laugardagur, apríl 29, 2006

Úpsí.

Ég er soddan kjánaprik. Hlekkurinn á myndirnar er vettlingur.myphotoalbum.com. Var að klúðra. Skjús mí.

föstudagur, apríl 28, 2006

Myndir

Var trufluð í gær og setti myndirnar ekki inn en nú eru þær komnar með útskýringum og alles á myphotoalbum.com/vettlingur. Lofa.
Svo sýnist mér verða lokasýning á "Í beinni" á laugardaginn og ég má bjóða vinum og vandamönnum, svo ef einhver hefur áhuga á að kíkja þá bara henda á mig smsi.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Örferðalagið til Köben var ofsa skemmtilegt alveg. Ótrúlega gaman að hitta loksins hana Hrefnu mína líka! Gleymdist samt að ná mynd af henni... Nenni annars ekki að skrifa um ferðina, svo hér kemur bara smá myndasería úr henni (þemað er ÉG því þetta er MÍN síða), og restina af myndunum má sjá á www.myphotoalbum.com/vettlingur. Gjössovel.

Ég er ekki fersk fyrir sjö á morgnana:
Aðrir hinsvegar eru það. Svei þeim:


Verandi frá World Class var ekkert borðað nema gras og prótein alla ferðina:

Laufey er alltaf jafn svöl á því:

Við Jóga deildum herbergi og rúmi. Mjög kósý og rómó:
Hrafnhildur var kosin ungfrú World Class:

Sigurpáll þótti hafa best skapaða stélið og Benni fegursta kroppinn. Þeir fundu hjá sér þörf til að staðfesta þá kosningu. Spes:

Arna getur hoppað hæð sína í fullum herklæðum, alveg eins og Gunnar heitinn. Gunnar átti samt líklega ekki svona fínar nærjur:

Ég nennti ekki að vera með myndavél á mér í ferðinni, þetta eru allt myndirnar hennar Láru, sem ég ætla að giftast þegar ég verð stór:

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Öðruvísi eins

Þegar ég var 10 ára og að flytja í nýtt hús með foreldrum mínum þá heyrði ég þau einn daginn ræða það hvernig grindverk þau langaði að setja í kringum nýja garðinn okkar, eitthvað víravirki með grjóthnullungum minnir mig. Þar sem ljósin okkar voru þegar úr bremsurörum úr bíl og gólfið handmálað af íbúunum í allskonar undarlegum mynstrum þá fannst mér nóg komið af undarlegheitunum, fór að skæla og spurði foreldra mína hvort við gætum aldrei gert neitt eins og venjulegt fólk bara, hvort allt þyrfti alltaf að vera skrýtið. Það held ég samt að sé í eina skiptið sem mér hefur gramist það að foreldrar mínir skulu hafa húmor fyrir því sem er öðruvísi og óhefðbundið. Ég fór að hugsa um það um daginn hvað ég er heppin að hafa alist upp við það viðhorf að það sem er framandi og öðruvísi en ég þekki það sé spennandi og áhugavert en ekki rangt og hættulegt. Ég hef nefnilega á tilfinningunni að það hafi gefið mér töluvert meira umburðarlyndi gagnvart heiminum en ég hefði annars haft, og hæfileikann til að geta allavega stundum munað að það séu tvær hliðar á málunum og mín reynsla og skoðun á hlutunum sé ekki endilega sú eina rétta. Og ég er þakklát fyrir það. Annars kynni ég sennilega ekki að meta nýju, skrýtnu sokkana mína:

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Kóngsins Kaupmannahöfn

Í fyrramálið skýst ég af stað til Köben og verð þar heilar tvær nætur ásamt 129 misfullum vinnufélögum og karókítæki. Og ég ætla að hitta Hrefnu og Siggu og Báru og Gyðu og alla hina sem ég er að gleyma en búa líka í Köben, og ég ætla í rússíbanann og kaupa skó á litla brósa og borða góðan mat og drekka Tuborg Classic og valhoppa og taka myndir.
Um næstu helgi verð ég hinsvegar með eyrnatappa í báðum að lesa fyrir próf á Hvammstanga, þar sem ég var gjössovel skikkuð í leikferð og þarf að koma fram sem Díana Sovjana Cristina Jensen í sirka bát 10 mínútur á laugardagskvöldinu. Díana hefur líka verið bókuð sem skemmtiatriði á einkasamkvæmi í bænum helgina þar á eftir. Alter-egóið mitt er vinsælla en ég, sem er ósköp sorglegt... Unnur sjálf er líka fín stelpa og velkomið að bjóða henni í samkvæmi af öllum toga. Díana smíana. Piff. Skal koma með mitt eigið handklæði og allt.
Og síðast en ekki síst: GLEÐILEGT SUMAR!!! Megum við öll sameinast um að skella treflum, húfum, vettlingum og ullarsokkum á farfuglana þegar þeir koma heim.

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Móðurástin

Þeir sem þekkja mig vita að mér finnst næstum ekkert í heiminum sætara en nýfæddir merðir, aðallega af því þeir eru með litlar, bleikar og krumpaðar bumbur eins og þessi hér:
Svo var ég á netinu að væflast áðan og rakst á þessar patta hér, og nú langar mig í grísling!!!:
Ég er sökker fyrir ljótum dýrum er mér sagt... Lái mér hver sem vill.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Brussel - rest

Brjálað að gera á öllum vígstöðvum og mér er sagt að klára ferðasöguna? Nú jæja, hér er short version:
Dagur 4: Fórum í SHAPE herstöðina í mjög skemmtilegan fyrirlestur og panel spurningasessjón með þremur sæmilega háttsettum dúddum, sem svöruðu fyndið og gáfu Evu penna með útvarpi í fyrir að koma með bestu spurninguna og Hauki fyrir að vera mesta nördið. (Hversu oft á ævinni mun NATO hershöfðingi í fullum skrúða segja við þig: "Get a life"? Magnað!). Þaðan fórum við með krúttlegt nesti frá NATO í poka (hvað er lúðalegra en að standa innan um alla hermennina í SHAPE með samloku og epli í plastpoka?) og héldum í Ráðherraráð ESB. Þar tók á móti okkur hress (og pínu fullur) ítalskur eðlisfræðingur sem talar 10 tungumál og fær hiklaust verðlaunin fyrir skemmtilegasta fyrirlesturinn. Ætlaði að taka hann með heim en hann muldraði eitthvað um fjölskyldu, ólaunað leyfi og kjarasamninga og stakk af. Um kvöldið lenti ég svo saklaus í djammi, og vil ég hér með kenna Gulla algerlega um það því eftir að hann fór að panta Jagermeister í liðið varð ekki aftur snúið. Og það var þá sem ég var uppgötvuð krakkar mínir! Heldur betur, var bara að dansa salsa við Írana þegar það vatt sér að okkur maður sem sagðist vera salsakennari og að ég væri með gífurlega öfluga, náttúrulega hæfileika á sviði salsa! Léleg pikköpplína? Nehei, guðdómlegir hæfileikar. Er að íhuga að flytja suður á bóginn og deila fimi minni með salsaveröldinni, en vil nú ekki skyggja á þá sem hafa eytt mörgum árum í að æfa þetta. Svona er maður nú hógvær.
Dagur 5: Skunduðum af stað í íslenska sendiráðið þar sem við sátum örugglega 5 fyrirlestra um þjónustutilskipunina, starfsemi sendiráðsins, Schengen og fleira sniðugt. Ónefndur aðili krotaði fýlukarla á dagskrána sína sem hann svo sýndi einum fyrirlesaranna, og var í kjölfarið í snatri sendur aftur á kisudeildina á Sunnuborg þar sem hann átti að rifja upp nokkur grundvallaratriði. Við hin fengum að fara í kokteilboð í sendiráðinu þar sem við átum og drukkum og vorum glöð. Hluti hópsins fór aftur að dansa salsa um kvöldið en ég borðaði bara ís og fór heim að lúlla, enda búin að ná toppnum í salsadeildinni og ekki mikið meira fyrir mig að gera þar.
Dagur 6: Byrjuðum í EFTA og fórum þaðan yfir í ESA, allt mjög ánægjulegt, og enduðum daginn í Evrópuþinginu þar sem við gengum óvart inn á trúnaðarfund í þingsalnum og fengum ýmsar skýrar og frekar dónalegar handabendingar að launum. Á endanum fengum við að setjast inn í þingsalinn og hlusta á fundinn, sem var algjörlega ótrúlega æðislegt!!! Þetta var líka augnablikið sem margir (þar á meðal undirrituð sjálf) gerðu sér grein fyrir hversu mikil nörd við raunverulega erum. Um kvöldið fór fólk eitthvað að sukka en við Eva vorum komnar með algerlega nóg af áfengi og látum svo við fórum bara í joggaranum í bíó, þar sem við sátum steinþegjandi í tvo tíma og horfðum á Capote. Mjööög þægilegt.
Dagur 7: Allt í steik í Brussel því það var leiðtogafundur, urðum þess vegna að labba endalausa króka í kringum gaddavír, brynvarða bíla og FBI menn (í Evrópu? Skil ekki...) til að komast loksins í Framkvæmdastjórn ESB. Þar sátum við ótrúlega gagnslausan fyrirlestur um allskonar sem við vissum öll fyrir, og vorum fegin að sleppa út í kaosið aftur að honum loknum. Þá var farið að versla og vesenast, skelltum okkur í kínverskan stórmarkað og fundum mat sem var bragð af, í fyrsta skipti í ferðinni. Þegar hópurinn var að missa sig í hinum stórhættulega drykkjuleika "ég hef aldrei" stungum við nokkur af og fórum heim að pakka.
Dagur 8: Hrúguðumst sybbin út í rútu sem reyndist bensínlaus. Hrúguðumst út úr henni og inn í aðra. Eftir um það bil eins og hálfs tíma ferð fórum við að sjá ferðatöskur svífa framhjá gluggunum og lenda í mykjunni í vegarkantinum. Þá hafði farangurshólfið opnast og við þustum út að hlaupa á eftir töskum um allt. Eftir þann skemmtilega ratleik vorum við allavega öll vöknuð. Við löbbuðum svo inn á Schipholl lyktandi eins og bændaskólinn á Hvanneyri. Og svo flugum við heim. Jei!
Myndirnar mínar eru hræðilegar því ég nennti aldrei að hafa myndavél á mér, en þær eru samt á vettlingur.myphotoalbum.com. Það er örugglega dónalegt að benda á annarra myndasíður en Eva er með betri myndir á aldingardurinn.myphotoalbum.com.
Langilangi póstur.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Brussel - dagur 3

Ég er búin að vera að bíða með restina af ferðasögunni þar til ég fengi myndir frá hinum í ferðinni því ég var svo ódugleg að taka þær sjálf, en það virðist ætla að dragast og ég vil punkta þetta niður fyrir sjálfa mig áður en ég gleymi alveg hvað gekk á. Svo engar almennilegar myndir...
Dagur 3: Fyrsta heimsóknin okkar var í höfuðstöðvar NATO, sem komu á óvart aðallega fyrir lélegan arkitektúr. Þetta var eins og að keyra (eftir svaaakalegt öryggistékk í kuldanum) inn í austur-evrópska martröð. Seinna var okkur sagt að byggingarnar eru gamall geðspítali (sem útskýrir líklega gluggaleysið, bólstruðu veggina og spennitreyjurnar. Allt í lagi, gluggaleysið. Og litlu hárgreiðslustofuna)... Við löbbuðum í ferlega fínni, einfaldri röð, mjög óíslenskt, vegna þess að einhver fór að grínast með að það væru leyniskyttur á svæðinu sem plöffuðu niður þá sem ekki héldu sig snyrtilega í röðinni sinni. Við hlógum móðursýkislega og einbeittum okkur, fínni röð hef ég aldrei séð (enda var enginn skotinn á leiðinni).
Fyrsti fyrirlesarinn var bandarískur maður, mjög skemmtilegur en frekar lítið á honum að græða þar sem hann kom aðallega með staðlaðan kynningaráróður, borinn fram með perluhvítu brosi og bröndurum á réttum stöðum.
Næstur í röðinni var Tyrki sem hélt frábæran fyrirlestur um helstu aðgerðir NATO, sem ég gæti sagt meira frá ef ég hefði ekki verið að einbeita mér að því að kafna eins hljóðlega og ég gæti í eigin hósta. Ég dó næstum, en boj ó boj hvað ég hefði dáið hljóðlega. Svona er maður vel uppalinn.
Þá var komið hádegishlé, og af því túlkarnir eru með samning uppá einn og hálfan tíma í mat þá fara allir í svo langan mat með þeim, því ekki viljum við að NATO offiserar fari að misskilja hvern annan og allt fari í bál og brand yfir málfræðirugli meðan túlkarnir gúffa í sig einum af sex réttum sem voru í boði þennan daginn. Ég kaus pasta, sem var svo vel útilátið að þessi eini og hálfi tími nægði mér ekki til að klára það. Það sveltur enginn í NATO.
Við ultum aftur inn í gluggalausa salinn okkar til að heyra belgíska konu halda frábæran fyrirlestur um hlutverk NATO í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ótrúlega merkilegt alltsaman.
Þá hinsvegar fór að syrta í álinn. Við marseruðum á fund íslensku sendinefndarinnar, með miklar væntingar eftir frábæra dagskrá. Það sem við fengum voru hinsvegar þrír menn sem hlógu að spurningunum okkar og svöruðu þeim með yfirlæti og áhugaleysi. Við vorum frekar svekkt þegar okkur var smalað þaðan út (og ég var pínu sjóveik því einn strákurinn í hópnum hristi á sér fótinn allan fundinn), en það entist ekki lengi því sendiherrann hafði boðið okkur heim til sín í kokteil og þau hjónin eru sko ekki sjabbí gestgjafar. Það var svoleiðis borið í okkur mat og drykk, (humarsúpan, naaaaaaaaaamm!) og þau hjónin spjölluðu við okkur um allt sem við gátum mögulega viljað vita með bros á vör. Við rúlluðum þaðan út (sumir vegna vínsins, aðrir vegna matarins...) sæl og glöð og sööödd. Við gerðum svo eitthvað meira um kvöldið en það getur ekki verið merkilegt þar sem ég man ekkert hvað það var. Enda pínu létt eftir allt vínsullið...