstum búin að gubba við heimildaöflun.
...mér finnst sjálfsvorkunnar-útgáfan af mér ekki skemmtileg og er að verða ofsalega leið á að hlusta á sjálfa mig mjálma um hvað ég sé stressuð og allt sé erfitt. Samt get ég ekki hætt. Ugh, ég er meira að segja að því núna. Blah.

mánudagur, apríl 28, 2008

Um helgina komst ég að því að:
-Grænir frostpinnar eru jafn góðir í dag og þeir voru fyrir 15 árum.
-Það sem vantar til að gera Garðastrætið kósý eru strumpar. Að lágmarki tveir. (Og helst ekki hégómastrumpur. Hann hefur svo leiðinlegan talanda).
-Mig langar í veggfóður.
-Ég er ekki kjánaleg í öllum gallabuxum.
-Ég var kjánaleg í öllu, alltaf, þegar ég var unglingur. (Érí sjokki.)
-Vinkonur mínar síðan ég var unglingur eru hópur af algjörum gullmolum.
-Ég er ekki enn vaxin upp úr því að missa máttinn í útlimunum þegar mér finnst eitthvað sérlega ógeðslegt. (Þetta gerir alla ritvinnslu á dauðarefsingaritgerðinni þess mun erfiðari. Mun fljótlega fara að vélrita með nefinu.)
-Pulsur eru minna vondar en mig minnti.
-Sumarið er tíminn.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Gah!

11 dagar eftir af þessu ágæta ba-námi ef allt fer samkvæmt áætlun. Ég er orðin svo stressuð að ég titra öll inní mér, og þarf reglulega að setja sjálfa mig í time-out svo ég fari ekki á yfirsnúning og endi eins og allir skeggjuðu og skítugu mennirnir sem mamma segir að hafi lesið yfir sig. Hluti af forvarnarprógramminu er að lesa ekkert nema það sem ég nauðsynlega þarf. Er enn á bömmer eftir að hafa slysast til að lesa leiðbeiningarnar á nan-brauðspakkanum í gær. Meiri óþarfinn. Hita þar til heitt. Vesgú.
Tölvupóstur væri frábær samskiptamáti ef fólk (og ráðuneyti) aksjúallí svaraði póstinum sínum. Ef fólk sem er að gera verkefni fyrir skólann sinn sendir ykkur tölvupóst viljið þið þá prittí plís svara, og svara strax. (Sérstaklega ef viðkomandi nemönd allt að því skrifar "gerðu það elsku elsku elsku viltu svara mér fljótt því ég er um það bil að fara að skæla af stressi"). Saman getum við kannski breytt tölvupóstkarma heimsins.
Fíla: Múslístangir (því manni verður ekki illt í maganum af þeim).
Fíla ekki: Nammi (ég veit það hljómar eins og patent hugmynd þegar maður er að læra og á bágt, en manni verður illt í maganum af því. Sérstaklega ef maður blandar því við kaffi og hoppar svo um allt í stressi. Ekki gera það. Treystið mér bara hérna.)

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Pirri-Prik

AAAaaargh! Sit á Prikinu og er farin að reyta hár mitt og skegg af pirringi.
1. Stráknum á næsta borði liggur svo hátt rómur að ég er farin að dauðvorkenna vinkonu hans sem situr mjög óheppilega með vinstra eyrað staðsett ca. 20 cm frá munninum á honum, sem hann kýs að beita eins og þokulúðri.
2. Mér er orðið ferlega illt í stélinu af þessarri endalausu setu síðustu daga. Það er aldrei gott fyrir geðheilsuna. Hef grun um að ég sé að fá legusár.
3. Hef ekki skrifað orð í ritgerðina mína í dag sem ég hef ekki strokað út jafnharðan aftur. Af hverju er ég hætt að geta skrifað á íslensku???
4. Hausinn á mér er búinn að ákveða mjög ólýðræðislega að það eina sem hann hafi þolinmæði í að hlusta á meðan ég skrifa (til að útiloka hávaðamaskínuna á næsta borði) séu óperur. Þær á ég ekki á itunes-inu mínu og öll forrit sem ég finn sem stríma tónlist af netinu eru ósamvinnuþýð og neita að skilja hvað ég er að biðja þau að gera.
5. Var búin að eyða hálftíma í að skrifa snyrtilegan og pólitískt rétthugsaðan tölvupóst til að biðja um betri heimildir frá ákveðinni stofnun þegar netið datt út og tölvupósturinn með. Þessi háværi er heppinn að innbyrgð reiði er ein af mínum sérgreinum. Annars hefði hann fengið að húrra út um glugga eða tvo.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Meinloka með skinku og osti

Ég er haldin þeirri meinloku að geta aldrei haldið áfram með BA-ritgerðina þar sem ég hætti síðast, heldur þarf ég alltaf að byrja upp á nýtt á hverjum morgni. Þetta gerir verkið frekar seinlegt. Í dag varð þó sá tímamótaviðburður að ég byrjaði þar sem frá var horfið í gær, og finn ekki hjá mér nokkra þörf til að byrja frá byrjun. Ástæðuna tel ég vera að í gær sá ég með öðru auganu (hitt augað var að vaska upp) þátt þar sem fólki var kennt að losa sig við nikótínfíkn, og verandi bullandi meðvirk þá langar mig ekkert í brakandi ferskt autt blað í dag. Né súkkulaði. Né sígarettu reyndar. Sjónvarp er hollt.

föstudagur, apríl 04, 2008

Akureyri

Akureyrarferðin um páskana var ferlega vel heppnuð, enda með eindæmum skemmtilegt kvenfólk sem ferðaðist þar saman. Við Rakel gistum í góðu yfirlæti hjá karli föður mínum og átum þar meira en góðu hófi gegnir, og kúrðum svo saman eins og í Lettlandi í den, allt voða rómó. Ég er sennilega náttúrulaus því ég hef mjög takmarkaða þolinmæði fyrir hálfnöktum olíubornum karlmönnum á palli, en ég þraukaði nú samt alveg gegnum bæði vaxtarræktar- og fitnessmótið og er sennilega betri manneskja fyrir vikið. Öllu auðveldara reyndist að þrauka matinn og ballið eftir mótið. Hið besta mál. Ég stóð mig engan veginn sem hirðljósmyndari, en nokkrar myndir tók ég nú samt. Flestar lélegar, en maður verður stundum bara að vera nægjusamur, það er nú einu sinni skollin á kreppa krakkar mínir:

Kjarnakvendi að hlaða bílinn

Föstudagskvöldið langa á Kaffi Akureyri

Jóhanna á 11 bjór...

Við Rakel að lúra saman
Veit ekki af hverju flassið lýsti mig svona mikið meira upp en Elmu og Jóhönnu... Hóst...

Meðan við Rakel drukkum Baccardi razz úr burnerflösku í stúkunni unnu Elma og Jóhanna fyrir fríðindum helgarinnar. Duglegar stelpur.

Rónarnir í stúkunni

Rakel sprengdi utan af sér buxurnar og varð að rumpa þær saman í snatri. Þá hjálpaði að vera lærð húsmóðir.

Elma og Jóhanna hættar að vinna og komnar í sukkið.

Ég var ekkert sérstaklega vinsæll ljósmyndari...

þriðjudagur, mars 18, 2008

Aldnir hafa orðið

Ég var að gera stórmerkilega uppgötvun rétt í þessu. "Aldnir hafa orðið" er sennilega ekki útlistun á því hverjir hafi náð háum aldri, heldur mögulega hafa aldnir einfaldlega orðið í smástund. Fá að tjá sig. Ég er í sjokki. Þvílíkur endemis langlífur misskilningur.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Hálfuppraknaður vettlingur

Þetta blogg er nú að verða ferlega lélegt. Ó vell. Hér koma nokkrir punktar, rétt til að uppfylla tilkynningaskylduna:
- Ég er hætt í Landakotsskóla og farin að einbeita mér að því að klára skólann. Gat auðvitað ekki "bara" verið í skóla svo ég tók að mér aukavinnu í sokkabúð. Þar hefur einhvern veginn safnast á einn blett í Kringlunni allt indælasta fólkið í þjónustubransanum, svo ég uni glöð við mitt.
- Er loksins aksjúallí byrjuð að skrifa ritgerðina og hætt þessarri stjórnlausu heimildaöflun, í bili allavega. Vatnaskil.
- Gerðist ritari húsfélagsins og er þess miklu nær gröfinni fyrir vikið.
- Mun leggja land undir fót um páskana og halda til höfuðstaðar norðursins til að heimsækja karl föður minn og fylgjast með fitness-keppninni. Ég mun einnig gera mitt allra besta til að lenda ekki í að fara á skíði.
- Er að gera mitt besta til að fókusa bara á að klára skólann og leiða hjá mér þá staðreynd að ég veit ekkert hvað ég ætla að gera þegar honum lýkur, eftir *gasp* litla tvo mánuði. Verð búin í öllum prófum og allt 3. maí, svo gálgafresturinn styttist óðum. Sem betur fer bara í annan endann.

Bloggþolinmæðin er ekki meiri en sem þessu nemur í bili. Ég reyndi. Prik.

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Engrish

Ég hef loks komist til gruggugs botnsins í þessu TOEFL máli, eftir ótal símtöl, tölvupósta og skrifstofuheimsóknir. Meira hvað það er erfitt að toga svör uppúr þessu liði. En þar sem svo margir sem ég þekki virðast vera í sömu stöðu og ég þá fannst mér patent að láta ykkur vita að isoft.is ætlar að halda TOEFL próf á Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð (en eru ekkert sérstaklega dugleg að skipuleggja próf fram í tímann, fullyrða samt að þau verði í boði eitthvað áfram). Þau verða ekki með GRE próf.
Ég verð þá að finna mér aðra afsökun fyrir að fara til London. Einhverjar hugmyndir?

(Takk fyrir allar góðu ábendingarnar í kommentunum síðast allir! Lovlí!)

miðvikudagur, janúar 09, 2008

2008 sófar

Enn og aftur lýsi ég eftir hæfum einstaklingi til að taka fyrir mig ákvarðanir. Viðkomandi þarf ekki að taka allar ákvarðanirnar samt, ég vil sjálf fá að ákveða hvað ég borða og í hverju ég er og svona (þó ég viti að ákveðnir fjölskyldumeðlimir hafi reynt að fá mig svipta sjálfræðinu vegna þess síðarnefnda). Umsækjandi þarf bara að vera tilbúinn að ákveða allt þetta stóra, hvert á ég að fara í master og í hverju, hvenær, hvar á ég að vinna í millitíðinni ef það er einhver millitíð og svo framvegis. Kökusneið. Hver er til?
Mér sýnist ég í öllu falli þurfa að skella mér til London fljótlega til að taka TOEFL próf, ég get ekki séð að það sé í boði að taka þau á Íslandi eins og er. Veit einhver betur?
En í stuttu máli þá voru áramótin fín, þrettándinn líka, og eiginlega bara allir hinir dagarnir sem liðnir eru af þessu ágæta ári. Engin sérstök áramótaheit strengd en margt á teikniborðinu, engin lognmolla frekar en vanalega og það er ágætt.
Planið er ennþá að byrja í samkvæmisdansi í næstu viku en þessir strákar eru svo erfiðir viðureignar að það á enn eftir að koma í ljós hvort það gengur upp. Vona það samt. Er bara að segja ykkur frá þessu því ef gæinn sem er efstur á dansfélagaóskalistanum reynist of upptekinn þessa önnina til að geta dansað við mig (hæ Gunni!) þá mega allir karlkyns sem ég þekki (og lesa örugglega fæstir vettlinginn en ég vona að þetta berist þeim með hugarorkunni *bzzz*) eiga von á því að það verði vælt og skælt í þeim. Farið að hita upp og teygja, just in case.
Mamma var ósátt við að hafa verið skilin útundan í jólamyndabirtingum, svo hér erum við mæðgur að bjóða nýja árið velkomið. Góluðum svo mikið af flugeldaaðdáun að nágrannarnir hafa sennilega haldið að við værum hættar að taka lyfin okkar:Ritgerðaskil á föstudag. Engar einkunnir komnar í hús enn. Þakka bara fyrir að vera ekki að bíða eftir námslánum.

laugardagur, desember 29, 2007

Nokkrar jólamyndir

Á Þorláksmessu var soðin skata, en það kunnu ekki allir af mölinni að meta ilminn:

Jólaborðið okkar var hefðbundið og ljúffengt, eins og alltaf:
Við systkinin vorum sérstaklega fín og sæt á aðfangadagskvöld að okkar eigin mati, en fengum engan til að mynda okkur svo við gerðum það bara sjálf:
Ég gerði mitt besta til að ná mynd af okkur ömmu saman en hún var ekkert sérstaklega samvinnuþýð:

Bróðirinn var eins manns skemmtinefnd:
Gamla góða plastjólatréð stóð sig sæmilega eftir að fæturnir undir það fundust loksins, en hallaði samt alltaf meira og meira með hverjum deginum. Það er ólæknandi, enn sem komið er:

Eigið góð áramót!

fimmtudagur, desember 27, 2007

Bakkafjörður, París Langaness...

Minnisbók Sigurðar Pálssonar er stórhættuleg, og ég ráðlegg öllum sem tök hafa á að halda sig sem lengst frá henni. Það er of seint að bjarga mér, ég er búin að lesa hana og þegar orðin langt leidd af Parísarsýkinni, en bjargið sjálfum ykkur! Nú langar mig ekkert meira en að halda aftur til Frans, í þetta sinn til Parísar, læra meiri frönsku, borða meiri ost og drekka meira rauðvín. Langaði að verða skáld í smástund meðan ég var að lesa hana en það bráði sem betur fer fljótlega af mér.
Verst ég nenni ekki aftur ein, allavega ekki eins og er, svo ég þarf að finna mér partner in crime. Og fá nóg af Íslandi, sem ætlar að gerast frekar hægt í þetta sinn. Kann svo ágætlega við mig í rokinu ennþá. Fannst ég á tímabili vera að rykfalla í hnetunni í Strass, en síðan ég flutti heim hefur nú verið loftað ærlega út. Takk Kári*.

*Kári kuldaboli, svo það komist nú ekki á kreik fleiri samsæriskenningar um ástalíf mitt. Jeminn.

mánudagur, desember 24, 2007

Gleðilega hátíð!

Þá er ég mætt í sveitina og öllum meiriháttar jólaundirbúningi lokið. Kökur hafa verið bakaðar, gólf skúruð, gjöfum pakkað inn, jólakortum dreift, fólk knúsað og vettlingur jólabaðaður. Nú er ekkert að gera í stöðunni nema bíða eftir blessuðum jólunum. Og kannski greiða sér.
Sný aftur til höfuðstaðarins 28. desember.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og hamingjuríks nýárs.
Ást og friður.
Vettlingur út.

fimmtudagur, desember 20, 2007

Jólatölfræði

Próf eftir: 0
Jólagjafir keyptar: 0
Jólakort send: 0
Dagar þar til ég fer í sveitina: 2
Jólatónleikar séðir (heyrðir?): 3
Fólk sem mig langar að hitta og jólaknúsa áður en ég fer í sveitina: 100+
Jólaelgar (elgir?) í stofunni minni: 4
Sérsniðin jólasveinahúfa á Hundmund: 1! (hann er ó svo fínn)

Er samt alltsaman á réttri leið, vinn mikið hraðar eftir að ég pakkaði loksins niður svefnpokanum sem ég er búin að vera að ánamaðkast í heima hjá mér síðustu daga. Stórvarasamt. Nágranninn á hæðinni fyrir neðan heldur sennilega að ég hafi gefið sjálfri mér pogo-prik í snemmbúna jólagjöf eftir allt svefnpokahoppið. Skjús mí.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Skólajól (jólaskól?)

Próflestur kominn á fullt skrið og ég er óþarflega lítið stressuð. Sennilega af því þessi próf eru á tungumáli sem ég skil svona sæmilega, í síðustu prófum hafði ég mestar áhyggjur af því að skilja ekki spurningarnar, ef svo heppilega vildi síðan til að ég vissi svörin við þeim var það bara bónus.
Fór annars í frábæra sundferð í gær, í brjáluðu roki og rigningu. Gott til þess að hreinsa aðeins til í hausnum. Mæli með því.
Á næstu dögum fæ ég, á milli þess sem ég læri fyrir próf, að búa til felt-jólasveina, skera út laufabrauð, kreista trölladeig í jólaleg form og dreifa glimmeri um heiminn. Gaman að vinna í barnaskóla fyrir jólin!

sunnudagur, desember 09, 2007

Brr...

Sófus sjötti er uppáhalds. Er að spá í að fela mig í töskunni hans þegar hann fer heim. Erum búin að blaðra stanslaust síðan hann mætti á svæðið og ég á eftir að sakna hans þegar hann fer, þó það muni nú hugga mig örlítið að endurheimta sængina mína. Hélt ég myndi deyja úr kulda undir aumingjalegu teppi í nótt.
Annars er þetta sniðugasti brúðhjónadans sem ég hef séð, hef þetta í huga ef mér skyldi detta í hug að gifta mig einhvern daginn:

miðvikudagur, desember 05, 2007

Jólaflöff

Foreldraeiningin kíkti í heimsókn áðan til að hengja upp jólaljós í gluggana mína. Þau tóku með sér aðventuljósið með plastblómunum sem er búið að lýsa inn aðventuna síðan ég man eftir mér, og það situr núna í miðjum stofuglugganum mínum. Mömmu finnst það ferlega ljótt og segist vera fegin að losna við það úr húsinu sínu, en mér gæti ekki þótt vænna um það. Fór á kaffihús áðan og þegar ég slökkti loftljósin á leiðinni út var birtan af aðventuljósinu og jólastjörnunni í eldhúsglugganum var svo falleg að ég varð öll flöffí að innan.
Varasöm þessi jól. Gera mann allan meyran.

sunnudagur, desember 02, 2007

Við kveikjum einu kerti á

Í gærkvöldi gerðist svolítið merkilegt. Við Rakel unnum tvo karlmenn í pool. Svo vann ég ein og sjálf einn karlmann í pool. Það er eitthvað skrýtið að gerast með þessa veröld. (Varð að vísu fyrir aðkasti því ég kallaði kjuðann "prik". en mér finnst að þeir sem nota svo umrætt prik aðallega til að skjóta kúlunum útaf borðinu og í höfuð nærliggjandi súkkulaðidrengja ekki eiga að kasta steinum.)
Annars róleg og góð helgi að klárast, búin að eyða töluverðum hluta af henni með familíunni og ekkert nema agalega gott um það að segja. Hef reyndar verið yfirheyrð nokkrum sinnum fyrir ákvörðun mína um að fresta BA skilum en hef mínar ástæður, sem ég nenni ekki að útlista hér en ef einhvern langar að kíkja í kaffi og fá löngu útgáfuna þá er það velkomið. Ennþá velkomnara eftir að ég jólaskreytti pleisið áðan. Meira að segja komin með aðventukrans á réttum degi, sem hlýtur að hafa komið æðri máttarvöldum ferlega á óvart.
PS. Þeim sem eiga erindi í Rúmfatalagerinn fyrir jólin vil ég benda á að veita athygli jólahórunni sem er þar til sölu. Mjög kósý.

föstudagur, nóvember 30, 2007

ch-ch-ch-ch-chaaanges

Mér sýnist BA-ritgerðin vera að taka netta beygju þessa dagana, og nú skil ég loksins aðeins hvað rithöfundar eru að tala um þegar þeir segjast ekki ráða neitt við neitt, verkið hafi sjálfstæðan vilja og geri það sem því sýnist. Ekki að BA-verkefnið sé neitt lifnað við, það er steindautt ennþá en útlitið er þó allavega að batna fyrir það greyið. Var farið að stefna í að verða úrelt áður en það einu sinni væri búið að gefa mér einkunn fyrir það, en með aðstoð góðra manna og kvenna er það allt að koma til, og móðurtilfinning mín gagnvart því er óðum að styrkjast (var komin á fremsta hlunn með að skilja það bara eftir nafnlaust á kirkjutröppum einhversstaðar og stinga af). Það þýðir samt að ég get ekki skilað því fyrr en í vor, en ég get hvort eð er ekki útskrifast fyrr en þá svo það skiptir mig engu þannig lagað. Stoltið reyndar svolítið marið af að standa ekki við deddlænið sitt, en það hefur gott af því að læra smá hógværð hvort eð er.
Þetta leiðir það af sér að ég get mögulega litið uppúr bókunum eftir prófin, notið jólanna í sæmilegu stressleysi og jafnvel borðað söru eða tvær. Hið besta mál.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

He's making a list

Síðustu þrír dagar eru búnir að vera ferlega kjánalegir eitthvað. Ótrúlega erfiðir á milli þess sem þeir voru ótrúlega ljúfir og góðir. Miklar öfgar í gangi á öllum vígstöðvum og það er að gera mig dálítið bil. Vildi að ég hefði tíma til að leggjast undir feld í nokkra daga og hugleiða, en það er ekki í boði fyrir mig eins og er (ekki frekar en nokkurn Íslending í skóla á þessum árstíma), svo þá er bara að skrifa andlegan lista og díla við allt draslið þegar BA hefur verið skilað og jólasteikin verið melt.
Naughty: Vinnustaðamórall í sögulegu lágmarki, BA-verkefnið í tilvistarkreppu, vettlingur ringlaður og pínu tjúll.
Nice: Indælis humarsúpa, ljúfir tónleikar vættir í rauðvíni, rölt í jólaskreyttum miðbæ, kertaljós og skammdegisrómantík.

PS. takið eftir jólasveinahúfunni á íkornanum góða. Gerði hana sjálf. Næstum rauð og allt. Fín.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Menningarsjokk

Ég er ekki að segja að Sófus fimmti sé vitlaus, en þegar ég kom heim áðan var hann í sturtu og í stað þess að kippa baðmottunni úr henni á meðan þá stóð hann á henni í sturtunni og gróf tærnar í blauta Ikeadýrðina meðan hann þvoði sjampóið úr hárinu. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Svo ég gerði bæði.

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Sunnudagur

Ísland má eiga það að sunnudagskvöld hér eru miklu meira kósý en í Strass. Þar vantaði alveg slagveðrið til að setja punktinn yfir i-ið. Þetta rann upp fyrir mér áðan, þegar ég var búin að skúra mig út á svalir (sem ég geri einhverra hluta vegna í hvert einasta sinn sem ég skúra kotið) og tvísteig og beið eftir að gólfið þornaði nóg til að skottast inn í hlýjuna aftur. Svalasýnishornið mitt er í skjóli, og þar sem ég stóð og hlustaði á rigninguna og horfði á trén sveiflast í rokinu var ég voða glöð að vera komin heim frá útlandinu, þrátt fyrir matvælaverðið, rauðvínsleysið og BA-stressið.
Eftir skúringar setti ég svo upp eina jólaskrautið mitt. Keypti það í mæðgnaferð í Smáralind í gær, band með litlum, rauðum rugguhestum. Gleymdi að hugsa fyrir því hvert ég ætti eiginlega að setja það, og endaði á að vefja því utanum pottaplöntuna mína. Þar sem ég stóð og dáðist að skreytingunni áttaði ég mig á því að ég hafði gert akkúrat það sem ég er búin að hlæja að ákveðnum fjölskyldumeðlim fyrir að gera í mörg ár. Jólaskreyta pottaplöntu. Sjaldan fellur eplið og allt það.
Nú stendur til að kveikja á kertum og Cörlu Bruni, draga fram ullarsokkana, hita te og ráðast á heimadæmin. Ljúft!

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Despó týpa

Ég þarf án gríns að fara að hætta að horfa á Dancing with the Stars, fæ svo mikinn fiðring í tærnar að ég get ekki sofið á eftir, og áðan fór ég næstum að gráta yfir vínarvalsinum. Jæks. Tók fram semi-dansskóna aftur eftir alltof langan tíma í síðustu viku og fór í einn salsatíma, uppskar geðveikislegar harðsperrur í iljarnar, og dansþráin mín versnaði um helming. Er að reyna þessa dagana að finna einhvern sem nennir að dansa við mig samkvæmisdansa en það gengur ekkert voðalega vel, margir búnir að bjóða sig fram í hálfkæringi en ég hef á tilfinningunni að enginn ætli að gera alvöru úr því. Var að vona að mér tækist að fá einhvern sem ég þekki eitthvað fyrir til að dansa við mig, þó það myndi þýða að hann væri að dansa í fyrsta sinn, því síðast þegar ég æfði dansaði ég við strák sem var ágætur dansari (töluvert betri en ég allavega) en við áttum engan veginn saman sem persónuleikar og það var algjörlega hræðilegt. Ótrúlega erfitt að dansa rúmbu við einhvern sem manni líkar ekki við, prófið það bara ef þið trúið mér ekki! Þetta á náttúrulega fyrst og fremst að vera skemmtilegt, svo í þetta sinn vil ég dansa við einhvern sem mér aksjúallí líkar við. Held þetta endi á að ég bjóði nokkrum vinum í partý, fylli þá og reyni að fá einhvern þeirra til að skrifa undir dansfélagasamning. Gott plan? Gott plan.

laugardagur, nóvember 17, 2007

Go team?

Mér er of illt í hnjánum til að sofna. Það er nýtt.
Langaði út í kvöld í eins og eitt rauðvínsglas og spjall, en gerði þá skelfilegu uppgötvun að næstum allir vinir mínir eru orðnir helmingur (að minnsta kosti) af pari. Hvenær gerðist þetta eiginlega? Og hvar var ég?? (Frakklandi segiði? Kannast ekki við það...) Það er svo erfitt að draga pöruðu vinina út úr örkinni á föstudagskvöldum að eftir að hafa farið með söluræðuna mína nokkrum sinnum í símann án minnsta árangurs ákvað ég að gefast bara upp, fara í joggarann og gera aðgerðaáætlun um hvernig sé best að finna sér nýja einhleypa vini sem nenna að gera hluti um helgar. Ekki að ég ætli að fara að losa mig neitt við arkarbúana, sem ég kann ennþá mjög vel að meta, en það er greinilegt að það vantar eitthvað uppá að lífstílarnir fari saman eins og er. Og ég kann ómögulega við að drekka ein, held ég hafi lesið of margar bækur eftir Þorgrím Þráins þegar ég var áhrifagjarn unglingur.

föstudagur, nóvember 16, 2007

Alþjóðasamfélag? Are you out there..?

Þrátt fyrir óstjórnlega hræðslu við þetta fyrirbæri sem Moggabloggið er þá ætla ég núna að gerast sek um ansi Moggabloggslega hegðun. Kenni því um að ég er illa sofin.
Á krúsi um vef Morgunblaðsins í morgun rakst ég á þessa frétt, þar sem sagt er frá því að dómur sé fallinn í máli 19 ára stúlku í Sádí-Arabíu sem varð fyrir hópnauðgun. Stúlkan þarf að sitja 6 mánuði í fangelsi og þola 200 svipuhögg fyrir að hafa "brotið lög sem banna samskipti við ókunna karlmenn". Ég er oftast fljót til að þjóta upp og verja trúfrelsi fólks, og blaðra um það að allt verði að skoða með tilliti til ólíkra menningarheima og allt það, en svona lagað fellur bara ekki á neinn hátt undir trúmál eða menningarmun. Þetta er bara hreint og klárt brot á mannréttindum, og það gróft. En ólíkt mörgum málum sem varða réttindi kvenna þá þarf engan að sannfæra í hinum vestræna heimi um að þetta sé fáránlegt, það sjá allir sem lesa fréttina, sem betur fer. Hinsvegar er þetta látið viðgangast ár eftir ár, mál eftir mál, og ekkert gert að því er virðist til að koma þessum konum til hjálpar. Til hvers erum við eiginlega með stofnanir eins og til dæmis Sameinuðu þjóðirnar? Ég veit alveg hvað þetta er flókið mál og erfitt viðureignar, en þegar mikið liggur við eru alltaf fundnar leiðir til að grípa til aðgerða. Verst það er engin olía í húfi hér.
(Ómálefnalegur póstur, en ég er of reið til að hugsa rökrétt. Fer frábærlega saman, ég veit.)

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Fráhvarf

Ég ætla að detta í þá klisju að segja að ég sakni deit-menningarinnar í henni Frakklandi. Meira að segja ég, sem var með rómantíkur-ofnæmi á svo háu stigi þegar ég fór út að ég tók með mér adrenalínsprautu til vonar og vara, hef greinilega ekki komið aftur heim til Íslands farsælda Fróns ósnortin af frönsku rómantíkinni. Eins og ég bölvaði henni samt mikið. Frakkarnir eru búnir að "raise the bar" og ég get ekki sagt að það sé að auðvelda mér lífið á íslenska markaðnum. Helvítis lögfræðingar... Vissi að það myndi koma aftur og bíta mig í rassinn.