laugardagur, ágúst 13, 2005

Tuesday on a Friday....

Fór í gær í annað skipti í lífinu að borða á Ruby Tuesday. Í fyrra skiptið (fyrir fimm árum nota bene) fékk ég ofsalega vonda og kalda súpu og var ekki sátt. Í gær fékk ég hins vegar voða gott pasta með kjúkling og hvítlauk og öðru misvellyktandi gúmmelaði, og valt út. Svo fór ég að sjá "Magnaða kvartettinn" (Fantastic Four) sem var líka bara fín, ekki jafn góð og hin myndasögubyggða myndin sem ég sá, "Syndaselaborg" (Sin City), en sat allavega alveg þegjandi róleg í gegnum hana, án þess að hugsa of mikið um ritgerðarskrípið mitt eða heimsmálin, en til þess var einmitt leikurinn gerður. Fannst samt kjánalegt að sjá þarna uppáhalds vonda lýtalækninn minn af stöð tvö, en það hjálpaði samt að hann var sami karakterinn þarna svo kerfið mitt fór ekki alveg í panik. Hann er eins og Baltasar Kormákur fyrir mér, örugglega fínn gaur en leikur alltaf svo mikla skítapésa að mér er illa við hann persónulega, myndi örugglega grýta hann með frosnum sænskum frikkadellum ef ég hitti hann í Bónus. Vondgóða löggan Vic var þarna líka, en breyttist fljótlega í steinakall svo það slapp líka fyrir horn. Skrýtið hvað ég höndla ekki að persónur úr sjónvarpsþáttum leiki fleiri en einn karakter á ferlinum, en kvikmyndaleikarar mega skipta um hlutverk eins og nærjur án þess að það trufli mig. Maður verður að fá að hafa sínar sérviskur...

Engin ummæli: