föstudagur, nóvember 30, 2007

ch-ch-ch-ch-chaaanges

Mér sýnist BA-ritgerðin vera að taka netta beygju þessa dagana, og nú skil ég loksins aðeins hvað rithöfundar eru að tala um þegar þeir segjast ekki ráða neitt við neitt, verkið hafi sjálfstæðan vilja og geri það sem því sýnist. Ekki að BA-verkefnið sé neitt lifnað við, það er steindautt ennþá en útlitið er þó allavega að batna fyrir það greyið. Var farið að stefna í að verða úrelt áður en það einu sinni væri búið að gefa mér einkunn fyrir það, en með aðstoð góðra manna og kvenna er það allt að koma til, og móðurtilfinning mín gagnvart því er óðum að styrkjast (var komin á fremsta hlunn með að skilja það bara eftir nafnlaust á kirkjutröppum einhversstaðar og stinga af). Það þýðir samt að ég get ekki skilað því fyrr en í vor, en ég get hvort eð er ekki útskrifast fyrr en þá svo það skiptir mig engu þannig lagað. Stoltið reyndar svolítið marið af að standa ekki við deddlænið sitt, en það hefur gott af því að læra smá hógværð hvort eð er.
Þetta leiðir það af sér að ég get mögulega litið uppúr bókunum eftir prófin, notið jólanna í sæmilegu stressleysi og jafnvel borðað söru eða tvær. Hið besta mál.

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

He's making a list

Síðustu þrír dagar eru búnir að vera ferlega kjánalegir eitthvað. Ótrúlega erfiðir á milli þess sem þeir voru ótrúlega ljúfir og góðir. Miklar öfgar í gangi á öllum vígstöðvum og það er að gera mig dálítið bil. Vildi að ég hefði tíma til að leggjast undir feld í nokkra daga og hugleiða, en það er ekki í boði fyrir mig eins og er (ekki frekar en nokkurn Íslending í skóla á þessum árstíma), svo þá er bara að skrifa andlegan lista og díla við allt draslið þegar BA hefur verið skilað og jólasteikin verið melt.
Naughty: Vinnustaðamórall í sögulegu lágmarki, BA-verkefnið í tilvistarkreppu, vettlingur ringlaður og pínu tjúll.
Nice: Indælis humarsúpa, ljúfir tónleikar vættir í rauðvíni, rölt í jólaskreyttum miðbæ, kertaljós og skammdegisrómantík.

PS. takið eftir jólasveinahúfunni á íkornanum góða. Gerði hana sjálf. Næstum rauð og allt. Fín.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Menningarsjokk

Ég er ekki að segja að Sófus fimmti sé vitlaus, en þegar ég kom heim áðan var hann í sturtu og í stað þess að kippa baðmottunni úr henni á meðan þá stóð hann á henni í sturtunni og gróf tærnar í blauta Ikeadýrðina meðan hann þvoði sjampóið úr hárinu. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Svo ég gerði bæði.

sunnudagur, nóvember 25, 2007

Sunnudagur

Ísland má eiga það að sunnudagskvöld hér eru miklu meira kósý en í Strass. Þar vantaði alveg slagveðrið til að setja punktinn yfir i-ið. Þetta rann upp fyrir mér áðan, þegar ég var búin að skúra mig út á svalir (sem ég geri einhverra hluta vegna í hvert einasta sinn sem ég skúra kotið) og tvísteig og beið eftir að gólfið þornaði nóg til að skottast inn í hlýjuna aftur. Svalasýnishornið mitt er í skjóli, og þar sem ég stóð og hlustaði á rigninguna og horfði á trén sveiflast í rokinu var ég voða glöð að vera komin heim frá útlandinu, þrátt fyrir matvælaverðið, rauðvínsleysið og BA-stressið.
Eftir skúringar setti ég svo upp eina jólaskrautið mitt. Keypti það í mæðgnaferð í Smáralind í gær, band með litlum, rauðum rugguhestum. Gleymdi að hugsa fyrir því hvert ég ætti eiginlega að setja það, og endaði á að vefja því utanum pottaplöntuna mína. Þar sem ég stóð og dáðist að skreytingunni áttaði ég mig á því að ég hafði gert akkúrat það sem ég er búin að hlæja að ákveðnum fjölskyldumeðlim fyrir að gera í mörg ár. Jólaskreyta pottaplöntu. Sjaldan fellur eplið og allt það.
Nú stendur til að kveikja á kertum og Cörlu Bruni, draga fram ullarsokkana, hita te og ráðast á heimadæmin. Ljúft!

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Despó týpa

Ég þarf án gríns að fara að hætta að horfa á Dancing with the Stars, fæ svo mikinn fiðring í tærnar að ég get ekki sofið á eftir, og áðan fór ég næstum að gráta yfir vínarvalsinum. Jæks. Tók fram semi-dansskóna aftur eftir alltof langan tíma í síðustu viku og fór í einn salsatíma, uppskar geðveikislegar harðsperrur í iljarnar, og dansþráin mín versnaði um helming. Er að reyna þessa dagana að finna einhvern sem nennir að dansa við mig samkvæmisdansa en það gengur ekkert voðalega vel, margir búnir að bjóða sig fram í hálfkæringi en ég hef á tilfinningunni að enginn ætli að gera alvöru úr því. Var að vona að mér tækist að fá einhvern sem ég þekki eitthvað fyrir til að dansa við mig, þó það myndi þýða að hann væri að dansa í fyrsta sinn, því síðast þegar ég æfði dansaði ég við strák sem var ágætur dansari (töluvert betri en ég allavega) en við áttum engan veginn saman sem persónuleikar og það var algjörlega hræðilegt. Ótrúlega erfitt að dansa rúmbu við einhvern sem manni líkar ekki við, prófið það bara ef þið trúið mér ekki! Þetta á náttúrulega fyrst og fremst að vera skemmtilegt, svo í þetta sinn vil ég dansa við einhvern sem mér aksjúallí líkar við. Held þetta endi á að ég bjóði nokkrum vinum í partý, fylli þá og reyni að fá einhvern þeirra til að skrifa undir dansfélagasamning. Gott plan? Gott plan.

laugardagur, nóvember 17, 2007

Go team?

Mér er of illt í hnjánum til að sofna. Það er nýtt.
Langaði út í kvöld í eins og eitt rauðvínsglas og spjall, en gerði þá skelfilegu uppgötvun að næstum allir vinir mínir eru orðnir helmingur (að minnsta kosti) af pari. Hvenær gerðist þetta eiginlega? Og hvar var ég?? (Frakklandi segiði? Kannast ekki við það...) Það er svo erfitt að draga pöruðu vinina út úr örkinni á föstudagskvöldum að eftir að hafa farið með söluræðuna mína nokkrum sinnum í símann án minnsta árangurs ákvað ég að gefast bara upp, fara í joggarann og gera aðgerðaáætlun um hvernig sé best að finna sér nýja einhleypa vini sem nenna að gera hluti um helgar. Ekki að ég ætli að fara að losa mig neitt við arkarbúana, sem ég kann ennþá mjög vel að meta, en það er greinilegt að það vantar eitthvað uppá að lífstílarnir fari saman eins og er. Og ég kann ómögulega við að drekka ein, held ég hafi lesið of margar bækur eftir Þorgrím Þráins þegar ég var áhrifagjarn unglingur.

föstudagur, nóvember 16, 2007

Alþjóðasamfélag? Are you out there..?

Þrátt fyrir óstjórnlega hræðslu við þetta fyrirbæri sem Moggabloggið er þá ætla ég núna að gerast sek um ansi Moggabloggslega hegðun. Kenni því um að ég er illa sofin.
Á krúsi um vef Morgunblaðsins í morgun rakst ég á þessa frétt, þar sem sagt er frá því að dómur sé fallinn í máli 19 ára stúlku í Sádí-Arabíu sem varð fyrir hópnauðgun. Stúlkan þarf að sitja 6 mánuði í fangelsi og þola 200 svipuhögg fyrir að hafa "brotið lög sem banna samskipti við ókunna karlmenn". Ég er oftast fljót til að þjóta upp og verja trúfrelsi fólks, og blaðra um það að allt verði að skoða með tilliti til ólíkra menningarheima og allt það, en svona lagað fellur bara ekki á neinn hátt undir trúmál eða menningarmun. Þetta er bara hreint og klárt brot á mannréttindum, og það gróft. En ólíkt mörgum málum sem varða réttindi kvenna þá þarf engan að sannfæra í hinum vestræna heimi um að þetta sé fáránlegt, það sjá allir sem lesa fréttina, sem betur fer. Hinsvegar er þetta látið viðgangast ár eftir ár, mál eftir mál, og ekkert gert að því er virðist til að koma þessum konum til hjálpar. Til hvers erum við eiginlega með stofnanir eins og til dæmis Sameinuðu þjóðirnar? Ég veit alveg hvað þetta er flókið mál og erfitt viðureignar, en þegar mikið liggur við eru alltaf fundnar leiðir til að grípa til aðgerða. Verst það er engin olía í húfi hér.
(Ómálefnalegur póstur, en ég er of reið til að hugsa rökrétt. Fer frábærlega saman, ég veit.)

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Fráhvarf

Ég ætla að detta í þá klisju að segja að ég sakni deit-menningarinnar í henni Frakklandi. Meira að segja ég, sem var með rómantíkur-ofnæmi á svo háu stigi þegar ég fór út að ég tók með mér adrenalínsprautu til vonar og vara, hef greinilega ekki komið aftur heim til Íslands farsælda Fróns ósnortin af frönsku rómantíkinni. Eins og ég bölvaði henni samt mikið. Frakkarnir eru búnir að "raise the bar" og ég get ekki sagt að það sé að auðvelda mér lífið á íslenska markaðnum. Helvítis lögfræðingar... Vissi að það myndi koma aftur og bíta mig í rassinn.

laugardagur, nóvember 10, 2007

Feel your pain...

Stundum líður mér svona þegar ég er að reyna að fá fólk til að taka mig alvarlega:

(Mynd rænt héðan)

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Snurfusaður vettlingur

Vegna fjölda kvartana um fátæklegt útlit vettlings hefur hann nú fengið andlitslyftingu. Ekki dramatíska, en ég fæ allavega prik fyrir að reyna. Ástæðan fyrir því að ég breytti honum back to the basics um daginn var sú að ég var farin að íhuga alvarlega að senda hann á eftirlaun, hætta þessu sjálfhverfa blaðri um ekki neitt á netinu og fara að nýta tímann í eitthvað uppbyggilegra, eins og fluguhnýtingar eða skottís. Báðir lesendur mínir brugðust ókvæða við þeim tíðindum, og því hef ég ákveðið að halda vettlingi á lífi í bili og sjá hvort ég fæ ekki innblástur um hvernig er hægt að rífa hann uppúr lægðinni sem hann hefur verið í síðasta árið eða svo. Ef einhver hefur skoðun á því hvað gæti hjálpað, í hönnun vettlings eða efnistökum hans, eða fílar bara ekki Scrat hérna að ofan, þá má viðkomandi endilega tjá sig um það í kommentunum.
Viljið þið svo prittí plís taka þátt í skoðanakönnuninni hérna til vinstri, er forvitin. Og pínu despó. Samt aðallega forvitin. (Og despó.)
Lifið heil.