fimmtudagur, júní 10, 2004

Skilgreining Boga líffærafræðikennara á streitu er "misræmi milli huga og handar". Samkvæmt þessu er ég haldin gífurlegri streitu. Alveg bara svakalegri. Því meðan ég er að læra fyrir prófið á laugardaginn (sem er örugglega streituvaldur útaf fyrir sig) situr herbergið mitt og bíður eftir að ég gefi mér tíma til að klára stórhreingerninguna sem ég var byrjuð á, og það vita allir sem tekið hafa til að um miðbik aðgerðarinnar er ástandið alltaf helmingi verra en það var áður en maður byrjaði. Svo ég er haldin streitu og bý eins og villimaður. En er þá ekki hægt að útrýma streitu með því að vera bara duglegur og láta aldrei neitt bíða til morguns? Eru bara letihaugar haldnir streitu? Er ég letihaugur? *bíp, bíp, bíp* (haus hefur brætt úr sér, sem leysir streituvandamálið tímabundið)
Ég er uppá Hlöðu að læra, en þegar ég var að keyra hingað í morgun varð ég vitni að svakalega merkilegum hlut. Bílaballett. Magnað fyrirbæri. Ég var að keyra Miklubrautina, komin á miðakreinina svo ég þyrfti nú ekkert að færa mig til alla leiðina (kona við stýrið) og var stopp á ljósum, frekar aftarlega í ágætis sultu af bílum, þegar það kom sjúkrabíll með allt blikkandi og vælandi að vinstri akreininni og þurfti að komast. Ég var persónulega ekki fyrir en panikaði samt til öryggis. Hélt samt að hann væri ekkert að fara að komast framhjá þar sem það var fullt af bílum fyrir sem ég gat ekki séð hvert ættu að víkja. Nema hvað, að á ca 5 sekúndum tæmdist vinstri akreinin á mjög dularfullan hátt sem ég skil ekki ennþá og enginn klessti á neinn. Loksins þegar maður heldur að maður sé farinn að þekkja þessa landa sína koma þeir manni á óvart. Hver vissi að tillitsemi væri til í umferðarorðaforða Reykvíkinga? Ekki ég...

Engin ummæli: