laugardagur, nóvember 29, 2003

Alveg er það magnað hvað hausinn á manni getur verið þversum, nú er ég búin að sitja á bókó í allan dag og strand á sama dæminu allan tímann! Mér líður samt mikið betur að vera hér en að sitja heima, jafnvel þótt ég komi engu í verk. Þess má geta að ég er á bókó í þessum töluðu og er bara að blogga til að hafa afsökun fyrir að hvíla mig á bannsettu fylkinu sem ekki vill hlýða mér...
Ég fór annars í síðustu pásu í Húsó að kíkja á hvað hún Ingunn er búin að eyða tíma sínum í þessa önnina og ég er nú eiginlega bara abbó. Af hverju finnst mér allt í einu allir sem ég þekki vera að gera eitthvað skemmtilegt og slaka aðeins á á meðan ég er að gróa föst við stólinn minn á bókasafninu? Ég er að verða svolítið bitur eiginlega!

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Ég veit að það er hvorki komin aðventa né 1. desember, og ég veit að fólk, þar með talin ég (þar til annað kemur í ljós allavega), er endalaust að nöldra yfir því að jólaundirbúningurinn byrji of snemma. En ég verð að játa mig sigraða í þetta skiptið. Það er kominn snjór, lager heimilisins telur bæði mandarínur og piparkökur, það er komin jólastöð í útvarpið, ég er farin að læra fyrir prófin, og ég er komin í jólaskap!!!
Af því tilefni að ég er komin út úr jólaskápnum ætla ég á jólatónleika í Langholtskirkju á föstudaginn með öðrum virkum jólaálfi, honum Gunna, og eftir það veit ég að ég verð ekki mönnum sinnandi vegna óhóflegs hátíðaskaps, vildi bara vara ykkur við...

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Já, gleymdi því, ég sá hinn fjölskylduvæna skemmtiþátt Gilla Marteins endurtekinn í dag, og komst að því að hann hefur sömu hlýlegu leiðindin til að bera og Hemmi hafði á sínum tíma, manni hlýnaði öllum að innan og fékk gömlu góðu öryggistilfinninguna, beið bara eftir að einhver yrði spurður hvort hann legði ennþá stund á knattspyrnu... Mjög gott, og ekki versnaði það þegar Icy Spicy Leoncie birtist og uppfærði tískuvitundina mína, sem var orðin ansi rykfallin eftir óhóflega innilokun á bókasafni. Og nú brennur á mér ein spurning; hvar fæ ég eiginlega svona belti???

Eftir að hafa eytt deginum í að reyna að finna hverjum hlut sinn stað í herberginu mínu hef ég komist að mjög merkilegri niðurstöðu um hvert vandamálið sé. Það kemur í raun tvennt til greina; of fáir staðir eða of margir hlutir. Ég hallast að því síðarnefnda en þegar maður er orðinn svona stór þá á maður orðið meira af hlutum og minna af drasli en áður og ekki lengur hægt að leysa vandamálið einfaldlega með því að henda draslinu (sama hverju mamma heldur fram!). Svo nú er bara eitt til ráða. Veiðiferð í IKEA!!! Þar eru nefnilega seldir staðir, meðan næstum allar aðrar búðir selja hluti. Merkilegt, ekki satt?

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Ég held ég sé haldin einhverskonar svefnsýki, ég er þreytt allan daginn alla daga og alveg við það að missa meðvitund á bókasafninu dag eftir dag, og samt sef ég mikið meira en vanalega, ég skil ekki... Kannski er samsæri í gangi í skólakerfinu, allir máladeildarnemar skilyrtir til að detta út þegar þeir koma of nálægt stærðfræði... Ég er allavega ekki sátt, nú fer að líða að prófum og þrálátt meðvitundarleysi er ekki alveg það sem ég þarf þessa stundina.
Annars ætla ég að gefa sjálfri mér það í jólagjöf að heilda og diffra allt jólafríið svo ég eigi séns í stærðfræðigreininguna eftir jól, það væri mjög ljúft að geta klárað hana því ég hef alltaf ímyndað mér að þegar ég nái þeim áfanga verði ég endanlega búin að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti þetta alveg.
Æ, þetta bjargast alltsaman, verst að foreldrar mínir eiga eftir að sitja uppi með mig alvega ferlega lengi meðan ég sniglast í gegnum þetta!

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Trausti brást trausti mínu í dag. Og ég þurfti að hringja í pabba minn til að biðja hann um að skipta um dekk fyrir mig. Og þótt hann kæmi að vörmu spori með bros á vör fannst mér það samt sorglegt og hef heitið sjálfri mér því að næst þegar allur vindur verður úr Trausta mínum ætla ég sjálf að skipta um dekk, ég kann það nefnilega alveg svona í kenningunni, hef bara aldrei gert það í alvörunni. Það er samt víst ekki alveg það sama, allavega yrði mér ekki alveg rótt ef ég væri að fara í aðgerð og skurðlæknirinn segði mér að hann hefði að vísu aldrei skorið neinn upp áður en hann væri búinn að lesa bókina voða vel... En þetta er samt planið semsagt, að geta skipt um mín eigin dekk í staðinn fyrir að vappa í kringum bílinn að þykjast gera gáfulega hluti meðan pabbi minn gerir það fyrir mig.
(Get samt ekki ennþá fengið vídjóið mitt til að taka upp af stöð tvö svo þetta gæti verið óþarfa bjartsýni, við sjáum til...)

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Hvað eru allir þessir útlendingar að gera hér í nóvember? Þetta hlýtur að vera með ómerkilegri mánuðum ársins, engar stórhátiðir, engin sól, yfirleitt enginn snjór, það er hálfgert millibilsástand sem ríkir og ekkert beint hingað að sækja finnst mér. Samt verður ekki þverfótað í bænum fyrir hamingjusömum, skynsamlega dúðuðum útlendingum, maður fær varla sæti á kaffihúsi fyrir þessu liði. Hlýtur að vera eitthvað svakalegt tilboð í gangi hjá einhverri ferðaskrifstofunni...

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Ég fór í afskaplega áhugaverða jarðfræðiferð í gær, þvældist upp um allar sveitir með myndavél og frosna putta og hlustaði á vatnssögu Mosfellssveitar. Og það var bara mjög ánægjulegt verð ég að segja, og greinilegt að nördið í mér er bara að vaxa þessa dagana!

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Vettlingur fór í sinn fyrsta gítartíma í gærkveldi. Nú eru 3 fingur af 10 óstarfhæfir með öllu. Ég vissi aldrei að það væri sárt að spila á gítar, ég hef nýfundna virðingu fyrir trúbadorum heimsins og ja, bara öllum sem grípa í gítarinn í útilegum, nema kannski Árna Johnssen... Ég er samt svakalega klár, get spilað heilt lag, og veit að það er ekki langt í heimsfrægðina úr þessu. Frizzy who, here comes Unnsy!! Að vísu er lagið bara tveir hljómar og ég þarf að gera smá hlé alltaf á milli þeirra til að skipta um hljóm, en við skrifum það á listrænar áhersluþagnir, og þá er þetta mjög artí bara.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Ég er á netinu í skólanum mínum, sem hljómar ekki mjög merkilega en þar sem nú er nóvember og ég byrjaði að reyna við þetta þráðlausa netfjör í ágúst þá getið þið ímyndað ykkur gleðina sem ríkir nú í herbúðum vettlingsins. Rauðhærður Davíð 2 fær samt mesta kreditið fyrir áfangann, þrátt fyrir að ég muni líklega aldrei geta tengst neinu öðru neti aftur eftir allt fiktið. Strákar geta alveg verið ferlega gagnlegir þegar þeir gera eins og þeim er sagt :)

mánudagur, nóvember 10, 2003

Eftir mjög vísindalegar rannsóknir síðustu árin hef ég loksins komist að því að háhælaðir skór eru bara ekki þess virði, strigaskór eru það sem blíva í næturlífinu. Maður lítur ekki út fyrir að vera að reyna alveg eins mikið fyrir utan að maður getur hoppað eins og mann lystir, þótt ég viðurkenni reyndar fúslega að sú þörf virðist koma oftar yfir mig en flesta...
Ég fór út á lífið bæði föstudag og laugardag þessa helgina og uppskar hressilega hálsbólgu sem ég vil kenna óhóflegri snertingu við annarra manna sígarettureyk um. Foj, maður er hvergi laus við þetta ullabjakk, og þegar maður kemur heim og ætlar að fara að sofa í hausinn á sér er það ekki hægt því hann, ásamt restinni af kroppnum, fötunum manns og öllu sem var með í fjörinu angar af krabbameinsvaldandi löstum annarra. Mér finnst þetta ferlega óaðlaðandi alltsaman. Fólk getur bara reykt úti í kuldanum mín vegna, allavega finnst mér sanngjarnara að það séu reykingamennirnir sjálfir sem endi með hálsbólgu en litla ég sem ekkert get að því gert að þeir hafi ekkert betra við peningana sína og lungun að gera, þeim virðist hvort sem er ekkert vera sérstaklega annt um öndunarfærin sín. Og hana nú!

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Vá hvað síðan mín er ógeðslega bleik, ég er að fá my little pony flashback!!! Mér finnst hún æðisleg og svona verður hún :)

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Ég kem því ekki alveg fyrir mig hvað nýi liturinn á síðunni minni minnir mig á... Æ, þetta er allavega skárra en appelsínuguli liturinn, og bara til bráðabirgða... Vona ég... En nú er ég komin með nokkra tengla og allt, maður verður meira nörd með hverjum deginum, og mér finnst það svalt! :)

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Veeeiiiiiiii!!!

Ég held ég hafi verið að læra að setja linka á hluti, best að gá...
Hm, best að nota Áslu í tilraunastarfsemina, hún er vön :)

Þessa dags verður minnst fyrir þær sakir að Unnsa litla slapp naumlega frá ótímabærum dauðdaga á veitingahúsinu Mekong í Sóltúninu. Nú er ég þess fullviss að vondir kallar þessa heims hafa áttað sig á þvílík þjóðþrifaverk ég á eftir að vinna í framtíðinni og hafa því ákveðið að taka höndum saman og koma mér fyrir kattarnef, og ég verð nú að segja þeim til hróss að þessi fyrsta tilraun var ansi frumleg. Prik fyrir það.
Ég var sumsé að fá mér í gogginn á Mekong í hádeginu í dag (eftir smávægilegar hremmingar í umferðinni af völdum hálku) og svona framan af máltíðinni gekk það framar vonum, fínn matur og svo vel útilátinn að ég gat tekið heila máltíð með mér heim afgangs eftir að hafa þó borðað mig rúmlega sadda á staðnum. En þar sem ég sat í sakleysi mínu og var að einbeita mér að því að hefja meltingu (viðkvæmt ferli), fór mig að kitla einkennilega í hálsinn. Það var smávægilegt í fyrstu og kenndi ég kvefinu mínu um, þar til átfélagarnir mínir fóru líka að hósta. Eftir nokkrar mínútur voru allir á staðnum farnir að hósta ákaflega og þar kom að lokum að við spurðum afgreiðslumanninn (sem hóstaði okkur til samlætis) hvað gengi eiginlega á í eldhúsinu. Hann grennslaðist fyrir um það og sagði að kokkarnir væru að sjóða chilipipar! Klukkan rétt rúmlega tólf, í miðri hádegisösinni! Annar þeirra, lagleg ung stúlka, kom skælbrosandi fram og fannst greinilega mjög skondið að fylgjast með viðskiptavinunum í dauðatygjunum. Við vorum ekki lengi að láta okkur hverfa og mættum í dyrunum nokkrum svöngum sakleysingjum. Við vorum of upptekin við að bjarga lífi okkar og limum til að vara þá við hættunni en heyrðum að þeir voru strax farnir að hósta lifur og lungum, og ekki einu sinni búnir að panta...