laugardagur, ágúst 20, 2005

Menningardýrið

Í tilefni menningarnætur ætla ég að heiðra vinnumenningu landans, betur þekkta sem vinnuhólisma, og vinna 12 klst. Treysti á að mamma manni listagalleríin á Skólavörðustígnum fyrir mína hönd, en það erum við annars vanar að gera saman, töluvert meira fútt í því en að bora í nefið í tómu World Class til tíu í kvöld en einhver verður að heiðra annars vanrækta menningu vinnuhólistanna. Ég fórnaði mér fyrir liðið.
En þegar ég er búin að loka búllunni ætla ég að gera mig ofsa sæta og ganga í skrokk á eins og einu rauðvínsglasi á einhverju gasalega menningarlegu kaffihúsi (les. hvar sem er þar sem er ekki aaalveg troðið af menningarvitum). Ef það líður ekki yfir mig eftir það af þreytu ætla ég að tvista til að gleyma, en bara ef ég finn dansgólf þar sem ég get fengið að minnsta kosti átta fercentimetra fyrir mig og hallærismúvin mín. Ekkert grín að vera lítill á of troðnu sveittu dansgólfi, nefið á mér er nefnilega þar sem handakrikarnir á öllum hinum eru. Bjakk... :p

mánudagur, ágúst 15, 2005

Who knew?!

Hélt ég væri ekki hrædd við flugur, bara köngulær. Annað kom nú samt í ljós rétt áðan þegar það flaug geitungur ofaní glasið mitt í búðarkytrunni og ég flaug fram á gang æpandi og gólandi á miskunn. Ég skaust svo hratt fram á gang að ég held að ég hafi skapað einhvers konar lofttóm á bakvið mig, allavega þá sogaðist geitungsgreyið út á eftir mér og er núna að gleðja Birtu og Möggu í afgreiðslunni. Úps :)

laugardagur, ágúst 13, 2005

Tuesday on a Friday....

Fór í gær í annað skipti í lífinu að borða á Ruby Tuesday. Í fyrra skiptið (fyrir fimm árum nota bene) fékk ég ofsalega vonda og kalda súpu og var ekki sátt. Í gær fékk ég hins vegar voða gott pasta með kjúkling og hvítlauk og öðru misvellyktandi gúmmelaði, og valt út. Svo fór ég að sjá "Magnaða kvartettinn" (Fantastic Four) sem var líka bara fín, ekki jafn góð og hin myndasögubyggða myndin sem ég sá, "Syndaselaborg" (Sin City), en sat allavega alveg þegjandi róleg í gegnum hana, án þess að hugsa of mikið um ritgerðarskrípið mitt eða heimsmálin, en til þess var einmitt leikurinn gerður. Fannst samt kjánalegt að sjá þarna uppáhalds vonda lýtalækninn minn af stöð tvö, en það hjálpaði samt að hann var sami karakterinn þarna svo kerfið mitt fór ekki alveg í panik. Hann er eins og Baltasar Kormákur fyrir mér, örugglega fínn gaur en leikur alltaf svo mikla skítapésa að mér er illa við hann persónulega, myndi örugglega grýta hann með frosnum sænskum frikkadellum ef ég hitti hann í Bónus. Vondgóða löggan Vic var þarna líka, en breyttist fljótlega í steinakall svo það slapp líka fyrir horn. Skrýtið hvað ég höndla ekki að persónur úr sjónvarpsþáttum leiki fleiri en einn karakter á ferlinum, en kvikmyndaleikarar mega skipta um hlutverk eins og nærjur án þess að það trufli mig. Maður verður að fá að hafa sínar sérviskur...

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Slapplingur

Þessi belgvettlingur hér er slappur í dag. Held ég sé að fá í hausinn hvað ég er búin að vera ofvirk í sumar, kenndi bara einn tíma hálfsjö í gærmorgun og fór svo heim að skrifa ritgerð, og held að líkaminn hafi ekki þolað svona rólegheit, er allavega hálfgert flak. Það er samt ekki í boði að verða lasin fyrr en ritgerðinni hefur verið skilað. Pant verða lasin á mánudag, en ekki deginum fyrr!
Ég datt inná netdagbók um daginn hjá Íslendingum sem búa í Kína, og nú er ég alveg sjúk aftur og langar þangað í skiptiönnina/annirnar mína/mínar. Lítur samt ekki út fyrir að það sé neinn skóli í Kína í boði fyrir stúdenta HÍ, bara skipti fyrir kennara eftir því sem ég best fékk séð í fyrra þegar ég var að spá í þetta. En getur það nokkuð verið, þetta stóra og fjölmenna land..? Ég hlýt að vera að misskilja eitthvað. Held áfram að njósna þetta.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Skandall!!!

Það er svo mikill skandall að ég skuli ekki vera búin að sjá Billy Elliot ennþá! Ég af öllum. Hneyksli. Er komin efst á listann fyrst guttinn er meira að segja staddur á landinu. Hnuss, að maður skuli láta þetta fréttast um sig.
Skil annars ekki að mér skuli ennþá vera hleypt út á almannafæri, hvað þá að ég fái að tala við viðskiptavinina... Lenti í nettri krísu með kúnna áðan. Hann ætlaði að kaupa sér sokka og ég spurði hvaða skónúmer hann notaði. Hann svaraði með djúpri röddu "verð ég ekki að segja 48, er ekki þjóðsagan að þetta sé eitthvað tengt annari stærð?" og hló svo, og ég, verandi kjánaprik, sagði að ég hefði nú verið að lesa grein rétt áðan (þessa grein) þar sem þetta teldist bara sannað mál. Það fór ekki betur en svo að manngreyið snarfölnaði og þverneitaði að segja mér hvaða skónúmer hann notaði í alvöru. Úps. Keypti sokka nr. 39-42 og sagði að honum fyndist betra að hafa þá þrönga. Einmitt.

Over-achiever

Fór eins og stormsveipur um húsið mitt áðan og vökvaði sumarblómin og inniblómin. Og gerviblómin. Takk fyrir viðvörunina mamma. Hrmph.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Komum saman og leysum vind...

Ég skellti mér til vina minna á Esso stöðinni uppá Höfða á föstudaginn til að fylla bílinn minn af bensíni. Á meðan það var verið að dæla því á Trausta fyrir mig (því ég er prinsessa og geri ekki svoleiðis sjálf) stóð ég í löngu röðinni að kassanum, fyrir aftan eldri mann. Ekki svo mikið eldri að það eigi að vorkenna honum og finnast hann krúttlegur neitt, bara svona eldri en fimmtugt eldri, ekki eldri en Móses eldri. Og þarna stóð ég í sakleysi mínu að reyna að standast Nissa súkkulaðið í hillunni við hliðina á mér (sem mistókst, en það er önnur saga), þegar karlgerpið rekur svona líka myndarlega við á mig! Lætur bara eitt djúsí prump vaða á mig án þess að blikna eða blána. Mátti engu muna að ég léti gott spark vaða í stélið á dónanum, en ég var í támjóum stígvélum og hrædd um að festa það einfaldlega á vettvangi glæpsins. Þetta er bara svo langt frá því að vera í lagi...

föstudagur, ágúst 05, 2005

All warm and fuzzy

Hvernig veit maður að maður á fullt af yndislegum vinum? Jú, þegar það er föstudagskvöld og maður segist ætla að missa meðvitund slefandi af þreytu á sófanum sínum, og þeir bjóða manni frekar sófann sinn að slefa á :)

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Þreytuleiði

Svakalega verður maður leiður þegar maður er svona þreyttur. Ég er eitthvað svo útkeyrð líkamlega en allt samt gott þannig lagað, svo andlega hliðin ætti alveg að vera í fínu tjútti, nema hún er það ekki. Hún er bara búin á því líka. Merkilegt hvað þetta fer saman. Svo allir sem vilja knúsa mig eru velkomnir í Laugar.
Fólk má líka fara að bera smá virðingu fyrir sísteminu mínu. Ég litakóðaði bolina hérna í búðinni en fólk er alltaf eitthvað að messa í kerfinu mínu. Hætta því strax. Getið gramsað í sokkakörfunni ef vantar útrás fyrir taugaveiklunina, hef ekki ennþá fundið almennilegt kerfi til að skipuleggja hana blessaða. Nöttí? Ég held ekki...

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Unnsa, fæst nú sykurskert

Gleymdi að borða áður en ég fór að sofa í gærkveldi, eins og ég geri alltaf þegar ég á að kenna tíma í bítið morguninn eftir, svo ég var um hálfníuleytið í morgun komin í þetta líka fína blóðsykursfall. Sem væri nú ekkert fréttnæmt svosem, nema af því að ég er ennþá titrandi og skjálfandi eins og aumingi, óglatt og svimar og alltsaman. Sem er ekki hressandi. 14 tíma vinnudagur í dag og hefði verið ofsa krúttlegt að halda meðvitund. En maður fær víst ekki allt. Kvartikvart.
Annars er óðum að líða á þessa vinnuviku dauðans, þetta klárast alltaf hraðar en maður heldur, skil ekkert hvað ég var að kvarta og kveina í vikubyrjun. Massetta!!!

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Afkvæmi Satans

Ok, nú er þetta að verða komið gott bara. Helmingurinn af öllum pósti sem ég fæ er boð frá öllum sem ég þekki (og nokkrum sem ég reyndar þekki ekki...) um að skrá þá í einhverja þjónustu á netinu þar sem er hægt að senda sms frítt. Sem væri merkilegra ef maður hefði ekki gert það árum saman gegnum heimasíður íslensku símafyrirtækjanna. Þetta fæ ég aftur og aftur og aftur frá sama fólkinu, sem er að öðru leyti dagfarsprútt og tiltölulega þolanlegt í umgengni svo ég neita að trúa því að þetta pakk sé alltaf að senda mér þetta viljandi. Er forritið að gera þetta sjálfvirkt eða..? Þið vitið hvaða forrit ég er að tala um, sms.ac eða eitthvað. Nú hef ég aldrei sent viljandi út svo "invitation" á einn eða neinn, svo segið mér nú, eruð þið búin að vera að fá svona drasl frá mér?