miðvikudagur, júní 29, 2005

Jarvis Cocker endurfæddur

Var að fá nýju gleraugun mín. Jei! Er samt svo langt síðan ég hef notað gleraugu að mig svimar pínu, og þar sem ég sit núna á sjóveikistólnum í Fitness Sport er ástandið skrautlegt... En ég er bara ánægð með femínistagleraugun mín, finnst ég svaka gella.
Af kattaskottinu er það að frétta að hún er komin úr legghlífinni í teygjusokk sem er töluvert meira smart.
En hvar er nú allt fólkið sem var með mér í að koma með miklar yfirlýsingar um sumargönguferðir fyrir nokkrum vikum? Hvernig væri að slá í eina slíka á sunnudaginn?

mánudagur, júní 27, 2005

Flashdance kisan

Kisa fór semsagt í aðgerð á föstudaginn og kom heim alveg húrrandi full. Öll saumuð á mallanum og hausnum og á svo sterkum verkjalyfjum að hún vissi hvorki í þennan heim né annan. En svo braggaðist hún nú að lokum, og ég fór áhyggjulaus að gæsa Guðnýju frænku á laugardaginn. Það heppnaðist æðislega vel, upprunalega planið fór víst alveg í vaskinn daginn áður vegna veðurs og ég skil ekki hvernig stelpunum tókst að skipuleggja þetta með svona litlum fyrirvara. Fórum um allt, í Sorpu, Húsdýragarðinn (hún átti að leita að okkur þar, vorum dreifðar um garðinn. Ég var sett í kanínuhúsið og jeminn, þær eru sko ekki spéhræddar! Kanínudónar...), í afró í Betrunarhúsinu, til ókunnugrar gamallar konu í Garðabænum að baka pönnsur, í Smáralindina... Ekki skrýtið að maður hafi verið orðinn þreyttur þegar við skriðum aftur í heimahús til að borða gómsæta grillpinna og klæmast í heita pottinum. Gerðum svo heiðarlega atlögu að djamminu en það var dæmt frá byrjun, engin orka eftir svo við stauluðumst fljótlega heim (sorrý Hrefna mín!). Hápunktar dagsins voru annars vegar afróið, sem er held ég bara það skemmtilegasta sem ég hef gert, algjör snilld að þramma þarna um (næstum) í takt við tvo trommuleikara á spítti og finnast maður æðislega töff gella þar til maður leit í spegilinn (verst að þetta var allt tekið upp og verður sýnt í brúðkaupinu. Minnið mig á að vera búin að fá mér örlítið í stóru tána áður en það gerist), og hinsvegar heimsóknin til ókunnugu konunnar sem reyndist vera ekki bara ferlega indæl heldur líka frá Sigló eins og allar í hópnum nema tvær. Var mikið spjallað um ættfræði, sem er alltaf hressandi.
En svo þegar ég vaknaði á sunnudaginn og kom fram að kíkja á kisuna mína var hún að dunda sér við að naga af sér saumana á mallanum! Komið á hana stærðarinnar gat svo við kölluðum út dýralækninn og þutum með hana að láta svæfa hana aftur og sauma sárið saman. Svo sátum við prinsessurnar bara saman það sem eftir var dags meðan þessi minni jafnaði sig af svæfingunni. En til þess að læra örugglega ekki af reynslunni var hún aftur farin að naga saumana sína í nótt, svo ég í algjöru ráðaleysi smellti á hana legghlíf... Mín var nú ekki sátt, þvílíkan morðsvip hef ég aldrei séð á ketti! '85 greinilega ekki hennar tebolli. Hún ákvað svo bara að hún gæti ekki hreyft sig með hana og í tvo tíma valt hún bara um eins og ánamaðkur, en komst að lokum að því að það væri nú alveg hægt að hreyfa sig í sokknum, og skrölti af stað. Litla skinnið mitt. Nú er bara að vona að þetta hafi verið góðkynja, allir að krossa putta, fáum niðurstöðurnar eftir nokkra daga.
Löng færsla, passið að teygja vel á eftir!

föstudagur, júní 24, 2005

Elsku kisulóran mín...

...er lasin. Hún er með kýli í spenanum og á enninu og það er allt komið í hnút, hún er víst orðin roskin þessi elska. Er samt ekkert slöpp orðin nema bara útaf þessu kýlaveseni. Mamma fór með hana til dýralæknis áðan og niðurstaðan var að á morgun á að reyna að bjarga henni kisu minni með aðgerð, ef það virkar ekki þarf bara að svæfa litla gullmolann minn. Sem mér finnst hræðilegt og er búin að skæla endalaust... Sendið kisu minni nú fallega strauma, henni verður nefnilega að batna...

sunnudagur, júní 19, 2005

...og lásinn er inn, út, inn, inn, út

Ég hef ákveðið að hjálpa hinu einhleypa fólkinu í lífi mínu að finna ástina. Hér er staddur Gunni. Hann er ungur og efnilegur, með hár sem fengi Beckham til að fölna af öfund og boltaleikni sem slefar uppí Eið Smára. Boltaleiknin, ekki Gunni. Hann vinnur í Þrek kaffi, gengur í kvenmannsfötum og er vel vaxinn niður. Mjög vel. Hver vill hann?

mánudagur, júní 13, 2005

Bloggaðu beibí bloggaðu inní eilífðina...

Vaknaði 5 í morgun, og nú er klukkan 18 og ég er alveg að morkna í baðstofunni... Ég er alls ekki viss um að eftir fjóra tíma enn geti ég yfirleitt risið á fætur til að skrönglast heim, svo ég gæti neyðst til að flytja lögheimilið mitt að Sundlaugavegi 30a, kjallara, glerbúri. Eins og simpansi. Bylgja stóð sig vel í að halda mér félagsskap framan af en svo kom mamma hennar og bannaði henni að leika við mig lengur. Ég er svo slæmur félagsskapur, svo villt. Mjá.
Mér finnst ég fáránlega mikill lúði að vera ekki að horfa á Lost þættina heilu og hálfu sólarhringana eins og allir virðast vera að gera til að forðast sólina. Sé bara ekki fyrir mér að þetta geti verið skemmtilegt, ekki frekar en 24 þættirnir, sem ég hef aldrei nennt að byrja að fylgjast með en fáir virðast halda vatni yfir. Hef séð hluta og hluta af Lost og það eina sem virðist gerast er að fólk er á eyju, labbar um allt, felur sig í runnum og skýtur upp neyðarblysum hist og her þegar það sér báta, en enginn tekur eftir þeim. Sem ætti ekki að koma á óvart í 5. þætti af 20 þátta seríu sem heitir nú einu sinni Týnd. Nema þeim sé bjargað um borð í ofsa stórt skemmtiferðaskip þar sem þau fá víðáttubrjálæði og týnast á göngunum. En ég mun víst aldrei komast að því. Kemst ekki alveg inní "Örvæntingarfullar húsmæður" heldur, léleg tilraun til að taka yfir plássið í hjarta mér sem er tileinkað "Samræði í borginni" en það mun aldrei aldrei takast. Aldrei. Hins vegar get ég ekki beðið eftir nýrri seríu af hinu stórgóða lýtalæknadrama "Nip/Tuck", sem eru æsispennandi og einstaklega menningarlegir þættir. Fallegt fólk að miskunna sig yfir ljótt fólk og gera það pínu fallegt líka. Þá erum við farin að tala saman. Ójá. Og ég vil fá sadistanæringarfræðinginn aftur, sem fór til fólks, skoðaði í ísskápana þess og sagði því að það væri nú meiri svínin og viðrinin, hlyti að vera andfúlt og sírekandi við. Vísindaleg rannsókn á kúknum þess staðfestir þennan dóm hennar alltaf og til útskýringar er allt gumsið sýnt. Sem er einstaklega fræðandi.
Nöldri og sjónvarpsgagnrýni lokið, ég verð að þjóta, nefið borar ekki í sig sjálft!

miðvikudagur, júní 08, 2005

Karlapúl

Byrjaði daginn á að kenna einn tíma í karlaátaksnámskeiði, fyrsta skipti sem ég kenni bara körlum og það var alger snilld! Karlmenn eru yndislegar verur, höfum það bara alveg á hreinu. Svo hressir og kátir, alltaf að góla framí og hafa gaman af þessu og húmor fyrir sjálfum sér. Elskaðá. Vildi að ég ætti þá, en Bára á þá víst, ég var bara með þá í láni. Takk fyrir lánið Bára. Þeir voru að vísu ekki alveg tilbúnir að kaupa það að 16, 15, 14, 13, 10, 9... væri eðlileg niðurtalning, sama hvað ég reyndi að sannfæra þá. Einhvern daginn mun ég læra að telja, þetta hlýtur bara að fara að koma. Ekkert skrýtið samt að maður lendi í vandræðum, mýslurnar í bókinni voru bara tíu en ég þarf alltaf að telja uppí sextán, það er eins og það sé ekki gert ráð fyrir því að börnin sem lesi bækurnar verði einhvern daginn að fullorðnum eróbikkkennurum...

mánudagur, júní 06, 2005

Hann var sjómaður dáðadrengur...

Í tilefni sjómannadagsins skellti ég mér til Grindavíkur á laugardaginn, á eitthvað sem var kallað sjómannaball. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar þegar Jóhanna bauð mér með, eitthvað svo ferlega rómó hugmynd að finna sér karlmannlegan, órakaðan sjómann til að eiga sumarævintýri með. En viti menn, við mætum ásamt fríðu föruneyti í Festi, uppstrílaðar eins og klassapíurnar sem við erum, til þess eins að komast að því að þegar sjómenn eru í landi nota þeir tækifærið og fara í bæinn að djamma. Það geta hinsvegar krakkarnir sem ekki eru komnir með bílpróf ekki gert. Þeir sitja uppi með ballið. Einmitt. En fyrir utan frekar púkalegt ball þá var ferðin stórskemmtileg, og góð byrjun á "oppareisjon faraferlegaoftútálandísumar". Reyndar lenti ég í smá Janet Jackson vandræðum, tæknileg klæðavilla, þegar vinstri búbba flaut uppúr toppnum sínum í sundlauginni á staðnum. Hefði ímyndað mér að viðstaddir karlmenn kynnu vel að meta en þeir tveir sem urðu vitni að atburðinum fóru bara allir í kleinu og jöfnuðu sig ekki fyrr en þeir voru búnir að fara í góða sturtu. Ah.
Í gær fór ég svo að þrífa íbúðina sem pabbi minn var að flytja úr. Stóð á haus ofaní klósettinu þegar mamma og hinn pabbinn (ég á tvo, svona til öryggis) mæta á svæðið og þyrlast útum alla íbúð eins og tveir Mr. Sheen (fríki, sköllótti, dyravarðalegi dúddinn með upphandleggsvöðvana, sem villtist utaná þvottaefnisbrúsana...) og áður en ég vissi af var bara allt orðið hreint og strokið! Ég er svo mikið dekurdýr! Takk fyrir mig allir foreldrar :)