sunnudagur, ágúst 07, 2005

Komum saman og leysum vind...

Ég skellti mér til vina minna á Esso stöðinni uppá Höfða á föstudaginn til að fylla bílinn minn af bensíni. Á meðan það var verið að dæla því á Trausta fyrir mig (því ég er prinsessa og geri ekki svoleiðis sjálf) stóð ég í löngu röðinni að kassanum, fyrir aftan eldri mann. Ekki svo mikið eldri að það eigi að vorkenna honum og finnast hann krúttlegur neitt, bara svona eldri en fimmtugt eldri, ekki eldri en Móses eldri. Og þarna stóð ég í sakleysi mínu að reyna að standast Nissa súkkulaðið í hillunni við hliðina á mér (sem mistókst, en það er önnur saga), þegar karlgerpið rekur svona líka myndarlega við á mig! Lætur bara eitt djúsí prump vaða á mig án þess að blikna eða blána. Mátti engu muna að ég léti gott spark vaða í stélið á dónanum, en ég var í támjóum stígvélum og hrædd um að festa það einfaldlega á vettvangi glæpsins. Þetta er bara svo langt frá því að vera í lagi...

Engin ummæli: