fimmtudagur, desember 30, 2004

Jólaskýrslan

Þá er maður semsagt snúinn aftur til siðmenningarinnar með allskonar marbletti til sönnunar þess að það hafi verið bæði kindur og óveður fyrir austan. Við Snati lentum í smá átökum við girðingarstaur sem lauk með ósigri okkar og má sjá það á vinstri sköflungnum á mér, sem er tvöfaldur. Og blár. Ég er sessí... En jólin voru samt ofsalega góð í sveitinni, vonda veðrið var bara kósí þegar maður vissi að maður væri öruggur inni og ekkert á leiðinni út á næstunni. Ég var auðvitað eins og blómi í eggi hjá ömmu og afa, skilst að amma hafi legið á dýnunni minni áður en ég kom til að hita hana, það er gott að vera jólarósin hennar ömmu sinnar sko! Samt er nú alltaf gott að koma heim aftur, eina er að kötturinn er að taka sitt venjulega geðvonskukast yfir að við höfum skilið hana eftir og hún stendur bara á miðju gólfi og gargar frá morgni til kvölds en það hlýtur að fara að ganga yfir. Hún er voða spúkí þegar hún lætur svona, ég var að reyna að sofa í morgun eftir spinning ævintýrið (hrikalega var það hrezzzzzandi) en alltaf þegar ég rumskaði og opnaði augun sá ég beint inn í glyrnurnar á kettinum sem sat á gólfinu og starði á mig. Spes.
Núna er ég á kunuglegum slóðum í baðstofubúrinu að bíða eftir steggjahóp og bráðna úr hita og svita. Foj.

Harka!

Klukkan er kortér í 6 og ég er búin að sofa í tvo tíma en er samt mætt í Laugar á æfingu, í spinning eftir 45 mín sem þýðir að ég er hetja. H-E-T-J-A. Bara svo það sé á hreinu.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Sayonara jólaálfar

Nú er lokið svakalegustu World Class þemahelgi sögunnar. Útskriftarveisla hjá Björk afgreiðsludömu og nú snyrtifræðingi (held ég allavega...) á föstudaginn, svaka fínar veitingar og horft á dúddana í Herra Ísland spóka sig á skýlunni eftir strangar æfingar í Laugum. Það rættist nú úr þeim miðað við ástandið á þeim þegar þeir byrjuðu, við vorum alveg hissa. Allir í brúnkusprautun takk! Ekki vildi ég nú samt að einhver gagnrýndi mig eins og við gagnrýndum þá, held ég hafi unnið mér inn nokkra tíma í kompunni þetta kvöld...
Á laugardaginn voru svo litlu jólin í Laugum. Byrjuðum í partíi hjá Birtu, svo var svo hrikalega gaman þar að við mættum alltof seint á litlu jólin. Það kom nú ekki að sök, mættum beint í karókíið sem strákarnir svartklæddu vígðu fyrir okkur, Jónsi tók Proud Mary svo manni næstum vöknaði um augun bara. Eða svoleiðis. Hm. Svo kom upp sú hugmynd að afgreiðslan tæki Æ Lov Rokk ennd Ról, Britney style. Áður en ég vissi af var byrjað að ýta mér af stað að sviðinu þrátt fyrir að ég væri búin að sverja og sárt við leggja að ég kæmi hvergi nálægt þessarri maskínu. Ég var ekki lengi að gróðursetja háu hælana í parketinu og sagðist ekki fara fet en þær lyfta stelpurnar sem greinilega er að bera árangur og ég var látin spæna upp parketið með illu að sviðinu. Sorrý Bjössi... Það fór nú samt betur en á horfðist, ég var of upptekin til að syngja mikið, við að passa að bömpa Hrönn ekki af sviðinu með Beyoncé múvinu öðru megin meðan ég reyndi að forðast að fá míkrafóninn sem Bylgja var alltaf að sveifla í áttina að andlitinu á mér í trýnið hinumegin. Svo var skutlast í bæinn þar sem ég fann Guðrúnu og höbbí á Sólon og dansaði með hald. Mjög töff. Hitti reyndar fáránlega mikið af fólki þetta kvöld. Endaði samt á að þiggja far heim með mömmu Jóhönnu (sem er kona dagsins af því tilefni) um sexleytið og missa meðvitund áður en ég snerti koddann. Brilljant kvöld!
Á sunnudaginn eldaði næfurþunn Bylgja ofaní liðið og fær prik í kladdann fyrir að fórna sér í eldamennsku í sínu ástandi! Klappklappklapp. Mexíkóskt þema og maturinn var frábær, lágum afvelta á eftir og töpuðum okkur í afar vafasömum umræðum... Þriðja World Class kvöldið í röð og ekkert síðra en hin tvö. Við erum ágætar.
Í dag (mán) fór ég svo í Smáralindina þar sem ég sannaði það sem ég hef alltaf sagt að ég versla eins og karlmaður á Þorláksmessu, kláraði allar jólagjafirnar á klst og var bara frekar ánægð með mig. Á morgun flýg ég til brósa og fjölskyldu í sveitina, hinn verður svo haldið til Bakkó þar sem jólin verða haldin hátíðleg hefðinni samkvæmt. Sem er hið besta mál. Mun snúa aftur til siðmenningarinnar þann 28. des, full af orku og til í slaginn.
Þangað til óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla, njótið nú rólegheitanna þessa örfáu daga og allir að muna að þakka fallega fyrir sig. Það er fullorðins. Til hamingju með jólin!

fimmtudagur, desember 16, 2004

Próflok og almennur aumingjaskapur

Um þetta leyti á morgun verð ég búin í prófunum þessa önnina og líklega á langþráðri æfingu og baðstofulúri. Ahhh. En þótt prófin klárist þýðir það enga lognmollu, frekar en vanalega hjá mér! Sem betur fer :) Verð að vinna um helgina, og ekkert nema gott um það að segja, alveg kominn tími á að maður heilsi upp á liðið og borði svolítið af tortillum og svona... Á föstudagskvöldið er afmæli, partý og svo auðvitað Herra Ísland, en ég held því verði nú fórnað þetta árið á altari próflokadjamms. Það er hinsvegar bara upphitun og teygjur fyrir laugardagskvöldið, sem er búið að plotta og plana og á að verða alveg skothelt. Þetta er samt að verða fullgróft held ég, verður örugglega eins og áramótin þar sem maður er búinn að gera sér svo miklar vonir að það endar allt í steik! En þá eru semsagt litlu jólin í World Class, karókí (æ nó) og mikið fjör. Skilst það eigi að pota okkur í eitthvað júniform af þessu tilefni en sel það ekki dýrara en ég keypti það, enda búin að vera í einangrun síðustu vikur og veit voða lítið um umheiminn eins og er. Á laugardaginn er ég reyndar búin að mæla mér mót við svo marga að það á eftir að vera heilmikið álag að standa við það alltsaman og eins gott að skilja háu hælana eftir heima ef þetta á ekki að enda með íþróttameiðslum.
Ég er á Reykjalundi eins og er, í básnum hennar mömmu að reyna að læra undir próf morgundagsins, sem er í kúrsinum Stjórnmálafræði: íslenska stjórnkerfið. Fínn kúrs með fullt af efni og ef ég miða við gömul próf þá verður þetta langerfiðasta prófið í ár. Verst að ég er ekkert búin að lesa fyrir það... Hm...

miðvikudagur, desember 15, 2004

Jólagóðverkið í ár

Mig langar bara að benda ykkur á þægilegt tækifæri til að gera eitt stykki jólagóðverk í ár ljósin mín. Þannig er að Davíð ("Balli" hérna í tenglunum mínum) hefur afþakkað jólagjafirnar sínar í ár og bent fólki í staðinn á að gefa í jólagjafasjóð ABC hjálparstarfs, þar sem við eigum bæði styrktarbörn (eins og reyndar óvenju margir í yndislega vinahópnum mínum). Þetta finnst mér algert snilldarframtak hjá stráknum og fær hann klapp á kollinn fyrir það, reikningsnúmerið þeirra og allar nauðsynlegar upplýsingar getið þið nálgast á síðunni hans og auðvitað á síðu ABC. Í ár eiga allavega börnin í Úganda að fá dýnu í jólagjöf, og stefnt er á að reyna að gefa sem flestum systkinum styrktarbarnanna líka, sem ekki hafa verið svo heppin að fá stuðningsaðila. Hver dýna kostar 1200 krónur, en hinsvegar er engin lágmarksupphæð á fjárgöfunum. Reynum nú að muna eftir þeim sem minna mega sín á milli þess sem við kaupum heimabíó og GSM síma handa ástvinum okkar, þetta tekur bara örfáar mínútur í heimabankanum en maður verður allur "warm and fuzzy" að innan á eftir :)

mánudagur, desember 13, 2004

Heimspekihrollurinn all over again

Þeir sem muna eftir geðsveiflunum sem fylgdu lærdómi fyrir heimspekiprófið hjá Clarens á sínum tíma eru réttilega skelkaðir núna. Alþjóðastjórnmálaprófið sem ég fer í eftir hádegið virkar svipað, fáum bara fullt af efni en vitum ekki neitt hvernig er hægt að spyrja úr því, ekkert gefið upp um svoleiðis smáatriði. Sem er auðvitað kannski ekki skrýtið, maður á náttúrulega bara að kunna efnið og geta unnið úr þeim verkefnum sem er hent í mann úr því en hitt væri bara svooo mikið þægilegra! Ég vil bæta stöðu þægindasjónarmiðsins innan háskólakerfisins, það er ekkert hollt að sofa ekkert, lesa endalaust og lifa á kóki (Coca Cola sko, kókaínið er spari), svo hérmeð hef ég baráttu mína fyrir þægilegra og álagsminna háskólanámi. Birta prófin fyrirfram á netinu, fækka bókunum, setja í þær fleiri myndir og jafnvel tengja námsefnið kunnuglegum persónum til að minnka pressuna (hver gæti stressað sig yfir "Depill skoðar regluveldalíkan Allison"?) Hver er með???

föstudagur, desember 10, 2004

It´s all coming screaming back to me...

Fyrsta prófi lokið. Þrjú eftir. Þetta mjakast.
Var farin að halda að ég væri búin að vinna bug á prófstressinu mínu alræmda fyrir þetta próf því ég var bara glöð og kúl á því alla vikuna, kvartaði meira að segja yfir því í gær að ég væri ekki nógu stressuð. En nú veit ég hinsvegar ástæðuna. Ég var að safna. Fyrir síðustu þrjá tímana fyrir prófið. Var heima að dúlla mér við að hita kaffi þegar það náði mér allt í einu, skalf eins og lauf í vindi, kaldur sviti, föl eins og lík, illt í mallann, foj. Panikaði og fór að reyna að lesa allar bækurnar mína, glósurnar og gömlu prófin á sama tíma, sem gekk merkilegt nokk ekki vel og gerði lítið til að minnka skjálftann. Á endanum sætti ég mig við örlög mín og gafst bara upp, búin að henda blöðum um allt eins og geðsjúklingur en engu nær um eitt eða neitt. Skellti mér bara í prófið eftir að hafa lofað mömmu að gera ekki betur en mitt besta.
Veit auðvitað ekki hvernig mér gekk, veit það aldrei, en ég veit að ég fór fyrst út úr prófinu sem orsakaði alveg nýja bylgju af stressi. Hverju gleymdi ég eiginlega að svara?...
Og væ ó væ á ég aldrei nóga sálarró til að fara yfir prófin mín?

fimmtudagur, desember 09, 2004

Hvar eru kommentin?

Ég er að verða örlítið þreytt á því að kommentin hérna á síðunni núllast alltaf reglulega og allt sem hefur verið sagt hverfur. Skemmtilegasti hlutinn! Veit einhver hvað vandamálið er? Balli? Hubby? Anyone? Rats...

þriðjudagur, desember 07, 2004

Horfin...

Ég er ekki dauð, ég lofa, ég er bara í prófum og haldin einstakri sjálfhverfu þessa dagana. En þið eruð samt góð að hringja og athuga hvort ég sé ennþá í tölu lifenda. Ánægð með ykkur.
Ég skrapp til Skandinavíu í rannsóknarleiðangur og komst að því að jú, það er hægt að eyða öllu sem maður á á 5 dögum. Þá vitið þið það. Maður er alltaf að fórna sér fyrir vísindin. Nóbell? Komst að því að Svíar eru ágætir en Danir eru æði, allavega gamli Daninn í Bilka sem sagði okkur að við ljómuðum og hefðum svo fallega útgeislun. Elskann. Og hann var ekki einu sinni pervert því fyrr en varði var hann kominn aftur að benda konunni sinni á hvað við værum ljómandi ungar stúlkur.
Annars er bara ekkert að gerast, ég er varla búin að fara útúr húsi í ca viku nema til að fá mér vikulega ísinn minn og slúðra, sem var náttúrulega bara nauðsynlegt. Engin vinna og allt í pati þar auðvitað því það vantar mig. En ekki hvað... Hóst.
Jú, og það sést í gegnum aðra augabrúnina á mér. Kannski ekki fréttir en mér finnst það magnað og í svona gúrkutíð er allt leyfilegt.
Svo er það bara að þrauka fram til 17. des en þá má opinberlega fara að syngja jólalög, bryðja piparkökur og krulla pakkabönd. Eitthvað skilst mér að ég eigi að djamma þá helgi alla með smá hléi til að dreifa jólaskapinu meðal hreystimenna og heiðurskvenna í klassanum og ætli ég reyni ekki að standa mig þar, þótt þið verðið börnin góð í alvöru bara að fara að læra að lifa með því að ég er lélegur drykkjumaður, eigum við að læra af hestamannaballinu kannski? Foj.
Gangi þeim vel í prófum sem féllu eins og ég fyrir "mennt er máttur" línunni á sínum tíma og megi hinir púkarnir njóta mandarínanna og troðningsins í Smáralindinni með gleði í hjarta.

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Stungin af

Vegna óleysanlegs ágreinings mín og veðurguðanna hef ég flúið land og sett upp búðir í Svíþjóð. Hér er ágætt alveg. Seinna.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Stutta útgáfan...

Jæja börnin góð, ég er búin að þjást af nettri bloggleti síðustu daga, og geri reyndar enn, en mamma hefur greinilega ekki nóg að gera í vinnunni og ég get ekki setið undir suðinu í henni lengur! Ætla að skjóta inn málamyndafærslu sem verður að duga þar til andinn kemur yfir mig aftur...
Helstu fréttir eru að ég er búin að finna mér strák til að dansa við, jei! Hann bauð sig meira að segja fram að fyrra bragði, sem í mínum bókum er einstakur hetjuskapur því ég var orðin pínu þreytt á að væla yfir þessum skorti á fótafimi hjá íslenskum karlmönnum. Svo nú eru það samkvæmis aftur eftir jól, þ.e. ef dúddinn guggnar ekki :) Erum að fara í prufutíma á þriðjudaginn, hlakka voða til, en hinsvegar þá var ég að tala við kennarana og komst að því að ef ég safna nokkrum pörum saman verður búinn til sértími fyrir okkur, svo allir sem voru að skæla um að þeir vildu læra að dansa fyrir ca. ári síðan þegar ég var að kenna mega endilega hafa samband núna og láta mig vita, veit nú þegar um nokkur pör og það væri frábært að geta bara haft sértíma fyrir okkur vinina! Komaso!
Nú á líka að draga Unnsu litlu á eitthvað hestamannaball á laugardaginn sem hljómar ekkert svaka spennandi af því að:
- Ég er hrædd við hesta og þar með hestamenn, sem eru greinilega samsekir.
- Það er skrýtin lykt af hestamönnum.
- Það er ennþá skrýtnari lykt af hestamönnum þegar búið er að vökva þá með etanóli, sem mér skilst að sé planið á laugardaginn.
- Stelpurnar í vinnunni hóta að vökva mig líka og koma mér svo saman við hestamann/menn, sem mér finnst slæm hugmynd (sjá liði 1-3).
- Síðast þegar ég djammaði með vinnuliðinu gerðust slæmir hlutir... Sem munu aldrei verða ræddir framar... Jeminn...
- Strangar reglur hafa verið settar um klæðaburð umrætt kvöld og ég er ekki viss um að bara belti fari mér mjög vel!
Stelpur, ég er asnaleg þegar ég er full og ég vil ekki vera asnaleg... Og ég vil ekki láta loka mig inni á Broadway með fullum gömlum köllum sem halda að þau séu þarna til að kreista þau! Má ég plís bara keyra og sækja stelpurnar mínar og vera siðgæðisvörðurinn þeirra?

miðvikudagur, október 20, 2004

Code blue, code bluuuueeee!

Jæja, nú er allt tilbúið. Búið að plasta allt rakadrægt í húsinu, pakka brothættu inn í bubbluplast, fela allt oddhvasst og allt sem inniheldur koffein eða sykur. Skipt hefur verið á vaktir eftir hentugleika og álagstímum, fundað um strategíu og hvaða ferli skuli sett í gang fari eitthvað úrskeiðis. Komið er upp tjald til áfallahjálpar í garðinum og farið hefur fram hópefli. Við erum búin að hita upp, teygja á og setja köttinn á bullandi róandi svo hún dagi ekki uppi í árásarstöðu uppá lofti. Neyðarlínan, eitrunarvarnir og vinalínan komið inn í minnið á símanum. Hjálmar tékk, hlaupaskór tékk, klóróform tékk. Við erum tilbúin. Hleypið þeim iiiiiiiiinn!!!

mánudagur, október 18, 2004

Afmælisþakkir

Takk fyrir frábæran afmælisdag! Kossar og knús!
Vá hvað allir voru duglegir að muna eftir mér (að vísu reyndi ég ekkert að leyna því beint að ég ætti afmæli... :p), síminn minn stoppaði ekki og meira að segja gamlir vinir sem ég hef vanrækt alveg rosalega létu það ekki stoppa sig og hringdu samt. Þið eruð æðisleg! Lovjú gæs, og lofa að blogga ekki meira væmið fyrr en á næsta ári...

þriðjudagur, október 12, 2004

Óskalistinn 2004

Í kjölfar síðasta pósts hafa nokkrir samviskusamir vinir spurt mig hvað ég vildi í afmælisgjöf (sem framkallaði magnað samviskubit þar sem ég hafði engum þeirra gefið afmælisgjöf síðast, muna það í næstu kaupstaðarferð; kaupa 18 afmælisgjafir...). Hefðinni samkvæmt svaraði ég með veiklulegu "ég veit það ekki". Svo núna þegar ég var að reyna að sofna (ekki hægt meðan verkfallsbarnið gengur laust í húsinu með sinn öfuga sólarhring) mundi ég allt í einu hvað það er sem mig vantar mest. Reykskynjara. Og það er það sem ég vil takk. Ég er nefnilega eldhrædd fram úr hófi og kem úr kertaglaðri fjölskyldu (voða kósí og skemmtilegt þar til einhver meiðir sig...) fyrir utan það að í húsinu eru 5 sjónvörp, flest gömul og full af ryki, svo ég fer aldrei alveg róleg að sofa... Nú erum við búin að búa í þessarri dauðagildru í 11 ár og þrátt fyrir mótmælin sem ég veit að heimilisfaðirinn á eftir að standa fyrir þá segi ég hér stopp. Og ætla að hengja upp minn eigin reykskynjara á fimmtudaginn við hátíðlega viðhöfn með tilheyrandi ræðuhöldum og tárfelli. Það skondna við þetta alltsaman er að heimilisfaðirinn er búinn að læra að setja upp flókin og fullkomin eldvarnarkerfi, sem er einmitt ástæðan fyrir því að hann vill enga vesældarlega reykjskynjara í sínu húsi. "Einhvern daginn" ætlar hann nefnilega að setja upp ofursúpertúrbó eldvarnarkerfi með öllu nema hráum í húsinu, sem verður þá reyndar að öllum líkindum orðið að öskuhrúgu.

mánudagur, október 11, 2004

Áminning dagsins

Minnt er á hátíðisdag sem mun í ár falla á næstkomandi fimmtudag. Hvatt er til gjafakaupa áður en örtöðin hefst á miðvikudag. Blóm og kransar afþakkaðir.
Sama dag kemur Ásla á skerið og er hér með gefin út almenn viðvörun.
Annars er það helst í fréttum að um helgina tókst mér að vinna af mér alla vikuna og þarf því ekki að vinna aftur fyrr en fimmtudaginn í næstu viku. Held ég hafi síðast verið í svona löngu fríi frostaveturinn mikla ´99... Veit ekki alveg hvað ég á að gera en rámar eitthvað í háskóla og bækur sem ég ætti kannski að lesa. Mun kanna málið.
Við mamma gerðumst myndarlegar á föstudaginn og bökuðum eins og fyrirmyndarhúsmæðurnar sem við erum inni við beinið. Bökuðum 6 tertur (eftir einstaka hvatningarræðu móður minnar sem hún fær plús í kladdann fyrir) sem voru yndislegar og litu meira að segja vel út ef maður hallaði örlítið undir flatt þegar maður horfði á þær. Ég held samt að ég sé mjög smáborgaralegur bakari og ekki menningarleg fyrir fimmaura því mitt markmið í þessu öllu saman var að borða eins mikið af "þessu góða", þ.e. dæm, nóa kroppi og súkkulaði, áður en það yrði sett í kökur því ég vissi að ég kæmist ekki í veisluna þar sem þær yrðu borðaðar. Ég er prakkari.
Vandamál vikunnar er hinsvegar að ég er hætt að sofa. Ligg andvaka og stari á loftið tímunum saman áður en ég sofna, því ég er haldin þeirri meinloku að geta ekki lært á kvöldin. Það þýðir að ég þarf að vakna snemma til að læra ef ég ætla ekki að vera í háskólanum til fertugs svo ég fer að verða pííínu sybbin. Ég fæ klapp á bakið fyrir að lifa í augnablikinu frekar tilbreytingarsnauðu lífi en geta samt föndrað mér vandamál :)

mánudagur, október 04, 2004

Flótti skipulagður

Deginum í dag hef ég eytt í að skipuleggja flótta minn af þessu guðsvolaða skeri. Ekki raunsæjan flótta, heldur þennan skemmtilega, búin að sitja og skoða myndir af sólarströndum og kókoshnetum, vinalegum kóalabjörnum að vinka og flækingsköttum í Róm. Svona dagar á Íslandi eru og verða alltaf fráteknir fyrir dagdrauma, það er fáránlega mikið rok og kuldalegt úti, og svo er eins og Skaparanum finnist fyndið þegar ég er einstaklega geðvond að ögra mér örlítið. Áðan fauk upp í mig laufblað. Verð að hætta að labba um gapandi eins og fiskur. Næst gæti það orðið grunlaus fugl og ég held að báðir aðilar kæmu illa útúr þeim viðskiptum. Svo finnst mér ég aldrei eins bjánaleg eins og þegar ég stend með risastóru skólatöskuna mína á bakinu (sem færir þyngdarpunktinn minn greinilega full-aftarlega) að berjast á móti rokinu sem hefur betur svo ég enda á að standa með fimm tásur teygðar útí loftið að reyna að færa þungann áfram en það gengur ekkert og maður stendur bara í miðju skrefi eins og maður hafi verið settur á pásu. Ekki töff. Almennt séð þá hefur þessi dagur verið einstaklega lítið töff og ég stefni á að gleyma honum sem fyrst. En ég get glatt mig á því að það var allavega ekki ég sem datt um pallinn minn í eróbikkinu í morgun, það var annar mistöff maður í spandexi sem fórnaði sér til að bjarga deginum mínum og vil ég þakka honum fyrir það. Ég vil líka biðja um að ég muni aldrei ALDREI detta í spandexi. Eek.

fimmtudagur, september 30, 2004

Önnur ég

Þar sem ég hef skyndilega öðlast feikilegar persónulegar vinsældir sá ég mér þann kost vænstan að finna mér afleysingamanneskju, ég get annars ekki sinnt bæði lífi mínu og aðdáendum eins og ég hefði kosið. Verkefnum verður systurlega skipt niður, hún mun sjá um lífið og ég um aðdáendurna.
Áðan fannst mér ég nefnilega eiga það skilið að fá mér góðan morgunmat fyrst ég er búin að vakna alla morgna í þessarri viku klukkan hálfsex og skella mér í ræktina. (Ég er hetja.) Svo ég lét undan freistingunni og fór í bakaríið. Þar afgreiddi ég mig. Eða réttara sagt Unnur Margrét. Sem er ég, samkvæmt síðustu naflaskoðun. Ég er ringluð. Ég hef aldrei hitt aðra Unni Margréti nema langömmu mína heitna svo mér fannst þetta frábært. Það fannst henni líka og við rákum ættir okkar eins langt og við gátum til að reyna að staðfesta það sjálfsagða að við værum greinilega náskyldar. Vorum komnar langt á leið með að skipuleggja ættarmót og ræktun fjölskyldubanda með ýmsum hætti þegar ég varð að þjóta í skólann. Áður hafði ég að sjálfsögðu skipað hana afleysingakonu mína. Núna var ég hinsvegar að fletta okkur upp í Íslendingabók og ég er meira skyld bæði Davíð Oddssyni og Birgittu Haukdal en umræddri nöfnu minni. Sem verður að játast að eru nokkur vonbrigði... (Og vá, ég er alveg óhugnalega mikið skyld Birgittu Haukdal, hvern hefði grunað...)
Vonbrigði þessi bætast á önnur óþægindi dagsins sem eru íþróttameiðsl úr spinningtímum vikunnar. (Hvernig strákar geta stundað spinning er ofar mínum skilningi!)

mánudagur, september 27, 2004

Unnur sinnir næstu kynslóð

Ég fékk á laugardagskvöldið það ábyrgðarmikla hlutverk að gæta þriggja afkvæma ættingja minna og vina þeirra. Þetta leit allt mjög vel út við fyrstu sýn, ég var vopnuð flatböku, sælgæti, gosi, ís, snakki og fullt af vídjóspólum (allt lagt til af foreldrunum auðvitað, ég hefði fóðrað þau á hafragraut og lýsi svo þau verði stór og sterk og svo látið þau lesa Sveitir og jarðir í Múlaþingi) og búin að semja við þau um að þurfa ekki að gera númer tvö á minni vakt (sem þau stóðu merkilegt nokk við þessar elskur). Markmið mín fyrir kvöldið voru í sjálfu sér ekki flókin, koma grísunum gegnum kvöldið án þess að skemma þau og halda þeim vakandi eins lengi og mögulegt var því ég sá fljótlega að þau væru eina skemmtiefnið í húsinu og ef þau sofnuðu yrði ég að naga veggina til að hafa ofan af fyrir mér. Þetta átti ekki að vera neitt mál með allan þennan sykur með mér í liði. Planið var að koma þeim í svo suðandi sykursjokk að foreldrar þeirra yrðu að flysja þau úr loftinu þegar þau kæmu heim. Ekkert mál.
Klukkan níu yfirgáfu foreldrarnir svæðið. Klukkan fimm mínútur yfir níu var einn grísinn orðinn rangeygður svo ég potaði í hann og hann valt sofandi útaf. Sem er ömurleg frammistaða, fimm mínútur! En tvö af þremur voru svosem ekki slæmt, eðlileg afföll. Fyllti glösin þeirra af kóki og lét þau borða ís þar til þau stóðu á blístri og báðust vægðar. Ég vægði. Og setti af stað mynd um Bangsímon og félaga. Kortéri seinna báðu grísirnir um að fá að fara í náttfötin. Ég sagði nei. Þau fóru í náttfötin. Fimm mínútum síðar var enginn með meðvitund í húsinu nema ég. Ég er glötuð í þessu. Og foreldrarnir svakalega hamingjusamir, grísirnir vaknaðir um áttaleytið morguninn eftir, ofsa spræk eftir góðan nætursvefn en ekki nema 5 tímar síðan liðið hafði oltið rauðnefjað inn úr dyrunum. Ég held ég sé rekin...

Pissað í myrkrinu

Vinnan mín hefur svipt mig einum ótrúlega mikilvægum hæfileika. Eins og ég kann nú vel við mig þar þá hafa Laugar svipt mig hæfileikanum til að kveikja ljós á baðherbergjum, ég er vön að labba inn og stuttu seinna kvikna ljósin bara af sjálfu sér, ekkert vesen. Þetta finnst mér hið eðlilegasta mál og mjög viðeigandi á stað sem er svona morandi í sýklum eins og almenningsklósett, einum hlut minna að koma við og svona. Nema þannig virka baðherbergin ekki í Hlöðunni, en það dagar aldrei upp fyrir mér fyrr en ég er sest á klóið og byrjuð að pissa, svo mjög reglulega pissa ég í myrkri þessa dagana. Frekar spælandi en ég hitti samt alltaf!

föstudagur, september 24, 2004

Nett taugaáfall í morgunmat... Eða svoleiðis...

Þessi dagur byrjaði svo furðulega að ég held að hann eigi sér einfaldlega ekki viðreisnar von, enginn séns að hann rífi sig upp úr súrrealismanum í mínum bókum, allt í dag verður einfaldlega örlítið á skjön. Ég á nefnilega kisu. Sem heitir Kisa. Og er komin á virðulegan aldur þessi elska. Hún er afskaplega vanaföst og ákveðin í skoðunum og það er algerlega hægt að treysta á að hún breytir ekki neinu breytinganna vegna. Hélt ég.
Svo var ég að fara að sofa í gærkveldi en kom einhvern veginn fótunum ekki þangað sem ég vildi hafa þá, sama hvað ég reyndi að troða, það var bara eitthvað fyrir. Kisa. Úps. Ekkert sátt en samt ekki neitt á förum sem er mjög óvenjulegt þar sem hún hatar lokaðar dyr meira en lyktina af asetoni og vill þess vegna aldrei sofa inni hjá mér því búrinu mínu er læst á kvöldin. Hefur samt einstaka sinnum komið fyrir að hún sofnar þar óvart en þá hef ég undantekningalaust vaknað við lætin í henni stuttu seinna þar sem hún reynir að flýja virkið. Svo ég fór tiltölulega áhyggjulaus að sofa.
Vakna í morgun og það er ennþá aðskotahlutur í rúminu mínu. Kisa. Paniiik! Þetta hefur aldrei gerst áður, að hún sofi heila nótt í lokuðu herbergi án þess að reyna að klóra sér leið gegnum gluggann (munið þið eftir "neglur-á-töflu" atriðinu í Sister Act? Einmitt...) svo ég geri það eina skynsamlega í stöðunni. Pota í hana með tánum. Hún haggast ekki. Hreyfist ekki neitt og þetta væri nú venjulega nóg til að fá hana upp að höfðagafli til að tukta mig til. Neibb, ekkert gerist. Svo ég dreg einu skynsamlegu ályktunina sem hægt er að draga í ljósi aðstæðna. Kattagatið hlýtur að vera látið. Sem mér þótti mjög sorglegt þar sem okkur Kisu kemur ákaflega vel saman og skiljum hvora aðra þar sem við vinnum báðar eftir álíka illskiljanlegum reglum sérviskunnar, sem ekki margir hafa skilning á. (Það er víst pirrandi þegar það eru ekki nógu mörg orð í textanum í sjónvarpinu til að byggja pýramída þar sem þeim fækkar alltaf um nákvæmlega 2 orð í hverri röð, og það þarf að laga. Alltaf. Eftir ákveðnum reglum.) Ég semsagt lá bara þarna og hugsaði um allt sem við Kisa höfðum brallað saman, átt kettlinga (hún), setið í fanginu á hvorri annarri á góðri stund (misnotalegt eftir því hver er undir) og klórað hvora aðra á erfiðum tímum (hún átti það skilið...). Var að því komin að fara að skæla yfir þessu öllu saman og þorði ekki fyrir mitt litla líf undan sænginni til að kíkja á hana svona illa komna. Það eina sem mér datt í hug var eina húsráðið sem virkar alltaf: Hringja í mömmu. Ég var komin með símann í hendina og tárin í augun þegar líkið fer að þvo sér. Einmitt. Hálftími af lífi mínu sem ég fæ aldrei aftur.
Það er svolítið erfitt að vera með svona lítið hjarta sko, og ég á dálítið mikið fleiri úlfalda en mýflugur...
(PS. Fyrir þá sem höfðu áhyggjur af samkomulaginu eftir atvikið þá var ég auðvitað nett arrí yfir þessu uppátæki hennar. En hún kann á Unni sína, hoppaði uppá öxlina á mér (af gólfinu), læsti klónum föstum í bakið á mér og neitaði að yfirgefa svæðið fyrr en henni væri fyrirgefið. Hvernig er hægt að segja nei við svoleiðis? Svo gleðin ríkir í herbúðum okkar að nýju, allir á lífi og ofsa spakir.)

miðvikudagur, september 22, 2004

Hver er glöð?

Hver hleypir mér alltaf útúr búrinu mínu og sleppir mér lausri á almannafæri???

Lýst eftir horfinni færslu... Anyone?

Ég skrifaði hnyttna og bráðskemmtilega færslu hingað í gær sem virðist hafa týnst á leiðinni, hún finnst allavega hvergi í kerfinu eða á síðunni. Synd og skömm.
Engin leið að ég nenni að eyða púðri í að endurtaka það sem í honum stóð en í staðinn ætla ég að lýsa því yfir vegna fjölda áskorana að ég er lélegasti vinur í heimi. Að vísu er ég frábær þegar ég er mætt á staðinn, yfirmáta skemmtileg og kumpánaleg, eina málið og helsta umkvörtunarefnið þessa dagana er að ég hringi aldrei í neinn. (Nema til að reyna að fá fólk til að næra sig með mér, enda finnst mér það engan veginn þess virði í einrúmi.) Ég hef oft lofað bót og betrun á þessum galla mínum en í þetta skiptið ætla ég ekki að gera það. Svona er þetta bara, ég get ekki lagað þetta. Búin að reyna. Oft. Svo hérna er díllinn: Þið hringið og ég mæti samviskusamlega þangað sem ég er boðuð. Betur býð ég því miður ekki.

mánudagur, september 20, 2004

Smá jákvæðni í morgunsárið

Þessi dagur sýnist mér ætla að virka bara ágætlega, þeir gera það yfirleitt þegar ég þarf ekki að vakna við skerandi ýlfrið í vekjaraklukkunni minni. Mamma vakti mig í morgun, sem er ólíkt vinalegra, og mér tókst að hitta alla fjölskylduna mína áður en ég fór í skólann sem gerist nánast aldrei. Svo er prýðilegt gluggaveður, sem er mitt uppáhalds því þá er yndislegt að vera inni og horfa út en enginn biturleiki yfir að vera hinsvegar ekki úti sjálfur. Jei!

laugardagur, september 18, 2004

Afrekskona með sýkla

Þá sé ég fram á það að komast aftur út úr húsinu mínu eftir að hafa verið haldið þar í gíslingu af sýklum síðustu daga. Þeir voru subbulegir gestir. Ég hinsvegar ákvað að nýta tímann og breyta herberginu mínu (aka musteri hinnar skipulögðu óreiðu) í minimalistíska skrifstofu. Sem tókst, merkilegt nokk, og nú get ég lært heima hjá mér. Magnað. Ég er æði.
Í dag afrekaði ég svo annað, ég nefnilega tók mig til og eldaði uppúr græna kosts bókinni minni sem ég hef ætlað að gera í svona ár en aldrei komið mér til að byrja. Ég eldaði grænmetissúpu sem var, hvernig sem á hana var litið, alveg æt, sem er algerlega meira en ég bjóst við af mat sem kom ekki snyrtilega í duftformi úr pakka. Það var fullt af dúlleríi í henni og Gunni, ég held þetta sé súpa sem við getum auðveldlega eldað í Gunnabæ. Jább.
Annars er ekkert að frétta, gaman í skólanum, alltof lítill tími til að gera allt sem mig langar að gera og aftur farin að syrgja tímann sem ég eyði í svefn. Some things never change :) Og mig langar að dansa samkvæmisdansa aftur en það vill enginn dansa við mig, sem er ótrúlegt í ljósi allra afrekanna sem ég var að telja upp hér að ofan. Skil þetta ekki. Hrmph.

fimmtudagur, september 09, 2004

Back in the spa...

Viti menn, mín að skrifa úr baðstofubúrinu.
Ég er að taka óvelkomna aukavakt og reyna að lesa "Comparative Government and Politics" (sem er ferlega skemmtileg þrátt fyrir lítt söluvænan titil) en það er alltaf eitthvað lið að koma og trufla mig. Reyni að horfa á það með "sérðu ekki að ég er upptekin?" augnaráðinu mínu sem misskilst greinilega alltaf sem "viltu handklæði vinur?" augnaráðið, þarf að æfa þetta betur.
Ég er búin að ákveða að skella mér í nýnemaferðina þrátt fyrir hótun um að það verði leikir (mér hefur aldrei fundist "hver stal kökunni úr krúsinni í gær" skemmtilegur), í versta falli segi ég (sem satt er) að hægri fóturinn á mér sé styttri en sá vinstri en bæti því við (sem er ekki jafn satt) að þar af leiðandi geti ég bara hlaupið í hringi og felli svo eitt einmana tár. Það ætti að passa að ég endi ekki útí sveit að hlaupa um allt eins og vitleysingur, flengjandi ókunnuga í hlaupískarðið. Sem er allt voða gaman þar til einhver meiðir sig.
Áðurnefnt fýlupúkaplan mitt er ekki að virka, heillandi persónuleiki minn skín greinilega enn í gegnum skeifuna og fólk er farið að vingast við mig. Hm, kannski ekki skrýtið að mamma hafi áhyggjur af að ég gangi aldrei út. ("Unnur mín, *olnbogaskot og sparibros* veifaðu strákunum á traktornum!").

laugardagur, september 04, 2004

Streeeeesssssssss!!!

Úff, ég hélt ég væri að skipta í aðeins auðveldara fag en þetta er bara frekar svakalegt líka. Endalaus lestur, sem mér finnst reyndar alveg fínt, nema fullkomnunaráráttupúkinn í mér vill glósa allt sem hann kemur nálægt svo ég fer voða hægt yfir og klára kannski eina bók fyrir jól. Sem er slæm frammistaða og ekki líkleg til árangurs. Ég þarf að læra námstækni, það er nokkuð ljóst.
Ég er núna að lesa sögu 20. aldarinnar á Íslandi og mér finnst hún krúttleg, má það? Ég er svo stolt af okkur fyrir að vera svona lítil og saklaus þjóð. Enginn vissi hvernig neitt virkaði úti í hinum stóra heimi en langaði samt að prófa svo það var reynt, við misgóðan árangur, en allt reddaðist þetta alltaf og var gert í bestu trú. Sæta þjóð. Svo koma Danir svakalega vel útúr þessu öllu saman, greinilega ágætt fólk Danir, voru að mér sýnist aðallega að passa að við færum okkur ekki að voða í flumbruganginum. Getur verið að ég sé að lesa þetta með Pollýönnugleraugunum mínum?

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Félagslyndið uppmálað, það er ég!

Ég fór í skólann í dag, á fund fyrir nýnema í stjórnmálafræði. Það var voða fínt, þarna var fullt af fólki sem ég kannaðist við héðan og þaðan sem ég hefði getað spjallað við og reynt að vera soldið kammó, flagga mannasiðunum. Ég bara nennti því ekki. Ég nennti í fyrra alveg að vera ógó hress og kynnast öllum og svona, en núna á ég bara voða lítið nenn eftir, og hvernig vingast maður við fólk sem maður nennir ekki að tala við? Þetta er ekki snobb, alls ekki, allir þessir krakkar líta út fyrir að vera mjög skemmtilegir og ég væri meira en til í að vera vinkona þeirra, nenni bara ekki að hafa fyrir því að verða vinkona þeirra. Ég er búin að þróa með mér óþol fyrir "smalltalk". Hjálp!

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Að eiga við Háskóla Íslands er svipað og að reyna að vinna barn í leik sem það hefur sjálft fundið uppá. Um leið og manni er að takast að komast áleiðis í kerfinu er reglunum bara breytt og þú ert aftur á byrjunarreit. Það er sko bannað að stíga á línur.
Ég er að reyna að skipta um deild innan Háskólans og drengur ó drengur er það meira en að segja það. Hef verið að síðan í maí og er búin að komast að því að ef maður spyr fimm starfsmenn stofnunarinnar sömu spurningar um kerfið þeirra fær maður fimm mismunandi svör. Spurning hvort kerfið sé að verða of flókið?... Ekki það að það séu ekki allir alltaf boðnir og búnir að hjálpa manni, það vantar ekki, það er bara að alltaf þegar búið er að greiða úr flækjunni og finna rétta eyðublaðið er ólíklegt að maður nái að skila því inn áður en búið er að breyta reglunum aftur.Maður er ekki fyrr búinn að fylla út eyðublað 35c3i með rauðum túss en ákveðið er að aðeins megi skila inn með bláum túss og þegar búið er að redda því er búið að úrelda blaðið eins og það leggur sig, í staðinn skal fylla út 35c3d og skila því á Hornafirði ásamt fæðingar- og dánarvottorði og vottorðinu sem þú fékkst í leikfimi í sjöunda bekk. Þetta er að verða alveg eins og ein af þrautunum í Ástríki og þrautunum tólf.
Miklu japli, jamli, fuðri, góðum hluta regnskóganna virði af eyðublöðum og nokkrum alvarlegum pappírsskurðum síðar er ég merkilegt nokk enn í verkfræðideild. Það var haldinn fundur um örlög svona kjánaprika eins og mér í síðustu viku en hann annaðhvort stendur enn eða að skilvirkni stofnunarinnar nær til innanhússpóstþjónustunnar og verið er að skipuleggja atvinnuviðtal fyrir manninn sem verður ráðinn til að sleikja frímerkið á umslagið mitt.
Á meðan veit ég ekkert hvað verður um mig þar sem ekki er víst að ég fái nokkuð að skipta um eina einustu deild. Íslenska ríkið er alvarlega að hugleiða að þröngva mér til að verða verkfræðingur. Hvar væri maður ef ríkið sæi ekki um að hafa vit fyrir manni?

sunnudagur, júlí 18, 2004

Held við séum alveg að misskilja tengsl dýranna við náttúruna. Málum þetta allt voða rómó, heiðarvötnin blá og svo framvegis og bölvum yfirtöku malbiksins en dýrin virðast alls ekki eins sammála og við höldum. Þeim virðist hvergi finnast eins kósý og heimilislegt að vera og einmitt á miðjum Vesturlandsveginum, þangað á maður að fara á sunnudagseftirmiðdögum til að skoða dýralífið. Tjaldur að vappa með ungana sína, kríur í leit að æti, gæsir og jafnvel álftir að hóta manni líkamsmeiðingum reyni maður að trufla þær í malbiksdýrkun sinni. Maður er í stórsvigi framhjá þessum greyjum alla daga því ekki vill maður klína á þau, geld líku líkt og þau hafa ekkert gert mér (þótt kríurnar hafi nú stundum gert sig líklegar, svo má nú ekki gleyma máfnum sem skeit í hárið á mér um árið... Kannski ég myndi reyndar bömpa hann létt ef ég sæi hann...). Sýnist samt allt stefna í að ég klíni útaf fyrr eða síðar til að forðast árekstur við fiðurféð og kann ekki við tilhugsunina. Er að spá í að fara bara að kaupa mér hjól.

sunnudagur, júlí 04, 2004

Ég er nú löngu komin heim frá Spáni en nennti einhvern veginn ekki að skrifa hingað fyrr. Það var frábært úti, gott veður og mikið að gera við afslöppun alla daga. Langar núna mest bara að flytja út. Hittum rosalega mikið af Íslendingum sem búa úti og þeir áttu flestir sameiginlegt (komst ég að í sundlaugapartíinu haldið einum níu ára til heiðurs) að vera með ör á líkamanum eftir stórar aðgerðir. Þarf greinilega mikið til að fólk átti sig á að það gefur manni ekkert að safna endalaust hlutum og vinna allan sólarhringinn heldur að vera með þeim sem manni þykir vænt um í manneskjuvænna umhverfi en hérna heima. Við Íslendingar erum brjáluð, öllsömul (ég meðtalin) vinnualkar með mikilmennskubrjálæði og allt snýst um að eiga sem mest. Predikun lokið.
Nú er ég auðvitað farin að vinna á fullu og það er bara voða gaman, mér finnst vinnan mín sniðug því ég hitti svo mikið af fólki. Þessa dagana finnst mér hún samt aðallega sniðug því handboltadúddarnir eru að æfa hjá okkur og það þarf bara ekki meira til að gleðja mig. Sorglegt en þannig er það, enda einhleyp með afbrigðum. Vei!
Þessa dagana verð ég að ákveða hvort ég ætla að vinna í vetur eða fara í frönskuna og stjórnmálafræðina í háskólanum í haust. Ákvarðanir, ákvarðanir. Á þriðjudaginn er ég svo að byrja í einkaþjálfun sjálf til að komast að því hvernig það er áður en ég fer að þjálfa aðra. Hlakka ekkert smá til en er samt að fara til kjarnakvendis sem gæti átt til að pína mig svolítið. Hef auðvitað ekkert nema gott af því, maður er alltof góður við sjálfan sig. Enda er maður ágætur... :)
Ég er að verða búin að vera ein heima í tvær vikur og stefnir í næstum tvær í viðbót, er að verða búið að takast að drepa allar plöntur í og við húsið, þrátt fyrir að veita þeim mikla athygli og vökvun. Ætli ég sé að kæfa þær með ástúð? Það er vandlifað... :p

miðvikudagur, júní 16, 2004

Ég er farin í vikufrí til lands hinna mörgu slísí karlmanna með mottur á röngum stöðum líkamans. Jább, mín stungin af til Spánar, adios í bili og sjáumst 101 sangríu og nokkrum moskítóbitum síðar!

fimmtudagur, júní 10, 2004

Skilgreining Boga líffærafræðikennara á streitu er "misræmi milli huga og handar". Samkvæmt þessu er ég haldin gífurlegri streitu. Alveg bara svakalegri. Því meðan ég er að læra fyrir prófið á laugardaginn (sem er örugglega streituvaldur útaf fyrir sig) situr herbergið mitt og bíður eftir að ég gefi mér tíma til að klára stórhreingerninguna sem ég var byrjuð á, og það vita allir sem tekið hafa til að um miðbik aðgerðarinnar er ástandið alltaf helmingi verra en það var áður en maður byrjaði. Svo ég er haldin streitu og bý eins og villimaður. En er þá ekki hægt að útrýma streitu með því að vera bara duglegur og láta aldrei neitt bíða til morguns? Eru bara letihaugar haldnir streitu? Er ég letihaugur? *bíp, bíp, bíp* (haus hefur brætt úr sér, sem leysir streituvandamálið tímabundið)
Ég er uppá Hlöðu að læra, en þegar ég var að keyra hingað í morgun varð ég vitni að svakalega merkilegum hlut. Bílaballett. Magnað fyrirbæri. Ég var að keyra Miklubrautina, komin á miðakreinina svo ég þyrfti nú ekkert að færa mig til alla leiðina (kona við stýrið) og var stopp á ljósum, frekar aftarlega í ágætis sultu af bílum, þegar það kom sjúkrabíll með allt blikkandi og vælandi að vinstri akreininni og þurfti að komast. Ég var persónulega ekki fyrir en panikaði samt til öryggis. Hélt samt að hann væri ekkert að fara að komast framhjá þar sem það var fullt af bílum fyrir sem ég gat ekki séð hvert ættu að víkja. Nema hvað, að á ca 5 sekúndum tæmdist vinstri akreinin á mjög dularfullan hátt sem ég skil ekki ennþá og enginn klessti á neinn. Loksins þegar maður heldur að maður sé farinn að þekkja þessa landa sína koma þeir manni á óvart. Hver vissi að tillitsemi væri til í umferðarorðaforða Reykvíkinga? Ekki ég...

þriðjudagur, júní 08, 2004

Ég skaust út fyrir endimörk hins byggilega heims um helgina, til útnárans Bakkafjarðar, sem var reyndar langt frá því eins leiðinlegt og það hljómar. Þar rifjaði ég upp skemmtilegheit æskunnar, litaði hárið á ömmu, gerði hetjulega aðför að ruslaskápnum, fór í fjárhúsin, varpið, og meira að segja í sjóstangaveiði á sjómannadaginn þar sem ég rifjaði upp af hverju mér finnst ógeðslegt að veiða. Þetta lifir alveg tímunum saman eftir að öll innyfli eru tekin úr því, ég held því fram að þorskur sé andsetinn... Veganism, here I come! Þetta er samt ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að þetta var allt afrekað á einum sólarhring, en þá urðum við að snúa aftur þar sem það tekur ár og daga að komast til borgarinnar. En kjarni málsins sumsé þessi: Það var svaka gaman í sveitinni, borðaði fullt af brúntertu og rifjaði upp hvernig hreint loft lyktar. Vííííííí...

mánudagur, maí 31, 2004

Sá í dag fjórðu nöktu manneskjuna í vinnunni minni á einni viku. Hvernig gerist þetta eiginlega? (Þarna er ég auðvitað ekki að telja með konurnar í kvennaklefanum...). Hrikalegt að fólk skuli ekki geta haldið sig í spjörunum nálægt mér, spurning um að hafa smá sjálfstjórn :p
Annars er ég frekar ánægð með að fólk skuli vera svona ófeimið, skil aldrei hvað er svona mikið tabú við að vera ber. Hvað sem það er tekst manni hvort eð er ekki að klæða það af sér eins vel og maður heldur. Áfram strípalingar!!! (Gamli Þjóðverjinn á bibbanum var samt næstum of mikið fyrir mig, meira að segja ég er ekki svo líbó.)
Ég fór að sjá the Day after Tomorrow í gær, skondin tilraun til að gera veðurfræðinga töff. Mistókst. Mér finnst nóg rok hér, þarf ekki að fara í bíó til að sjá hvernig það virkar, fannst ég samt verða að fara fyrst einhver aumingjans maður hafði fyrir því að teikna upp Hallgrímskirkju hálfgrafna í slabbi.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Ég er að fara í svaka skvísupartý á laugardaginn hjá Hrefnu minni, hún ætlar að halda ungfrú Ísland partý með bleiku þema. Við ætlum allar að æfa okkur að brosa gegnum tárin og glósa fyrir þátttöku okkar á næsta ári. Mjög nauðsynlegt.
Annars hef ég nú ekki miklu að deila með þjóðinni, ég er bara á fullu að þjálfa Lilju og það gengur alveg glimrandi, er svo að skrifa skýrslu um það og læra fyrir prófið sem ég tek 12. júní. Svo þarf ég bara að sækja um aðstöðu til að þjálfa í Klassanum og krossa putta. Ef ég fæ hana er ég vel sett, get þá allavega æft mig og fest það í hausnum sem ég var að læra. Maður verður finnst mér nefnilega að æfa sig strax, annars er þetta farið um leið... Svo allir sem hafa putta á lausu til að krossa þá með mér mega það gjarnan.

mánudagur, maí 24, 2004

Ég var í sakleysi mínu í vinnunni í gær að spjalla um nýliðna árshátíð við samstarfsmann minn þegar hann, seinna studdur af einu stykki þjálfara, skyndilega ákvað að eyðileggja litlu veröldina sem ég er búin að vinna hörðum höndum við að byggja upp. (Sjálfsblekking er æði, það er mitt mottó). Hann var semsagt að yfirheyra mig eitthvað um karlamál mín þetta umrædda kvöld og ég sagði að það hefði nú ekki verið mikil gróska í þeim málum þar sem ég sé nýbúin að komast að því að ég nenni ekki strákum sem drekki mikið og því sé ekki skynsamlegt fyrir mig að vera mikið með radarinn á lofti í bænum um nætur. Hann horfði á mig, ranghvolfdi augunum og sagðist sko eiga vinkonu sem væri nákvæmlega ,,sama týpa" og ég, með eins rödd og allt. Þjálfarinn var ekki lengi að samsinna þessu, hann á víst líka vinkonu sem er ,,alveg eins" og ég! Ég sem hélt að ég væri einstök í yndisleik mínum... Frekar mikil vonbrigði að komast að því að ég er ein af fjölmörgum teprum og snobburum sem, undarlegt nokk, virðumst allar tala með sömu rödd. Ó mæ...

laugardagur, maí 22, 2004

Ég held ég sé búin að ákveða að taka mér ársfrí frá verkfræðinni. Þetta orðalag lýsti mér reyndar ágætlega, ég held ég sé búin að ákveða... Get ekki fyrir mitt litla líf tekið ákvarðanir og þar sem mamma er búin að bíta í sig einhverja vitleysu um að ég eigi að lifa sjálfstæðu lífi og taka eigin ákvarðanir (fuss) held ég að úllen dúllen doff fari að verða viðurkennd leið til að taka stórar ákvarðanir í tilveru minni. Mjög efnilegt. Þetta er alltof mikið álag...
Langar semsagt núna að vinna fram að áramótum ca og stinga svo jafnvel af úr landi, fara í dansskóla helst, eða læra eitthvað mál, bara gera eitthvað! Sendi fullt af ímeilum í fullt af skólum áðan að biðja um upplýsingar. Ég nenni nefnilega ekki að lesa þúsund vefsíður og stagla mig í gegnum lýsingar um námskeið á hinum og þessum tungumálum svo ég bjó bara til eitt bréf sem ég sendi á öll vefföng sem ég fann tengd dansi og dansskólum. Ætla bara að láta forlögin ráða þessu og vona að sá skóli sem mér er ætlað að fara í svari mér bara og segi mér að mæta. Það er, geri það sem mamma neitar að gera og taki ákvörðunina fyrir mig. Bjartsýnin ríkir í Unnarborg as per usual.

föstudagur, maí 14, 2004

Nú er bara árshátíð í Klassanum annað kvöld, svaka stuð, afgreiðslan full af megrunarbjór (hvern hefði grunað það...) og allir í góðum gír. Góð mæting, líklega um 150 manns, verður grill og júróvissjón gerð góð skil. Ég ætla auðvitað að vera fyrirhyggjusöm og koma mér í gott form fyrir árshátíð, ætla að vakna 6 í fyrramálið til að taka æfingu fyrir skyndihjálparnámskeiðið, þá verð ég örugglega orðin mjó og sæt fyrir kvöldið sko. Sem er mjög gott. Lilja er svo búin að samþykkja að reyna að mála á mig andlit í tilefni dagsins. Sem er líka gott.
Annars er ég niðri í baðstofu núna, það er ekkert búið að vera að gera svo ég og Bylgja erum búnar að vera að tapa okkur, hvor í sínu horni, bein símalína milli afgreiðslu og baðstofu, agalega patent, við erum semsagt ekki búnar að vera mjög afkastamiklir starfskraftar... Nema kannski áðan, þá tókst mér að fá það í gegn að láta prenta alla árshátíðarmiðana okkar aftur því það var málfræðivilla á þeim. Ég er smámunasamasta dýr í heimi, það er nokkuð ljóst.
Eftir árshátíðina verður haldið á Nasa, vona að sem flestir verði í bænum því nú á að gera þetta almennilega og dansa af sér allan megrunabjórinn!!!

miðvikudagur, maí 12, 2004

Ég hlýt að vera versti línuskautari í heiminum ef tekið er hlutfall tíma sem línuskautar eru í eigu manns miðað við getu á þeim. Ég er búin að eiga mína í átta ár. Ég get ekki verið svo langt frá grasinu að ég geti ekki hent mér á það í neyðartilfellum og ég faðma ennþá ca. þriðja hvern ljósastaur. See my point? Held að ástæðan fyrir þessu sé sú sama og fyrir því hvað ég er alltaf léleg á skíðum og ísskautum. Ég er svo svakaleg skræfa... Fer alltaf jafn hægt, með rassinn eins langt út í loftið og ég kem honum, baðandi út öllum öngum með skelfingarsvip (sjáið þetta fyrir ykkur? Jabb, einmitt, nú vitið þið af hverju ég stunda þetta áhugamál mitt ein og eftir miðnætti). Ég er ekkert voðalega þokkafullur skautari, en ég fann samt í gær eina íþrótt sem ég lít skelfilegar út þegar ég stunda; ólympískar lyftingar! Ójá, ég lærði svoleiðis í gær, á háannatíma í Laugum, mér fannst ég reyndar svolítið hipp og kúl svo lengi sem ég horfði ekki á lóðin sem ég var með á stönginni. Strákarnir hlóðu öllu sem hönd á festi á sínar stangir en á mína setti ég lóð sem gætu svona eftir á að hyggja líka hafa verið seríos hringir... En hvað um það, ég gerði mitt besta og þar sem það var skelfilega lélegt sé ég fram á að þurfa að æfa þetta alveg helling. Verð að finna leið til að komast ein inn í Laugar eftir miðnætti, gæti þá reynt að sameina þessi leynilegu áhugamál mín. Eða er kannski varasamt að stunda línuskautun á hlaupabretti?

laugardagur, maí 08, 2004

Jæja, þá er það að verða nokkuð ljóst að ég er ekki að fara að gera neitt stórkostlega hluti í þessu prófi á morgun... Þetta hlýtur að vera samhengislausasta og verst skipulagða námsefni sem ég hef nokkurn tímann komist í kynni við, arkitektar eru ekki uppáhalds stéttin mín í dag. (Vá hvað mér finnst ég orðin stór þegar ég er búin að mynda mér skoðun á arkitektum sem starfsstétt, magnað yfir hverju maður getur nöldrað þegar maður er skriðinn yfir tvítugt.) Þetta þýðir nú samt að á morgun verð ég búin í háskólanum þessa önnina, vei! Og ætla líklega bara að skella mér útá lífið í tilefni þess, langt síðan ég hef dansað lítinn dans og hneykslast á drykkjumenningu landans og því að strákar sem eiga ekkert í mig drekki í sig kjark og leggi til atlögu, tímasóun beggja aðila þar sem ég er auðvitað yfir þetta pakk hafin. Vá hvað það er gaman að vera viðbjóðslega hrokafullur asni, ný stefna: Pollýönnu attitudið er hérmeð grafið og Kári Stef grafinn upp úr sálafylgsnum mínum. Tada, ég kynni: Unnur Stef! (Vantar samt handfrjálsa búnaðinn, hlýt að geta föndrað hann úr gamla vasadiskóinu mínu og smá vír úr bílskúrnum, ekkert sem segir að hann þurfi að virka...)

sunnudagur, maí 02, 2004

Mikið finnst mér alltaf leiðinlegt að heyra fullorðið fólk segja kjánalega hluti. Ég var í fjölskylduboði í gær, sit og gúffa í mig osta og vínber og á mér einskis ills von þegar konurnar á staðnum fara að tala um kvenkyns yfirmenn, hvað þeir séu nú vonlaus dýrategund og ekki hægt að vinna með þessu pakki. Það sé auðvitað bara ein ástæða fyrir að þær fá yfirmannastöður til að byrja með og það sé að þær fari í stutt pils og dilli stélinu framan í gömlu karlana sem ráða, tali ekki svo við þá nema þær séu alveg með andlitið ofaní þeim og helst sitjandi í fanginu á þeim.
WHAT??? Ertu ekki að grínast? Það er ekkert skrýtið að konur eigi ennþá svolítið í land að fá algert jafnrétti á vinnumarkaði þegar hinar konurnar eru allar að tapa sér úr óöryggi og afbrýðisemi og geta ekki fyrir sitt litla líf hugsað sér að viðurkenna að einhver af þeirra kynslóð hafi ákveðið að eignast ekki sjö börn heldur einbeita sér að menntun og starfsframa og eigi það kannski bara skilið að vera yfirmaður. Sem ég er alls ekki að segja að sé eitthvað göfugra en hitt, en það er eins og það ógni kynsystrum þeirra svona líka svakalega. Ég gat nú ekki á mér setið og lét út úr mér eitthvað þess efnis að það væri nú möguleiki að þær hefðu unnið fyrir stöðu sinni í samfélaginu. Mistök. Miiistök. Þær horfðu á mig í smástund, það kom vandræðaleg þögn, og svo héldu þær áfram eins og ekkert hefði í skorist og reyndu að láta eins og ég hefði aldrei gert hlé á ostaátinu. Sem ég gerði heldur ekki það sem eftir lifði kvölds.

föstudagur, apríl 30, 2004

Nú er allt að gerast í Víkinni en ekkert í bænum. Ég er föst í bænum. Ef einhver góðhjartaður vill taka mig að sér um helgina, jafnvel fóðra mig á lélegu amerísku skemmtiefni og/eða lélegum amerískum mat er það vel þegið. Einnig mega þeir sem sjá sér fært að skrifa ritgerð á háskólastigi um sorphirðu og endurvinnslu gefa sig fram sem fyrst. Takk fyrir.

mánudagur, apríl 26, 2004

Ég skellti mér til Selfoss með fjölskyldunni á laugardaginn þar sem við mamma misstum stjórn á okkur í fyrrverandi KÁ, skemmtum okkur konunglega við að skoða kaupfélagsnærur, kaupfélagssokka og allskonar kaupfélagsdúllerí. Hoppuðum um allt kaupandi bláa netasokka og kjarnorkugræna nælonsokka, ég elska kaupfélög! En Selfyssingum var greinilega ekki skemmt og hafa kallað út aðstoð við að ná vitleysingunum út því fljótlega birtust tvö kjarnakvendi, vopnuð barni og bíl, og ég vissi ekki fyrr en ég var með munninn fullan af subbi úr pylsuvagninum, syngjandi með Anastasiu og komin hálfa leið til Víkur. Það er hættulegt að vera á Selfossi.
Í Vík var ég hneppt í þrældóm og látin vaska upp margra vikna virði af leirtaui gísltaka minna. Fékk að vísu að syngja með öllum gömlu júróvissjón lögunum okkar á meðan svo ég slapp tiltölulega heil á sál og líkama og vil ég þakka þeim Sókratesi, Nínu, Kareni og Sóley kærlega fyrir stuðninginn. Eftir fullt af grillmat var mér breytt í svaka skutlu og látin fá bjór. Í dós. Ekkert glas. Þetta sveitapakk. Nýjasti Stjórnardiskurinn var settur í og svo átti að drekka þar til hann yrði skemmtilegur. Fjórum tímum seinna gáfumst við upp á því og skelltum okkur bara á ball, þar var mikið dansað við marga gamla sveitapésa sem hræddu borgar-mig alveg svoleiðis að ég var mestan hluta kvöldsins á kvennaklóinu, örugg fyrir mönnum sem vildu segja mér að þeir kysu framsókn og læsu ekkert nema sauðfjárbækur. En þegar samkoman svo leystist upp enduðu allir einhvernveginn í húsi gísltaka minna og fóru þar fram líflegar stjórnmálaumræður fram eftir morgni. Eins og allir vita slökknar á mér um þrjúleytið svo ég lá og horfði á kettlingana (mússí) og beið eftir að vasapelaliðið yfirgæfi svæðið, fyrir utan það að fullt fólk að ræða stjórnmál er mesta tímasóun í sögunni, enginn hlustar á neinn nema sjálfan sig og rifist fram í rauðan (áfengis)dauðann. Svo fékk ég að fara að lúlla.
Daginn eftir borðaði ég svo óhollt að mér verður illt í bumbunni við tilhugsunina, var marineruð í heitum potti, notuð í auglýsingaskyni, yfirgefin vegna fundarhalda og svo skilað heim. Takk fyrir mig :)

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Hvað í ósköpunum var ég eiginlega að hugsa þegar ég lofaði að vera mætt á æfingu klukkan 6:30 í fyrramálið??? Ég er búin að vakna fimm alla vikuna og nú gafst mér tækifæri á að sofa til sjö og ég fórnaði því á altari fitubrennslunnar og fegurðarinnar. Æ hvað ég á bágt. Hef enga trú á að það sé hægt að vera nógu orkumikill á þessum ókristilega tíma til að sprikla neitt af viti svo ég spurði næringarfræðikennarann áðan hvort það virkaði að næla sér í orkuna í kvöld og sofa á henni til morguns, því ekki get ég farið að gúffa í mig morgunmat rétt fyrir hopp og hí. Það er bara ávísun á gubb. (Svo vil ég hafa bumbuna í lágmarki þegar ég spóka mig fyrir framan alla þessa spegla í salnum, annars væri ég vís til að grípa til örþrifaráða eins og henda mér niður úr efsta rimli eða hlaupa á meira en 5 km hraða á klst. Sem er auðvitað stórvarasamt). En það er semsagt víst hægt að safna orkunni kvöldið áður svo ég kom heim og stóð á beit í klukkutíma, svona til öryggis. Ég er hetja.

föstudagur, apríl 16, 2004

Ég gerði þau mistök í gær að monta mig af því að ég væri nú bara næstum farin að kunna frekar vel við tölvur og átta mig á að þær hötuðu mig ekki persónulega, ég hefði bara aldrei kunnað að tala við þær. Já, það er bara rugl, þær hata mig víst og ég hata þær alveg helling og þar við situr. Húsið mitt hvarf, birtist aftur og nú vill það ekki gera það sem ég segi því að gera. Það hatar mig. Foj.

sunnudagur, apríl 11, 2004

Gleðilega hátíð páskaungarnir mínir! Ég vona að þið hámið í ykkur súkkulaði í allan dag með góðri samvisku og ráðið mig svo í sumar ;) *Sakleysislegt raul* dúllídúll...

laugardagur, apríl 10, 2004

Oh, ég á nákvæmlega enga þolinmæði eftir! Ég er að setja húsið mitt í þrívídd og það gengur fínt fyrir utan nokkur pínulítil smáatriði sem vilja bara ekki virka og það er að gera mig alveg klikk!!! Svo er ég líka með vírus í berkjunum og hósta stanslaust þurrum gamalmennahósta og það er að gera alla hina í Tæknigarði klikk... :)
Ég er búin að ákveða að fara í viku til Lilju og co á Spáni, vei! Svo kemur Ásla á mánudaginn, sem bindur tímabundið enda á "Áslu heim" baráttuna mína og öllum sem studdu hana hérmeð þakkað (söfnunarbaukum má ennþá skila). Mikil hamingja!
Annars er ég búin að vera andlausasti bloggari í heimi síðustu daga og er enn, þetta er svona málamyndafærsla til að tefja tímann sem ég hef til að koma með alvörufærslu. Ég er svo dipló.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Mætti í vinnuna í gær klukkan 6 og það er betri vinnutími en ég áttaði mig á, maður er bara búinn að vinna fullan 8 tíma vinnudag klukkan 14 og þá er allur dagurinn eftir :) Vei!
Ég er komin í svo svakalegt sumarskap að það ætti að vera bannað á þessum árstíma, svo var verið að bjóða mér gistingu í viku í júní í húsi í Torrevieja og vonin um viku á Spáni gerði ekkert nema auka á árstíðavilluna mína. Ætti maður að skella sér með? Flugið kostar 30 þús fram og til baka, sem er nú ekkert voðalegt. Hmm... El verano ya llegó, ya llegó, ya llegó... :)

sunnudagur, mars 21, 2004

Ég sá Evróvisjón lagið okkar þetta árið frumflutt í gær (já, ég horfði á Gísla Martein, en það var óvart!) og ég var pínulítið vonsvikin. Ég var búin að sjá Jónsa svartklædda fyrir mér í svakalegu stuði að heilla alla Evróvisjón hommana uppúr skónum, en hann fær bara að syngja einhverja ógó væmna ballöðuklisju, með versta texta sem ég hef nokkurn tímann heyrt (ég hef Birgittu Haukdal sterklega grunaða um að vera höfundur hans). Hann er auðvitað á ensku en svo greinilega saminn af manneskju sem á ekki ensku sem móðurmál og Jónsi er það af leiðandi allan tímann æðislega "blue" og that´s about it bara. Minnir svolítið á týnda erindið úr hinu klassíska leikskólalagi "allt sem er rautt, rautt, finnst mér vera fallegt, fyrir vin minn litla indíánann"...

Þá er maður enn á ný í blessaðri baðstofunni að bora í nefið. Þema þessarar helgar held ég að sé samt át, mér var boðið í æðislegan mat bæði föstudag og laugardag og er að fara í enn eina fóðrunina á eftir. Sem er ekki alveg í stíl við fegrunina sem á að vera í gangi en einhverra hluta vegna er fólk að finna hjá sér þörf til að útvega mér næringu þessa dagana, og ekki kvarta ég! Á föstudaginn fór ég líka í ljós í boði Lilju (í fyrsta skipti síðan um fermingu held ég... eða svo gott sem) og brann á óæðri endanum fyrir vikið. Get nú ekki sagt að það hafi verið neitt sérstaklega gott fyrir kúlið en samt mjög dæmigert fyrir Unnsu :) (Mér líður betur í botninum núna ef þið voruð áhyggjufull...). Á eftir dró Guðrún Víkurmær mig í teiti hjá Jóni Erni sem var mjög ánægjulegt og þakka ég hérmeð fyrir mig. Þar var ríkulega veitt af mati og drykk en þegar í bæinn var komið gufaði gestgjafinn hinsvegar upp á afskaplega dularfullan hátt. Hmm... Við Guðrún gerðum samt okkar besta til að mála bæinn rauðan en fundum einhvern veginn bara engan stað sem var að spila almennilega tónlist nema Nelly´s, sem var að spila frábæra ´85 hallærispésatónlist. Þar hefðum við örugglega getað misst okkur í tvistinu mjög lengi ef ekki hefði verið fyrir alla veiklulegu gaukana sem rifu sig úr að ofan og fóru að nudda sér utan í okkur. Þá röltum við nú bara heim á leið enda of sómakærar stúlkur og vandar að virðingu okkar til að láta hafa okkur útí svoleiðis dónaskap á dansgólfinu.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Vá, það er allt of snemmt fyrir nátthrafn eins og mig að vakna svona klukkan sex á morgnana, nú er klukkan ekki nema rúmlega átta og ég er samt alveg að leka niður í vinnunni... Ég er samt í baðstofunni svo það er nánast ekkert sem ég þarf að gera nema brosa, rétta fólki handklæði og ausa vatni á grjót á klukkutíma fresti. Svo ég er alveg að sofna, zzz... Svo er auðvitað enginn mættur á msn á þessum ókristilega tíma til að skemmta manni og ég hef mjög takmarkað þol fyrir lestri kvennatímarita, eftir tvö/þrjú langar mig bara ekkert að vita hvort Jordan og Peter Andre séu alvöru par eða bara athyglissjúk og ef Jennifer Aniston lætur Brad Pitt barna sig sé ég ekki alveg hvar ég kem inn í dæmið...

miðvikudagur, mars 10, 2004

Úff, ég ætlaði aldrei að ná að losa mig við þessi spurningamerki, ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ástæðan fyrir því hversu illa mér gengur í tölvumálum væri að ég skildi ekki tölvuna en nú virðist mér hún eiga í svipuðum vandræðum með mig... Sem er léttir, ég er þá allavega flóknari en ég gaf mér kredit fyrir.
Ég er í tölvustofunni og á að vera að gera teikningu af húsinu mínu í vektor works en Unnsa álfur gleymdi grunnteikningunum heima svo nú er ég bara að drepa tímann fram að vinnu. Svaka stuð.
Er að fara á eftir að sækja um vinnu fyrir sumarið, ég veit ekkert hvað ég get fengið mikla vinnu í World Class í sumar eða hvar ég á annað borð verð í heiminum svo ég ætla bara að sækja um fullt og vona að ég fái eitthvað.
Já, og ég er hætt að dansa við strákinn sem ég var að dansa við (surprise, surprise...) svo ég er að leita að nýjum ef einhver af ykkur er búinn að vera að leyna mig skuggalegri fortíð í dansi.
Annars kemur það í ljós á eftir hvort ég er ekki bara að fara að gera soldið skemmtilegt í vor (og svaaakalega fyndið) sem ég segi frá um leið og það er ákveðið. Ég veit allavega um eitt stykki wannabe Svía sem á eftir að gráta af hlátri :)

mánudagur, mars 08, 2004

Þá er ég víst búin að halda goggi ansi lengi hérna, og get ekki einu sinni sagt að það sé sökum anna því það er eiginlega búið að vera óvenju lítið að gera uppá síðkastið. Ég virka bara ekki ef það er ekkert álag, þá fer ég beint í letigírinn. Ég er reyndar búin að eyða miklum tíma með höfuðið í bleyti, er að reyna að ákveða hvað ég á að gera í sumar, hvort ég á að vera heima eða stinga af út og hvert út þá, hvað ég á að gera næsta vetur, verkfræðihlé eða ekki verkfræðihlé... Hjálp!!! Ef einhver er tilbúinn að taka af skarið og taka þessar ákvarðanir fyrir mína hönd er það meira en velkomið og ég bendi á kommentakerfið.
En nýjustu fréttir:
a) Fór á árshátíð verkfræðinema á Hótel Örk, sem var fínt, strákar að dansa eighties eru alltaf sniðugir, komst samt að því að strákar eru kjánar (fékk veiðilínuna "Volvóinn minn jafnast ekkert á við þig", úff...) og endaði á að elta stelpurnar allt kvöldið, sem var mjög skemmtilegt.
b) Vann voða mikið í klassinu svo tærnar mínar eru í uppnámi í augnablikinu eftir óhóflegar stöður bakvið afgreiðsluborð.
c) Fór í matarboð sem lukkaðist fínt og ég þakka gestgjöfum og öðrum viðstöddum hérmeð kærlega fyrir mig, skemmtilegt kvöld :)
d) Fór líka í bíó að sjá American Splendor, sem ég vissi ekkert um þegar ég mætti á svæðið en komst að því að hún er algjör snilld! Fékk líka smá tækifæri til að spjalla við hana Möggu mína sem var mjög nauðsynlegt.
e) Hm, var að tala við Hrefnu meðan ég ritaði þetta og hún er að reyna að plata mig með sér í dansskóla í Danmörku... Athyglisvert... Ég er alveg ringluð... :s
f) Er ég ekki skipulögð?! :)

mánudagur, febrúar 23, 2004

Síðustu vikur er ég búin að komast að því að næstum allur vinahópurinn minn er búinn að kúldrast í skápnum alla sína hunds og kattartíð en virðist líka allur tilbúinn að koma út úr honum núna, enda nóg komið. Þá er ég ekki að tala um þennan klassíska skáp þeirra sem girnast eigið kyn (enda væri það ekkert merkilegt þar sem stór hluti vina minna er löngu kominn útúr þeim lúna skáp, orðið frekar þreytt mál) heldur dansskápinn, þéttsetnari mublu en mig hefði nokkurn tímann grunað. Og nú vilja þessi ungu dansfífl með sínar blöðrulausu tær endilega að ég kenni þeim að dansa, ég er að fá fyrirspurnir úr ólíklegustu áttum, sem er mjög skemmtilegt (alltaf gaman að vera vinsæll) en ég þarf að leggja höfuðið ansi vel í bleyti ef ég á að geta gert eitthvað úr þessu máli þar sem ég er ryðgaðri en fólk virðist gera sér grein fyrir. (Þá er ég að tala um samkvæmisdansa, hin tegundin af dansfíflunum er að fá útrás nú þegar). Ég er að vinna í að leysa þetta mál, veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í því en það er semsagt í vinnslu... Vil endilega fá þessar elskur til að dansa með mér, það er ekkert skemmtilegra til, en þarf að reyna að finna leið til að búa til svona "allir dansa saman" aðstæður frekar en "Unnur kennir öllum að dansa" aðstæður því ég er bara of mikið kjánaprik í þessarri deild þessa dagana til að geta það :) Ég er nú samt ferlega ánægð með ykkur sko!!! (Þau fáu ykkar sem aksjúalli lesa þessa síðu... hmm, oh well, hringi í rest...)

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Vá, ég var að koma af æfingu og ég er ekkert smá glöð. Það er örugglega mjög smáborgaralegt að gleðjast yfir svona en ég ætla að gera það engu að síður. Með okkur á æfingu voru semsagt núverandi heimsmeistarar í samkvæmisdönsum og þau voru svooo flott, það var magnað! Að vísu fengu þau mann til að sjá alla sína eigin galla í tíunda veldi og ég varð á mettíma feit, skakklöppuð og afskaplega taktlaus en það var alveg þess virði, flott að sjá par hafa svo gaman af því sem það gerir að það næstum fellur bara í trans og tekur ekki eftir neinu í umhverfinu nema hvoru öðru. Tvímælalaust besta æfing sem ég hef farið á lengi :)

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Annað fólk skilur engan veginn af hverju mér er svona gasalega illa við að fara til tannlæknis. Alltaf þegar ég fer gerast kjánalegir hlutir (svolítið eins og hjá Phoebe, mínus dauðsföllin...) og heimsókn mín þangað í morgun er lýsandi dæmi. Þegar ég kem til að láta föndra svolítið er það fyrsta sem ég heyri tannlækninn minn segja við klínikdömuna að hún sé orðin svo lasin að hún sjái varla lengur, hvað þá standi í lappirnar, og hún verði að afpanta alla tíma það sem eftir sé dagsins. Nema minn!!! Jibbí. Ég fékk að sitja með opinn gúlann á meðan hálfmeðvitundarlaus tannsi reyndi að greina milli tannanna á mér gegnum flensumóðuna. Ég skelf ennþá...

Við Sófus

Ég á í mjög uppbyggjandi og gagnlegu sambandi við sófa. Alltaf þegar ég þarf að hugsa um tilgang lífsins og vinna úr hinum og þessum kvíðaköstum leggst ég á sófann hennar Lilju, skýt þar rótum í minnst hálfan sólarhring í einu, missi yfirleitt meðvitund allavega einu sinni í hvert skipti og kem út betri manneskja. Svo það er greinilega rétt hjá amerísku bíómyndunum að það sé geðheilsunni í hag að fara til sálfræðings reglulega, liggja þar á sófa og láta leysa úr krísunum, eini misskilningurinn virðist samkvæmt mínum rannsóknum vera að sálfræðingurinn sé mikilvægur hluti jöfnunnar, sófinn gerir greinilega sitt gagn algerlega án hans. Allavega þessi umræddi sófi, langaði bara að mæla með þessu svona þegar skammdegisþunglyndið er að ná hámarki... Allir í sófann!

laugardagur, febrúar 14, 2004

Þá er ég komin í skólann á laugardags,,morgni" til að gera verkefni í hinum afskaplega slappa áfanga ,,verkfræðingurinn og umhverfið". Rétt náði að toga mig fram úr rúminu eftir tveggja tíma svefn (magapest, foj) og hvað bíður mín svo þegar ég kem hingað, slöpp og sveltandi (með serios í poka, alltaf bjartsýn...) ? Jú, verkefnafélagi sem er of upptekinn við að skrifa pennavini sínum í Svíþjóð til að læra nokkurn skapaðan hlut. Ég er ekki sátt.

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

R.I.P rúðuþurrkur...

Ég sit hér á Reykjalundi í básnum hennar mömmu (samviskusamlega skreyttum vitnisburðum um öll afrek mín í gegnum tíðina auðvitað) og bíð eftir rúðuþurrkuviðgerðamanninum (a.k.a. pabbi). Það er alltaf afskaplega fræðandi að koma hingað, skil ekkert í því af hverju "the Office" er að vekja svona mikla athygli þessa dagana þegar hér er alvöru skrifstofa með mikið athyglisverðara dýralífi. Ég geng allavega alltaf hressari héðan en ég kom og það verður nú ekki sagt um margar skrifstofur, venjulega fær maður kaldan svita og athyglisbrest við það eitt að stíga inn á þær. Stelpur eru sniðugar!

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Hvar eru lærin mín?

Fór í fyrsta skipti að æfa í World Class í morgun, í Spöngina til Hrefnu og það var æðislegt alveg, svaka fín stemmning hjá þeim. Eini gallinn er að ég virðist hafa týnt lærunum mínum þar... Það er þó ekki svo gott að þau hafi minnkað, ég sé þau alveg ef ég lít niður, þau virðast bara hafa misst tengslin við afganginn af líkamanum, ég finn ekkert fyrir þeim og þau virka ekki undir álagi, hrundi næstum á hausinn í danstíma áðan þegar annað þeirra skyndilega gaf sig... Sem er hreint ekki mjög pent eða dömulegt á að horfa.
Annars virðist líf mitt fara fram að miklum hluta til fyrir framan spegla þessa dagana, í World Class og dansinum, sem hefur leitt til skyndiheilsuátaks.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Kannski kominn tími á að láta vita af sér? Jæja, ég er búin að vera afskaplega upptekin, byrjaði að vinna í World Class sem er frekar tímafrekt alltsaman, en ekkert á við danskennsluna fyrir Skeljung, það var nú mesta tímaryksuga sem ég hef komist í kynni við! Ef það hefði ekki verið svona svakalega gaman væri ég örugglega pirruð yfir öllum tímunum sem fóru í að semja þetta og kenna, en þetta var alveg æðislegt alltsaman, gott fólk sem gaf sig allt í þetta og ég er mjög fegin að hafa tekið þetta að mér :) Endaði svo allt með árshátíð á föstudaginn með tilheyrandi spennufalli og kvíðaköstum, svaka stuð! Skeljungarnir mínir stóðu sig svona líka eins og hetjur og eyddu kvöldinu í að þiggja drykki og hrós frá þakklátum starfsfélögum á meðan ég eyddi minni orku að mestu í að passa að hlýralausi kjóllinn minn héldist upp um mig (sem hann gerði að mestu, rúmba er hættuleg!). Einn af Skeljungunum reyndist vera samkvæmisdansari inni við beinið svo nú á að taka fram dansskóna og fara að æfa svoleiðis aftur, sem er einmitt það skemmtilegasta sem ég geri svo ég er voða spennt :) Skólann stunda ég svo milli mála... Skeljungarnir hvöttu mig svo til að hafa danstíma áfram fyrir starfsfólkið þar, held það hafi átt að byrja skráningu í dag og ég vona bara að einhver skrái sig, þetta er ekkert smá skemmtilegt alltsaman og magnað hvað smá hopp og dill gefur fólki mikið (myself included).
Að lokum langar mig að segja að þið sem haldið því alltaf fram að ég hljóti að vera dauð þegar ég blogga ekki eruð ekkert að hafa fyrir því að hringja og tékka á mér (ha, Gunni!!!) svo ég fer að verða pínu sár... ;)

laugardagur, janúar 24, 2004

Ég er enn á lífi og meira að segja bara frekar vel haldin, svo þið getið hætt að hafa áhyggjur. Ég er bara í fullu háskólanámi, tveimur vinnum og byrjuð að dansa aftur svo það er ekki neitt svakalega mikill tími til skrásetningar þessa dagana! Ég skal skrifa meira einhvern næstu daga, nú þarf ég að teikna hús...

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna :)
Ég eyddi áramótunum í Víkinni og sé sko ekki eftir því, það var voða gaman. Að vísu missti ég af áramótamatnum hennar ömmu (sem er alls ekki smá fórn að færa!) en fékk í staðinn að vera tökubarn foreldra Ásu og borðaði áramótamatinn hjá þeim. Hann var auðvitað algert sælgæti, forréttur, tvíréttað í aðalrétt og svo var víst eftirmatur á dagskrá en það var einróma samþykkt að slúffa honum blessuðum af ástæðum augljósum öllum þeim sem borðað hafa á þessu heimili! Ég gat bókstaflega ekki staðið upp og missti þessvegna af brennunni :) Sem betur fer var Fjalar í sama ástandi sem gerði það mikið skárra að líða eins og Bangsímon og komast ekki út úr holunni sinni vegna ofáts, við horfðum á innlenda fréttaannálinn og erum þess miklu fróðari fyrir vikið.
Skaupið fannst mér alls ekki eins slæmt og öllum öðrum virðist hafa fundist það, kannski svolítið slappt en ég flissaði helling og það nægði mér. Svo komu áramótin og mér var hent út að horfa á flugeldana, en eins og flestir sem mig þekkja vita hef ég mjööög takmarkaðan áhuga á svoleiðis löguðu. Þetta hefði getað endað með mestu leiðindum hefði ekki minn sérdeilis prýðilegi gestgjafi Guðrún verið búin að sjá fyrir þessu, hún setti fiðrildi á hausinn á mér sem sveifluðust skemmtilega þegar ég dillaði mér. Það vita líka flestir sem mig þekkja að þótt flugeldar skemmti mér ekki þýðir það ekki að það þurfi mikið til að skemmta mér! :) Ég semsagt dillaði mér í ca klukkutíma meðan flugeldarnir komu og fóru og hafði það svo ágætt bara.
Þá var haldið á kaffihúsið góða þar sem hinn eini sanni Fjalar Hauksson hélt uppi fjörinu, þar var sungið og dansað af miklum metnaði og er talið víst að aðsókn á kaffihúsið hafi slegið við aðsókn á ball sem átti víst að vera algert ÆÐI (híhí) svo tónlistarpésarnir geta víst verið stoltir af því.
Þegar blöðrur á puttum hindruðu frekari tónlistarflutning var haldið heim til Guðrúnar þar sem fjörið hélt áfram fram til morguns, partíið hélt áfram í 5 tíma eftir að ég var komin í uglunáttfötin mín, sem er nú bara nokkuð gott!