Það er svosem fullt í fréttum, en það er bara ekkert af því tilbúið til opinberunar á netinu eins og er, og þess vegna er ég að mestu leyti búin að halda goggi hér. Ákvað samt að henda inn nokkrum ekki-fréttum, eða fréttlingum, svo þið hélduð ekki að ég væri hætt að elska ykkur.
- Í apríl er ég á leið til Köben á árshátíð Klassans. Jei!
- Brósi er búinn að fá tvo dverghamstra, Stúf og Snúlla. Okkur var lofað í búðinni að þeir væru perluvinir og grimmilegt að aðskilja þá á sitthvort heimilið.
- Stúfur át í gær nefið á Snúlla. Stúfur hefur í refsiskyni verið gerður útlægur og býr nú í skúringafötu. Við óttuðumst að kisa myndi éta hamstragreyin en þeir eru greinilega fullfærir um það sjálfir. Samt krútt, með eða án nebba.
- Frumsýnum leikritið um miðjan febrúar, skylda að mæta, klappa, og lýsa frammistöðu minni með stórum lýsingarorðum og aðdáunar/öfundartárum í augum.
Skal koma með alvöru fréttir um leið og þær fást staðfestar allar saman. Ciao!
þriðjudagur, janúar 31, 2006
Gúrkutíð
þriðjudagur, janúar 17, 2006
Hostel
Arna bauð í bíó í fyrradag, og þakka ég fyrir það :) Myndin var Hostel, sem Roth og Tarantino komu til landsins til að kynna, og auðvitað safna frumlegum karlrembusögum fyrir spjallþætti vetrarins. Hvað þeir voru að hugsa þegar þeir ákváðu að ráðast í gerð myndarinnar get ég ekki ímyndað mér en ég vona þeirra vegna að þeir hafi annaðhvort verið rammskakkir eða blindfullir þegar þeir skrifuðu undir. Ég kann enga kvikmyndafræðifrasa til að lýsa henni, en ég held því fram að ef maður léti fjórtán ára stráka á fyrsta fylleríinu sínu fá alltof mikla peninga til að gera mynd yrði þetta útkoman.
Maður gæti slysast til að halda að Eli Roth væri þröngsýnn og fordómafullur eftir að hafa séð myndina... Allar konur í henni eru hórur með enga sjálfsvirðingu eða siðferðiskennd, eini homminn er geðsjúkur morðingi og allir sem ekki eru ameríkanar bara almennt eitthvað geðveikir eða vondir. Íslendingurinn í myndinni er fáviti, enda "útlendingur" sem veit ekki betur. Fullt af brjóstum og blóði en enginn sýnilegur tilgangur með einu eða neinu. Ég las viðtal við Roth þar sem hann sagði að hann væri að reyna að koma því til skila að hver sem er væri fær um að fremja illvirki, það byggi í öllum þörfin til að kvelja aðra, en það fannst mér hvergi skila sér í myndinni, ekki einu sinni þó ég vissi að það væri tilgangurinn fyrirfram og væri sérstaklega að leita að því.
Pant ekki selja þeim félögum fleiri sundskýlur.
Samt gaman að komast að því að maður er ekki orðinn svo gegnsýrður af Hollywood klisjum að maður sætti sig við hvað sem er.
mánudagur, janúar 09, 2006
Það vill svo til
Sko. Krakkar. Þegar ég blogga ekki í einhvern tíma þýðir það að ég er gersamlega andlaus og leiðinleg og hef ekkert að segja. Þegar þið rukkið mig um blogg í þessu ástandi verður bloggið líka andlaust og leiðinlegt og til þess fallið að breiða út þessi einkenni enn frekar til ykkar sakleysingjanna. Ég skal koma með dæmi:
Í dag byrjaði ég í hraðkúrsinum sem ég verð í þessa vikuna, áður en skólinn byrjar næsta mánudag. Það er yndislega skemmtilegur Skoti að kenna mér, hann gleymdi að vísu pilsinu sínu heima en kom með sekkjapípurnar sínar sem hann spilar víst ofsa fínt á, en það mun ég reyndar skilst mér sannreyna á morgun þegar hann hyggst gefa okkur tóndæmi. Gott og vel.
Ég er með biiilaða tannpínu en samt heldur tannlæknirinn minn því fram blákalt að ég sé með alheilbrigðar tennur. Það þýðir að ég er komin með andlega tannpínu sem er allt annað og verra mál og ekkert gefið við því skilst mér nema klapp á kollinn.
Uh. Já. Ég er farin að sofa eins og manneskja á ný eftir margra ára streð við að sofna allavega fyrir sólarupprás. Núna er ég að blogga rétt fyrir miðnætti og ég hef ekki vakað svona lengi síðan í prófunum, enda ætla ég beinustu leið í háttinn þegar ég er búin að skyldublogga. Ætli þetta sé byrjunin á tíðahvörfum? Ég er allavega farin að vakna spikk og span fyrir klukkan 6 alla morgna, vekjaraklukkulaust, sem hlýtur að teljast til kraftaverka og ég heimta að minnsta kosti titilinn Sir Unnur ef ég verð ekki bara hreinlega tekin í tölu dýrlinga. Dýr-lingur/vett-lingur, tilviljun? Ég held ekki. Sankti Unnur? Nú fæ ég eldingu í hausinn...
fimmtudagur, janúar 05, 2006
Fögur fyrirheit
Árið 2005 vann ég of mikið. Það er mér eiginlega efst í huga þegar ég hugsa til baka, sorglegt sem það nú er. Botna ekkert í því af hverju ég vann svona mikið, en er hinsvegar búin að þjást af endalausu stressi, svefnleysi og pirringi í kjölfarið, allt eitthvað sem ég kallaði yfir mig sjálf. Á næsta ári stefni ég þess vegna að því að vinna töluvert minna, allvega um sumarið, og reyna að hafa meiri tíma til að njóta þess hvað ég á góða og skemmtilega vini.
Árið 2005 var ég andleg eyðimörk. Ég skapaði ekkert sem talandi er um, fór ekki í nein skemmtileg ferðalög eða ræktaði sálartetrið á annan hátt. Þetta er annaðhvort orsök eða afleiðing vinnugeðveikinnar, get ekki ákveðið hvort það er. Á næsta ári ætla ég þess vegna að vera meira skapandi, og kem þar sterk inn strax í janúar með stórleik í litlu leikriti (fylgist með næstu Óskarsverðlaunahátíð). Ég ætla líka að koma mér út fyrir landssteinana á árinu, hvort sem það verður um sumarið eða með skiptinámi næsta haust, passinn verður allavega tekinn í notkun hvernig sem ég annars fer að því. Andlega eyðimörkin á semsagt að umbreytast í andlegan aldingarð! Eden, það er ég.
Árið 2005 var ég ekki ég sjálf. Ég týndi mér í öllu stressinu og finn mig ekki aftur. Næsta ár verður tekið í stórtækar leitaraðgerðir og tilraunir til að forðast að klifra upp á háa hestinn sem er alltaf að þvælast fyrir fótunum á mér, sérstaklega þegar ég drekk gin og tónik... Mikið vona ég að mér líki við sjálfa mig ef ég á annað borð finn mig einhversstaðar.
Þetta er í meginatriðum mitt uppgjör við sjálfa mig þessi áramótin. Ekki svo slæmt en ekki svo gott heldur. Eins og það á að vera. Gangi mér svo vel að vinna í málinu á því herrans, velkomna ári 2006.