miðvikudagur, apríl 12, 2006

Brussel - rest

Brjálað að gera á öllum vígstöðvum og mér er sagt að klára ferðasöguna? Nú jæja, hér er short version:
Dagur 4: Fórum í SHAPE herstöðina í mjög skemmtilegan fyrirlestur og panel spurningasessjón með þremur sæmilega háttsettum dúddum, sem svöruðu fyndið og gáfu Evu penna með útvarpi í fyrir að koma með bestu spurninguna og Hauki fyrir að vera mesta nördið. (Hversu oft á ævinni mun NATO hershöfðingi í fullum skrúða segja við þig: "Get a life"? Magnað!). Þaðan fórum við með krúttlegt nesti frá NATO í poka (hvað er lúðalegra en að standa innan um alla hermennina í SHAPE með samloku og epli í plastpoka?) og héldum í Ráðherraráð ESB. Þar tók á móti okkur hress (og pínu fullur) ítalskur eðlisfræðingur sem talar 10 tungumál og fær hiklaust verðlaunin fyrir skemmtilegasta fyrirlesturinn. Ætlaði að taka hann með heim en hann muldraði eitthvað um fjölskyldu, ólaunað leyfi og kjarasamninga og stakk af. Um kvöldið lenti ég svo saklaus í djammi, og vil ég hér með kenna Gulla algerlega um það því eftir að hann fór að panta Jagermeister í liðið varð ekki aftur snúið. Og það var þá sem ég var uppgötvuð krakkar mínir! Heldur betur, var bara að dansa salsa við Írana þegar það vatt sér að okkur maður sem sagðist vera salsakennari og að ég væri með gífurlega öfluga, náttúrulega hæfileika á sviði salsa! Léleg pikköpplína? Nehei, guðdómlegir hæfileikar. Er að íhuga að flytja suður á bóginn og deila fimi minni með salsaveröldinni, en vil nú ekki skyggja á þá sem hafa eytt mörgum árum í að æfa þetta. Svona er maður nú hógvær.
Dagur 5: Skunduðum af stað í íslenska sendiráðið þar sem við sátum örugglega 5 fyrirlestra um þjónustutilskipunina, starfsemi sendiráðsins, Schengen og fleira sniðugt. Ónefndur aðili krotaði fýlukarla á dagskrána sína sem hann svo sýndi einum fyrirlesaranna, og var í kjölfarið í snatri sendur aftur á kisudeildina á Sunnuborg þar sem hann átti að rifja upp nokkur grundvallaratriði. Við hin fengum að fara í kokteilboð í sendiráðinu þar sem við átum og drukkum og vorum glöð. Hluti hópsins fór aftur að dansa salsa um kvöldið en ég borðaði bara ís og fór heim að lúlla, enda búin að ná toppnum í salsadeildinni og ekki mikið meira fyrir mig að gera þar.
Dagur 6: Byrjuðum í EFTA og fórum þaðan yfir í ESA, allt mjög ánægjulegt, og enduðum daginn í Evrópuþinginu þar sem við gengum óvart inn á trúnaðarfund í þingsalnum og fengum ýmsar skýrar og frekar dónalegar handabendingar að launum. Á endanum fengum við að setjast inn í þingsalinn og hlusta á fundinn, sem var algjörlega ótrúlega æðislegt!!! Þetta var líka augnablikið sem margir (þar á meðal undirrituð sjálf) gerðu sér grein fyrir hversu mikil nörd við raunverulega erum. Um kvöldið fór fólk eitthvað að sukka en við Eva vorum komnar með algerlega nóg af áfengi og látum svo við fórum bara í joggaranum í bíó, þar sem við sátum steinþegjandi í tvo tíma og horfðum á Capote. Mjööög þægilegt.
Dagur 7: Allt í steik í Brussel því það var leiðtogafundur, urðum þess vegna að labba endalausa króka í kringum gaddavír, brynvarða bíla og FBI menn (í Evrópu? Skil ekki...) til að komast loksins í Framkvæmdastjórn ESB. Þar sátum við ótrúlega gagnslausan fyrirlestur um allskonar sem við vissum öll fyrir, og vorum fegin að sleppa út í kaosið aftur að honum loknum. Þá var farið að versla og vesenast, skelltum okkur í kínverskan stórmarkað og fundum mat sem var bragð af, í fyrsta skipti í ferðinni. Þegar hópurinn var að missa sig í hinum stórhættulega drykkjuleika "ég hef aldrei" stungum við nokkur af og fórum heim að pakka.
Dagur 8: Hrúguðumst sybbin út í rútu sem reyndist bensínlaus. Hrúguðumst út úr henni og inn í aðra. Eftir um það bil eins og hálfs tíma ferð fórum við að sjá ferðatöskur svífa framhjá gluggunum og lenda í mykjunni í vegarkantinum. Þá hafði farangurshólfið opnast og við þustum út að hlaupa á eftir töskum um allt. Eftir þann skemmtilega ratleik vorum við allavega öll vöknuð. Við löbbuðum svo inn á Schipholl lyktandi eins og bændaskólinn á Hvanneyri. Og svo flugum við heim. Jei!
Myndirnar mínar eru hræðilegar því ég nennti aldrei að hafa myndavél á mér, en þær eru samt á vettlingur.myphotoalbum.com. Það er örugglega dónalegt að benda á annarra myndasíður en Eva er með betri myndir á aldingardurinn.myphotoalbum.com.
Langilangi póstur.

Engin ummæli: